149. löggjafarþing — 93. fundur,  10. apr. 2019.

landlæknir og lýðheilsa og réttindi sjúklinga.

757. mál
[20:15]
Horfa

Una María Óskarsdóttir (M):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir kynningu á frumvarpi sem hér liggur fyrir um breytingu á lögum um landlækni og lýðheilsu og lögum um réttindi sjúklinga, kvartanir og ábendingar. Frumvarp þetta snýst um, eins og kemur fram í greinargerð, að skýra heimildir til kvörtunar til embættis landlæknis vegna heilbrigðisþjónustu. Sú setning gerir það að verkum að óhætt er að fagna því að þær heimildir séu skýrðar, því að það er fjölgun á þeim sem telja sig þurfa að leita til embættis landlæknis vegna ýmissa atriða sem hafa komið upp í heilbrigðisþjónustunni.

Embætti landlæknis er mjög mikilvæg stofnun og gegnir mikilvægu hlutverki í eftirliti með heilbrigðisþjónustu og heilbrigðisstarfsmönnum og eru heimildir rýmkaðar samkvæmt frumvarpinu. Tengt því kemur fram í 12. gr., um eftirlit með heilbrigðisþjónustu — maður hefur í ríkari mæli heyrt af fólki, þessu frumvarpi tengt og ég vil benda á þetta í því sambandi, sem lendir í því að fara til læknis og fara í blóðprufu eða annað og síðan hefur vinnulagið verið þannig að viðkomandi sjúklingur á sjálfur að hringja í lækninn. Þetta hefur alla vega verið vinnulag hjá einstökum læknum. Ég veit að það hefur leitt til þess að sjúklingur hefur ekki hringt og dauðsföll hafa orðið í framhaldi af því sem mega rekja til þess, ef sjúklingur hefði komist undir læknishendur hefði verið hægt að bjarga honum.

Mér finnst þetta mikið áhyggjuefni. Sjúklingar eiga rétt á bestu fáanlegu þjónustu, sem lög um heilbrigðisþjónustu mæla fyrir um. Þessi aðferð, sem ég vil ekki fullyrða að sé hjá öllum læknum, að óska eftir því að sjúklingurinn hringi, er ekki í samræmi við þann rétt sjúklinga að mínu mati.

Mig langaði að koma því hér til hæstv. ráðherra í tengslum við þetta nýja frumvarp sem væntanlega fer til umfjöllunar hjá velferðarnefnd þingsins. Þar verður fjallað um það og tekin ákvörðun um hvort gera þurfi breytingar eða ekki.