149. löggjafarþing — 93. fundur,  10. apr. 2019.

almenn hegningarlög o.fl.

796. mál
[20:58]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir ræðuna og fyrir að leggja þetta mál fram. Ég held að hér sé um mjög brýnt mál að ræða. Þrátt fyrir að hæstv. ráðherra hafi nefnt að ekki lægju fyrir nein opinber gögn eða greining á því hvort kennitöluflakk væri raunverulegt vandamál held ég að við vitum öll að svo er.

Ég tek líka undir það sem hæstv. ráðherra kom mjög vel inn á, mikilvægi þess að hlutir megi auðvitað mistakast. Það er eðlilegur hluti af atvinnulífinu að fyrirtæki fari á hausinn, eins og við orðum það. Það er ekkert óeðlilegt. Við kennum börnunum okkar að ef okkur mistekst, ef við dettum niður þá stöndum við upp og reynum aftur. En það er vandratað í kringum lögin, hvernig hægt sé að taka á því, eins og hæstv. ráðherra komst vel að orði, þegar verið er að misnota svo mikilvægt félagaform sem hlutafélagaformið er.

Ég hef ítrekað fengið pósta, símtöl og samtöl um mikilvægi þess að við tökum á einhvern hátt á svona málum. Ég hitti töluvert af atvinnurekendum, oft minni aðila, iðnaðarmenn, verktaka og aðra, sem finna fyrir því að aðilar þarna úti stunda kennitöluflakk. Það sem ég held að mikilvægt sé að horfa á er að þetta eru ýmiss konar almenn brot, útúrsnúningar, verið að reyna að komast fram hjá hlutunum. Ef aðilar hafa annaðhvort einbeittan brotavilja eða þá engan metnað í því að fylgja almennu siðferði og reglum er það ekki bara hvað varðar að fá sér nýja kennitölu reglulega, eiga kannski nokkrar kennitölur og halda úti sæmilegum rekstri á þeim vitandi það að ein og ein getur farið í þrot öðru hvoru, það er margt annað sem kemur inn í. Það geta verið skattundanskot, það getur verið óeðlileg framkoma og launagreiðslur til starfsmanna. Það er svo margt í þessu.

Mig langaði að minnast á að það eftirlit sem haft var á vinnustöðum og var samstarf ríkisskattstjóra, Vinnumálastofnunar, held ég örugglega, og svo komu verkalýðsfélögin að því mæltist mjög vel fyrir hjá mörgum atvinnurekendum. Ég hef fengið alla vega tvær ábendingar um að setja það á fót aftur. Ég þykist vita ákveðnar ástæður fyrir því að stofnanir eiga oft erfitt með að deila á milli sín upplýsingum en ég held að það sé engu að síður mjög mikilvægt þegar við tölum um mikilvægi þess að hafa heilbrigt atvinnulíf og heilbrigðan samkeppnismarkað að þetta eftirlit eða utanumhald sé alltumlykjandi. Þegar einstaklingar reyna klárlega að skjóta sér undan lögum og reglum þarf að fylgjast vel með því.

Ég ítreka að ég fagna því mjög að málið sé fram komið. Ég tek líka undir það sem hæstv. ráðherra kom inn á, að þetta væri fyrsta skrefið. Við þurfum að feta okkur af stað í einhverja vegferð. Það er mikilvægt og kemur skýrt fram í þessu máli að það eru Samtök atvinnulífsins eða atvinnulífið sjálft sem kallar eftir því. Það er mikilvægt fyrir fyrirtæki að búa við heilbrigða samkeppni á markaði.

Á sama tíma má löggjöfin aldrei vera þannig að ekki megi gera mistök. Frumkvöðla- og nýsköpunarstarfsemi er eðli málsins samkvæmt þannig að það mistekst stundum og þá viljum við ekki refsa fólki svo að það geti ekki staðið upp og reynt aftur.

Mig langar að nota tækifærið fyrst við erum að ræða félagalögin og benda á að í nefndaráliti utanríkismálanefndar frá síðasta þingi var utanríkisráðherra falið að halda utan um það verkefni, þar sem við vorum að fjalla um mál hans, en það kæmi væntanlega einnig inn á borð hæstv. ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, sem heldur utan um lög um félagaformið, að skoða möguleikana á nýju félagaformi er lýtur að samstarfi opinberra aðila og einkaaðila, því sem útleggst á ensku, með leyfi forseta, „PPP“ eða „Public-private partnership“. Ég vil halda því til haga að örugglega verði farið í þá vinnu. Ég held að það sé mikilvægt.

Annars segi ég bara að ég fagna frumvarpinu mjög og vona að það fái góða umfjöllun í nefnd og verði afgreitt héðan sem fyrst því að þetta er örugglega mjög mikilvægt fyrsta skref í þeirri vegferð okkar að ráða bót á þeirri meinsemd sem er þegar fólk misnotar félagaformið.