149. löggjafarþing — 93. fundur,  10. apr. 2019.

almenn hegningarlög o.fl.

796. mál
[21:04]
Horfa

Óli Björn Kárason (S):

Herra forseti. Ég fagna því að við séum að ræða frumvarp hæstv. ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra um breytingu á almennum hegningarlögum þar sem verið er að sporna við því sem við höfum kallað kennitöluflakk þó að það vefjist stundum fyrir mönnum að skilgreina hvað átt sé við með kennitöluflakki. Stundum er líkt og menn séu bara að ræða um venjuleg og það sem ég kalla heiðarleg gjaldþrot vegna þess að það eru auðvitað til heiðarleg gjaldþrot. Það er í eðli mínu að fara alltaf í varnarstöðu þegar löggjafinn eða framkvæmdarvaldið kemur fram með frumvarp þar sem um íþyngjandi aðgerðir er að ræða gagnvart einstaklingum og/eða fyrirtækjum. Það á við um þetta frumvarp að því leyti að það er vissulega verið að feta hér veginn til að leggja byrðar á einstaklinga eða íþyngja einstaklingum og það kann að vera að við séum farin að nálgast óþægilega eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar.

Þegar ég tala um kennitöluflakk hér, og ég hygg að það sé gegnumgangandi sami skilningurinn og er í frumvarpinu er í raun um að ræða ásetning eigenda eða stjórnenda fyrirtækja að koma eignum undan og hefja nýjan rekstur á nýrri kennitölu, að þrotabúið sé skilið eftir eignalaust, lánardrottnar í sárum, viðskiptavinir í sárum o.s.frv. Þetta er vandamál sem við höfum þurft að glíma við í mörg ár og líklegast svo langt sem viðskiptin ná og heimild til að stofna hér félög með takmarkaðri ábyrgð. Þetta frumvarp miðar að því að leysa þennan vanda, a.m.k. að hluta.

Þessi háttsemi, kennitöluflakkið, samkvæmt minni skilgreiningu og skilgreiningu frumvarpsins, sviksamleg, er auðvitað meinsemd. Hún er merki um óheilbrigða viðskiptahætti og það sem meira er og er kannski verst, hún er ósanngjörn þegar kemur að heiðarlegum eigendum í viðskiptalífinu. Eins og hæstv. ráðherra vék að sameinuðust Samtök atvinnulífsins og Alþýðusambandið fyrir tæpum tveimur árum um tillögur til að vinna að sviksamlegri atvinnustarfsemi og ég get á margan hátt tekið undir þær tillögur, þ.e. að því leyti að markmið þeirra er göfugt. Ég tek undir með Samtökum atvinnulífsins og ASÍ þegar bent er á að það er til mikils að vinna fyrir þjóðfélagið allt að tryggja hér heilbrigt viðskiptalíf. Tjónið sem við verðum öll fyrir lendir á heiðarlegum fyrirtækjum, heiðarlega reknum fyrirtækjum, á ríkissjóði, á lífeyrissjóðum, á launafólki, á neytendum, stéttarfélögum og lánardrottnum. Það er hins vegar þannig að ef ég fæ að sækja, eins og ég geri stundum, í reynslubrunn í Bandaríkjunum hafa menn þar oft á orði að enginn sé í raun alvöruviðskiptamaður fyrr en hann hefur reynt það, gengið í gegnum þá reynslu, að horfa á fyrirtæki sem hann hefur verið að berjast við að byggja upp og lagt allt sitt undir verða gjaldþrota einu sinni eða jafnvel tvisvar, allt með heiðarlegum hætti. Við eigum slíka sögu hér líka af íslenskum viðskiptamönnum, bæði í nútíð og fortíð, sem hafa lagt allt sitt undir, byggt upp fyrirtæki, sum hver glæsileg, en síðan hafa rekstrarforsendur brugðist og fyrirtæki siglt í þrot en viðkomandi athafnamenn, vegna þess að þetta eru athafnamenn, hafa ekki gefist upp, byrjað aftur, byggt upp fyrirtæki og kannski í annarri eða þriðju tilraun tekist ætlunarverkið og við höfum fengið að njóta góðs af því.

Í Bandaríkjunum er það a.m.k. þannig að almennt líta menn svo á að þegar forráðamenn fyrirtækja sigla í strand eftir heiðarlega tilraun til að byggja upp fyrirtæki sé þjóðfélagið allt búið að fjárfesta í gríðarlegri þekkingu og reynslu viðkomandi og það megi ekki með neinum hætti fórna þeirri reynslu og þeirri þekkingu og því eigi að ýta undir með mönnum sem hafa öðlast þessa reynslu og þessa þekkingu. Þetta segi ég bara til að það liggi fyrir að það er svo mikilvægt, þegar við glímum við að koma í veg fyrir sviksamlega starfsemi í viðskiptum, sem bitnar á okkur öllum, að við höfum alltaf í huga að við göngum ekki fram með þeim hætti að við drögum úr löngun einstaklinga, og ég tala nú ekki um löngun ungs fólks, til að skapa sér sjálfstæðan grundvöll í rekstri eigin fyrirtækis. Við megum ekki tala með þeim hætti eða gera það tortryggilegt að ekki takist í fyrstu tilraun að byggja upp fyrirtæki þannig að vinirnir eða þeir sem á eftir koma veigri sér við því vegna þess að það sé einhver smánarblettur í sjálfu sér að takast ekki ætlunarverkið í fyrstu tilraun. En allt er það undir þeim formerkjum að heiðarlega sé að verki staðið en ekki með sviksamlegum hætti eins og verið er að reyna að taka á í þessu frumvarpi.

Ég verð að taka fram að ég styð frumvarpið eða meginefni þess. Það á auðvitað eftir að fara í þinglega meðferð. Það er svo gott að vita af því að ég og hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir, sem talaði hér á undan, höfum það að verkefni með félögum okkar í efnahags- og viðskiptanefnd. Frumvarpið er gott innlegg í baráttunni sem við þurfum að vera tilbúin til að fara út í gegn óheiðarlegum viðskiptum en vegurinn á milli þess að koma böndum á óheiðarleikann og tryggja atvinnufrelsi borgaranna er vandrataður. Við verðum að feta þann veg hægt, af skynsemi og það er betra að fara aðeins of stutt, fara styttri vegalengd en við ætlum, en að fara of langt og brjóta niður eða ganga gegn atvinnufrelsi borgaranna og með einhverjum hætti hindra eðlileg viðskipti, eðlilegar framfarir og eðlilega hvata til að byggja upp og stofna fyrirtæki.

Ég hygg að í þessu sambandi sé gott fyrir okkur hér, gott fyrir okkur í efnahags- og viðskiptanefnd en ekki síður fyrir aðra hv. þingmenn, að velta fyrir okkur hvort það sé ekki eitthvað í regluverkinu sjálfu sem við getum breytt og gert það auðveldara að stofna fyrirtæki, gert það ódýrara að stofna fyrirtæki, einfalda það með þeim hætti að jafnvel fermingarstrákurinn eða fermingarstelpan stofni sitt eigið fyrirtæki fyrir sumarið við garðsláttinn eða hvað sem er, aðra þjónustu við samborgarana.

Við eigum að hafa umhverfið hér, rekstrarumhverfið, þannig að það sé auðvelt og það sé kostnaðarlítið að hefja rekstur. Við eigum að hafa svigrúm til þess að einstaklingar og samtök þeirra geti tekið áhættu. Við þurfum að tryggja að þær reglur og þau lög sem við setjum til að sporna við kennitöluflakki, sviksamlegri atvinnustarfsemi, veiti þeim sem verða fyrir slíkri starfsemi vernd en gangi ekki of langt.

Þetta er það sem ég vildi sagt hafa, herra forseti. Ég taldi rétt að koma þessum sjónarmiðum mínum á framfæri. Við hefjumst handa eftir þessa umræðu við þinglega meðferð málsins í efnahags- og viðskiptanefnd og verkefnið er brýnt. Það er skemmtilegt en það er líka krefjandi.