149. löggjafarþing — 93. fundur,  10. apr. 2019.

almenn hegningarlög o.fl.

796. mál
[21:16]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir afbragðsgóða ræðu. Hann hóf ræðu sína á því að segjast fara í varnarstöðu við að berja þetta frumvarp augum. Ég vildi bara koma hingað upp og segja að mér líður mjög vel með það að formaður efnahags- og viðskiptanefndar fari í varnarstöðu í svona máli vegna þess að hv. þingmaður nefndi líka að efni frumvarpsins væri íþyngjandi og það er alveg rétt. Þess vegna treysti ég hv. þingmanni mjög vel fyrir málinu í nefndinni.

Þetta er mjög mikilvæg aðgreining og mikilvægt að hafa það alltaf í huga í umræðu um þessi mál að gjaldþrot er eitt og misnotkun á hlutafélagaforminu er annað. Það er hinn vandrataði vegur og um það erum við hv. þingmaður sammála. Það er verkefnið en ég ítreka að það er löngu kominn tími á að fara í þetta verkefni. Öll nágrannaríki okkar hafa gert það fyrir löngu og það er kominn tími á að við gerum það sömuleiðis.

Við hv. þingmaður deilum því að vera mjög áfram um heilbrigt atvinnulíf og heilbrigða samkeppni og að heiðarlegir eigendur í viðskiptalífinu geti fikrað sig áfram. Þetta frumvarp er innlegg í það. Nú fer það í þinglega meðferð. Það skiptir máli að nefndin skoði þetta allt saman mjög vel en heilt yfir kallar þetta frumvarp á þroskaða umræðu hér á þingi en líka úti í samfélaginu. Ég er viss um að það mun reyna á það og við höfum hlutverki að gegna í því. Það þarf að gæta meðalhófs, gjaldþrot er mjög eðlilegur hluti af viðskiptalífi og skiptir öllu máli að því fylgi engin smán. Auðvitað eru mjög margir fjárfestar sem aðeins vilja fjárfesta í fyrirtækjum sem hafa einstaklinga innan borðs sem áður hafa farið á hausinn af því að af því lærir maður líka.