149. löggjafarþing — 93. fundur,  10. apr. 2019.

almenn hegningarlög o.fl.

796. mál
[21:23]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég er sammála hæstv. ráðherra að það er skynsamlegra fyrir alla að taka lítil skref og vita hvað við erum að gera en að taka stór skref og vita ekkert hvert við erum að fara. Þar er ég með hæstv. ráðherra, í þessu eins og eiginlega öllu öðru, hvort heldur er í þessu máli eða öðrum, orkupakka eða guð má vita hvað.

Markmiðið hjá okkur, og við eigum bara að segja það, er að við ætlum að ýta undir hina heiðarlegu. Við ætlum að gera þeim lífið einfaldara, auðveldara, ýta undir með fólki sem vill stunda heiðarleg viðskipti og taka áhættu. Við ætlum um leið að koma böndum á skúrkana sem stunda viðskipti á okkar kostnað, sem stunda viðskipti á kostnað neytenda, á kostnað ríkissjóðs, á kostnað launþega og kostnað keppinautanna.

Það skiptir líka máli að við sameinumst um að reyna að hafa leikreglurnar allar skýrar og einfaldar vegna þess að flóknar leikreglur eru fyrst og fremst fyrir hina stóru og ganga gegn hinum minni, þær draga úr nýsköpun, gera einstaklingum erfiðara fyrir að hasla sér völl með nýjar hugmyndir til að ganga á hólm við stórfyrirtækin með nýja vöru, nýja tegund af þjónustu og nýja hugsun. Þess vegna eigum við að vanda okkar verk, hafa regluverkið allt einfalt, m.a. regluverk til að reyna að koma böndum á skúrkana en ég er með í þeirri vegferð.