149. löggjafarþing — 93. fundur,  10. apr. 2019.

almenn hegningarlög o.fl.

796. mál
[21:26]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mig langar að þakka hæstv. ráðherra framsöguna og hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég tek undir allt sem hv. þingmaður sagði í ræðu sinni, ég er honum hjartanlega sammála í því öllu saman, og langar að undirstrika það sem hefur svo sem komið fram um þá hugsun okkar um hið frjálsa markaðssamfélag að ríkið setji þó reglur, þ.e. leikreglurnar, við þrengjum ekki að einstaklingnum, við þrengjum ekki fyrirtækjunum, við þrengjum ekki að frjórri hugsun, við þrengjum ekki að þeim sem vilja blómstra og gera betur. Það sem hefur kannski vantað aðeins í umræðuna og mig langar að koma með inn í hana er að á herðum ríkisins er hins vegar eftirlitsskyldan. Við erum með opinbera eftirlitsaðila í ýmsum iðnaði og þar á meðal eftirlit með fyrirtækjum og eftirlitsskyldan er mikilvæg. Það er mikilvægt að hún sé öguð, að ekki sé gefið eftir.

Eins og gerðist í bankahruninu var í raun og veru ljóst löngu áður en illa fór að það var ekki í lagi. Ýmsar stofnanir innan ríkisins vissu af því en gerðu ekkert í því sem gerði það svo að verkum að lánardrottnar, birgjar, ríkið, skattborgarar og lífeyrisþegar töpuðu.

Spurning mín til hv. þingmanns er þessi: Telur hann að hluta vandans, þ.e. þessa kennitöluflakks, sé að finna m.a. meðal eftirlitsaðila og kannski í sumum tilfellum agaleysi í viðbrögðum, þ.e. að bregðast ekki við þegar og ef blikur eru á lofti með rekstrarhæfi fyrirtækja?