149. löggjafarþing — 93. fundur,  10. apr. 2019.

almenn hegningarlög o.fl.

796. mál
[21:35]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu um of en get þó ekki á mér setið að koma hér upp og fara nokkrum orðum um þetta góða frumvarp og fagna því að hæstv. ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra leggur það fram í dag. Ég átti orðastað við ráðherra fyrir skömmu um einmitt þetta málefni og það er ánægjulegt að það er kominn skriður á þetta knýjandi mál. Eins og hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir kom inn á áðan er þetta knýjandi verkefni sem við þurfum að takast á við.

Kennitöluflakk er hugtak sem hefur því miður fest dálítið í sessi í íslensku máli og hefur ekki yfir sér ýkja alvöruþrungið eða alvarlegt yfirbragð. Við höfum ótrúlegt umburðarlyndi gagnvart því að fara með kennitölur út um víðan völl, má segja. Eins og komið hefur fram í ágætum ræðum bæði hv. þm. Bryndísar Haraldsdóttur og hv. þm. Óla Björns Kárasonar á þetta sér ýmsar myndir og að jafnaði tengir þetta okkur við allt samfélagið. Það eru fjölskyldur, það eru fyrirtæki, það eru sveitarfélög og það er ríkissjóður. Á undanförnum árum hefur þjóðfélagið orðið fyrir milljarðatjóni vegna þeirra sem ég vil leyfa mér að kalla síþrotamenn. Það eru aðilar sem jafnvel markvisst og meðvitað stýra fyrirtækjum sínum í þrot, koma undan verðmætum, eignum og fjármunum og jafnvel búnaði. Á þessu meini verðum við að taka og ég trúi því að nú verði látið til skarar skríða.

Það er mikill vilji í atvinnulífinu almennt að ástunda gott siðferði í viðskiptum en í viðskiptalífinu eins og víðast í lífinu er svo margt sinnið sem skinnið. Það hafa verið gerðar kannanir meðal íslenskra fyrirtækja og það var gert á vegum Háskólans í Reykjavík fyrir nokkrum árum meðal nokkurra hundraða fyrirtækja og yfir 70% þeirra höfðu lent í tjóni vegna kennitöluflakks og tapað þar fjármunum. Meira en þriðjungur fyrirtækjanna sem tóku þátt í þessari könnun hafði tapað fjármunum oftar en sex sinnum. Þetta er alvarlegt og það var mikill vilji meðal meiri hluta stjórnenda að á þessu yrði tekið með lagasetningu. Þetta er samfélagsmein sem hefur verið til umfjöllunar æ ofan í æ en það gerist lítið. Samtök iðnaðarins hafa sömuleiðis verið mjög harðorð í sinni gagnrýni og hafa farið í herferðir gegn kennitöluflakki.

Það er ekki svo að Alþingi hafi setið alveg aðgerðalaust hjá því að það eru tíu ár, heill áratugur, frá því að fjórir þingmenn lögðu fram frumvarp hér þessa efnis (Félmrh.: Það þurfti svona góða ríkisstjórn.) og hvar stöndum við í dag? Við stöndum akkúrat í sömu sporum. Hæstv. félags- og barnamálaráðherra bendir á í kurteislegu frammíkalli að það hafi þurft svona góða ríkisstjórn eins og nú er við völd til að breyta. Mæli hann manna heilastur, ég vænti þess að ríkisstjórnin muni gera þær breytingar sem nauðsynlegt er að gera.

Það hefur komið fram í ræðum hv. þingmanna í kvöld að við megum ekki fara fram með offorsi, ekki ganga of langt en það að mjakast úr sporunum er strax í áttina því að það höfum við ekki gert.

Í skýrslu vinnuhóps sem áðurnefndur hæstv. félags- og barnamálaráðherra skipaði fyrir skömmu og skilaði af sér í byrjun ársins sem fjallaði um félagsleg undirboð og brotastarfsemi á vinnumarkaði er kennitöluflakk metið sem eitt alvarlegasta meinið á íslenskum vinnumarkaði. Það er sett langefst á listann yfir það sem þarf að taka fyrir og gera það tafarlaust. Þess má líka geta, eins og ég nefndi áður, að Samtök iðnaðarins og ASÍ, Alþýðusamband Íslands, hafa verið vakin og sofin gagnvart þessu, bent stjórnvöldum á þetta mein æ ofan í æ. Það er ekki við hagsmunaaðila á vinnumarkaði að sakast. Á þetta hefur verið bent ítrekað.

Virðulegur forseti. Hæstv. ráðherra benti á það í ræðu sinni þegar hún talaði fyrir þessu frumvarpi til breytingar á almennum hegningarlögum — þetta heyrir undir hegningarlög, við erum að tala um alvarlega brotastarfsemi á vinnumarkaði — að ekki mætti ganga of langt, ekki mætti ætla sér um of og hefta sprotafyrirtæki, hefta nýsköpun og hefta frumkvöðla. Um það erum við hjartanlega sammála, við eigum að ýta undir allt slíkt og greiða götu nýsköpunar í verki með öllum mögulegum ráðum, efla frumkvöðlastarfsemi og sprotafyrirtæki. Það er hægt að gera með ýmsu móti og það verður að hafa það að leiðarljósi að gott siðferði sé ríkjandi allar stundir.

Nefnt var nokkuð að það mætti kannski virkja meira leiðbeiningar og auðvitað er það uppbyggilegra og betra. Eins var á það bent að við ættum að stefna að því að gera það einfaldara að stofna fyrirtæki, gera það ódýrara og hvetja til þess. Ég tek undir það, það er skapandi iðja að stofna og starfrækja fyrirtæki og lærdómsríkt eins og komið hefur fram og auðvitað er líka í því fólginn lærdómur að fara á hausinn. Ég geri ráð fyrir því. Ég held samt að flest heiðarlegt fólk vildi gjarnan vera án þeirrar lífsreynslu.

Hv. þm. Óli Björn Kárason nefndi að í þessu frumvarpi væru íþyngjandi atriði. Ef hann telur það íþyngjandi atriði að gera mönnum erfiðara að fara á hausinn verður svo að vera og mér finnst það bara í lagi. En hv. þingmaður kom líka inn á það að auðvitað megum við ekki horfa fram hjá því að áföll geta dunið yfir, ófyrirséð, áföll sem ekki er hægt að hindra, og að menn verði gjaldþrota. Það er ekki verið að amast við því, að sjálfsögðu ekki, en við skulum vera minnug þess að nýlega varð gjaldþrota stórfyrirtæki í íslensku samfélagi og skilur eftir sig milljarðaskuldir. Það var ekki liðin vika þar til þessi sami frumkvöðull og öflugi stofnandi fyrirtækisins var kominn á kreik á ný með bros á vör og tilbúinn að stofna nýtt fyrirtæki af nákvæmlega sömu sort. Samfélagið brosti auðvitað út að eyrum og telur þetta ekkert slæma hugmynd. Við þurfum að lagfæra þennan hugsunarhátt, held ég, að einhverju leyti, leiðrétta hann.

Ég ætla ekki að hafa þetta lengra. Ég óska hæstv. ráðherra til hamingju með að hafa lagt þetta frumvarp fram og skora á hann og hv. þingmenn í efnahags- og viðskiptanefnd að taka á þessu máli með einurð og afgreiða þetta frumvarp sem lög frá Alþingi hið fyrsta.