149. löggjafarþing — 93. fundur,  10. apr. 2019.

húsaleigulög.

795. mál
[21:54]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir hans framsögu og fyrir að leggja fram þetta ágæta mál. Hér er á ferðinni að mínu mati ansi nútímaleg breyting. Það er horft til þess að aðstæður í íslensku samfélagi eru að breytast og það er líka verið að horfa til þess að tryggja réttarbætur leigjenda. Það er afar mikilvægt.

Búseta starfsmanna í húsnæði vinnuveitenda sinna er ekki ný saga á Íslandi og hefur verið langt aftur í aldir. Hv. þingmenn þekkja til að mynda verbúðir, vistir til sveita o.s.frv., þar sem starfsfólk hefur búið í húsnæði atvinnurekenda. Nú á dögum þekkist það kannski betur í ferðaþjónustu og þá kannski einkum og sér í lagi ferðaþjónustu úti á landi þar sem aðfluttir starfsmenn búa oft og tíðum í húsnæði sem er þá annaðhvort á vegum eða beinlínis í eigu viðkomandi vinnuveitenda.

Héðan af höfuðborgarsvæðinu þekkjum við einnig dæmi um þetta. Stór fyrirtæki í til að mynda hjúkrunarheimilarekstri á höfuðborgarsvæðinu hafa í langan tíma búið þannig að sínu starfsfólki að þau hafa getað boðið sumum þeirra húsnæði og á allra síðustu mánuðum hafa einmitt stór fyrirtæki í verslunarrekstri á höfuðborgarsvæðinu farið svipaða leið.

Það má segja, og það er eiginlega mitt mat á þessu frumvarpi, að ekki séu eingöngu hagsmunir launamannsins undir. Ég held að leigjandinn í þessu tilliti eða starfsmaðurinn hafi augljósa hagsmuni af því að hafa uppsagnarfrest en eigandi húsnæðisins hefur líka af því hagsmuni að starfsmaðurinn búi við þetta öryggi. Það má gera ráð fyrir því að starfsmaður sem býr við meira öryggi í húsnæði þess sem hann vinnur hjá sé líklegri en ella til að reynast góður starfsmaður, líklegri en ella til að haldast í vinnu þar sem hann er o.s.frv.

Það er hins vegar mikilvægt ákvæði sem hæstv. ráðherra kom inn á að leigjandinn geti með einhverju móti komist fyrr út úr húsnæðinu en kannski hefðbundnir leigusamningar segðu ella til um því að við þekkjum það líka í nútímaaðstæðum í samfélaginu að það er orðið meira um það en áður að starfsfólk elti vinnu, ef við getum kallað svo, kannski nú á seinni tímum, einkum og sér í lagi starfsfólk sem vinnur störf í ferðaþjónustu og við alls lags mannvirkjagerð.

Ég fagna því að þetta mál komi til hv. velferðarnefndar og mun a.m.k. leggja mig fram um að klára það. Þó að það líti ekki út fyrir að vera mikið að vöxtum er hér býsna mikilvægt mál á ferð sem skiptir verulegu máli að klára til að bæta stöðu þessara starfsmanna á vinnumarkaði en jafnframt að skýra réttindi beggja aðila.