149. löggjafarþing — 93. fundur,  10. apr. 2019.

menntun, hæfni og ráðning kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla.

801. mál
[22:14]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Ég verð að játa að ég er ekki alveg fullkomlega sannfærður en geri ráð fyrir að hv. allsherjar- og menntamálanefnd muni skoða þau atriði betur. Ég hef samt meiri áhyggjur af öðru sem hefur aðeins verið í umræðunni í samfélaginu eftir að frumvarpið kom fram. Heyrst hafa athugasemdir, og sumar hverjar alvarlegar, frá samtökum kennara og kannski meira frá einstökum kennurum á mismunandi skólastigum um hvort þetta sé skynsamlegasta skrefið að taka núna eða hvort það eigi að vera lengri aðlögunartími en gert er ráð fyrir í frumvarpinu.

Mig langar í seinna andsvari að inna hæstv. ráðherra eftir því hvort hún telji að sá tími sem er gefinn til gildistökunnar — fer ég ekki rétt með að það sé 1. júlí 2019, sem eru þá væntanlega örfáir mánuðir eða jafnvel örfáar vikur frá samþykkt frumvarpsins? — sé nægur fyrir stofnanir ráðuneytisins og skólana í landinu til að taka á nýju og breyttu umhverfi?