149. löggjafarþing — 93. fundur,  10. apr. 2019.

menntun, hæfni og ráðning kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla.

801. mál
[22:16]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að mjög brýnt sé þegar við ræðum skólamál á Íslandi að við horfumst í augu við þá stöðu sem uppi er. Fyrir það fyrsta er brotthvarf úr kennarastéttinni mjög mikið. Í öðru lagi varð, eftir að kennaranámið var lengt, því miður algjört hrun í aðsókn í kennaranámið. Aðsóknin jókst aðeins á árunum 2009–2010 en það er enn mikil kennaraþörf. Við höfum metið hana og þess vegna kynntum við aðgerðir til að styðja við nýliðun, sem ég segi að sé fyrsti áfanginn í þeirri vegferð. Við kynntum aðgerðir sem miða allar að því að auka áhugann, auka áhuga okkar allra á mikilvægi kennarans í samfélaginu. Kennsla er mikilvægasta starfið vegna þess að hún leggur grunninn að öllum öðrum störfum samfélagsins. Það sem ég tel að við munum sjá er frekari sérhæfing vegna þess að við erum komin með stærri hóp sem getur sótt um stöður. Það myndast ákveðinn hvati til þess að menn bæti við sig sérhæfingu eða námi með frumvarpinu.

Hv. þingmaður spurði hvort tímaramminn væri hugsanlega þröngur. Við fórum í þessa vegferð með það að leiðarljósi að ná utan um þetta og að lögin tæku gildi út frá þeim aðstæðum sem eru uppi. Ég geri ráð fyrir að þingmenn hafi séð þær fréttir sem komu frá Hagstofu Íslands í dag þar sem við sjáum enn frekari fjölgun á réttindalausum kennurum. Þess vegna segi ég, virðulegi forseti: Þetta er mjög brýnt mál og mjög tímabært.