149. löggjafarþing — 93. fundur,  10. apr. 2019.

menntun, hæfni og ráðning kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla.

801. mál
[22:19]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framsöguna á þessu máli sem ég tel að sé mjög gott. Það er löngu tímabært að gera eitthvað í því að efla kennaramenntun. Ég man eftir því þegar ég starfaði hér sem þingmaður fyrir tveimur árum að þá var ráðstefna uppi í háskóla um það ástand sem var að skapast í kennaramálum. Það voru sláandi upplýsingar um að innan við helmingur af útskrifuðum kennurum starfaði sem kennarar. Það sagði manni að það væri gríðarlega mikilvægt að gera eitthvað í því og ég fagna þeim áformum sem hæstv. menntamálaráðherra er að vinna að þessa dagana og ríkisstjórnin. Ég veit ekki hvort ég má vera að hæla mikið ríkisstjórninni af því að ég er í minni hluta (Gripið fram í.) en ég fagna þessu.

Það þarf ekki að fjölyrða um mikilvægi góðrar menntunar. Öflugur skóli með vel menntuðum kennurum á öllum skólastigum er algjör forsenda þess, eins og ráðherra nefndi áðan, að börn, ungmenni og svo hinn almenni borgari geti aflað sér þekkingar, færni og menntunar. Ég fagna því þessu frumvarpi og bind vonir við að það verði upphaf að styrkingu kennarastéttarinnar í landinu sem svo leiði að enn betra skólastarfi og víðtækari og betri menntun landsmanna.

Spurningin er: Getum við Íslendingar sagt að við séum vel menntuð þjóð? Eflaust eru mjög skiptar skoðanir á því eins og gefur að skilja. En í bók sinni Ríkið og rökvísi stjórnmála skrifaði dr. Páll heitinn Skúlason, fyrrverandi rektor Háskóla Íslands, að sú fullyrðing ætti e.t.v. ekki fyllilega við rök að styðjast. Þar fór fræðimaður sem fylgdist með menntamálum þjóðarinnar í hátt í fjóra áratugi. Hann taldi að við sem þjóð hefðum haft þá tilhneigingu að leggja mun meiri áherslu á fræðsluþáttinn en, eins og hann sagði, vanrækt menntunina sem lýtur að því að þroska hugsun nemenda okkar og skilning á þeim gildum sem samfélag manna krefst.

Í störfum mínum sem kennari veturinn 2011–2012 gerði ég óformlega könnun meðal nemenda á unglingastigi, fjórum efstu árgöngunum. Könnunin fólst í því að spyrja nemendur hvort þau gætu skilgreint fyrir mig hugtökin lýðræðisþjóðfélag, umburðarlyndi, kærleika, kristna arfleifð íslenskrar menningar, jafnrétti, lýðræðislegt samstarf, ábyrgð, umhyggju, sáttfýsi og virðingu. Er skemmst frá því að segja að innan við tíu nemendur af þeim 200 sem spurðir voru gátu skýrt út fyrir mér hvað þessi hugtök merktu og enginn þeirra öll. Þetta kom mér mjög á óvart, ekki síst í ljósi þess að fyrsti hluti 2. gr. grunnskólalaga, sem er markmiðsgrein laganna, hljóðar svona, með leyfi forseta:

„Hlutverk grunnskóla, í samvinnu við heimilin, er að stuðla að alhliða þroska allra nemenda og þátttöku þeirra í lýðræðisþjóðfélagi sem er í sífelldri þróun. Starfshættir grunnskóla skulu mótast af umburðarlyndi og kærleika, kristinni arfleifð íslenskrar menningar, jafnrétti, lýðræðislegu samstarfi, ábyrgð, umhyggju, sáttfýsi og virðingu fyrir manngildi.“

Þessi niðurstaða fékk mig til að hugsa um að hugsanlega væri pottur brotinn hvað það varðar að ná eiginlegum markmiðum grunnskólans og komast að sömu niðurstöðu og dr. Páll heitinn Skúlason, að hugsanlega hefði hin eiginlega menntun barna í grunnskólum okkar setið á hakanum á kostnað fræðslunnar.

Guðmundur Finnbogason, sá mikli fræðimaður, lýsti menntun í bók sinni Lýðmenntun á þennan hátt, með leyfi forseta:

„Menntun hvers manns verður að metast eftir því hve hæfur hann er til að lifa og starfa í mannlegu félagi, lifa og starfa þannig að líf hans verði með hverjum degi meira virði fyrir sjálfan hann og aðra.“

Nú, rúmri öld síðar, eiga þessi orð að vera leiðarljós sem við förum eftir þegar menntamál þjóðarinnar eru til umræðu, umræðu sem stöðugt á að eiga sér stað á tímum margbreytileika hans og þess mikla hraða sem einkennir samfélög nútímans. Skólakerfið okkar á að skila út í þjóðfélagið einstaklingum sem eru tilbúnir að leggja sig alla fram við að taka þátt í samfélaginu og samneyslunni, einstaklingum sem eru tilbúnir að byggja upp auðugt menningarlíf, umburðarlyndi, virðingu, umhyggjusama borgaravitund, öflugt atvinnulíf og nýsköpun á öllum sviðum.

Í bók sinni Virðing og umhyggja – Ákall 21. aldar segir Sigrún Aðalbjarnardóttir, með leyfi forseta, „að borgaravitund sé í raun hollustueiður við siðferðileg og pólitísk gildi í þágu samfélagsins“. Þetta segir mér hversu mikilvægt það er fyrir okkur sem þjóð að markmiðum sannrar menntunar sé náð. Vel menntaðir og víðsýnir kennarar á öllum skólastigum eru lykilmanneskjur í að ná þessum markmiðum.

Austurríski heimspekingurinn Rudolf Steiner sem lét sig mjög menntun varða og var uppi fyrir margt löngu sagði um hlutverk og mikilvægi kennara, með leyfi forseta:

„Þú verður ekki góður kennari ef þú einblínir eingöngu á það hvað þú gerir heldur hvernig og hvað þú ert. Kennarastarfið snýst nefnilega ekki um það hversu góða kennsluáætlun þú gerir heldur hvernig manneskja þú ert.“

Ég tek bara undir með hæstv. menntamálaráðherra og vona að þetta frumvarp fái góðan framgang og umræðu í allsherjar- og menntamálanefnd og verði samþykkt því að eins og hæstv. ráðherra sagði áðan er kennarastarfið gríðarlega mikilvægt fyrir okkur í samfélaginu. Það er án nokkurs vafa eitt mikilvægasta starfið í samfélaginu. Ég er sjálfur menntaður kennari, var svo ljónheppinn að útskrifast 2011 þannig að ég þurfti ekki að fara í lenginguna. Ég segi enn og aftur að góður kennari í skólanum getur verið lykilmanneskja í því að móta framtíð barna okkar og byggja þannig upp gott, heiðarlegt og sanngjarnt samfélag þar sem við hugsum vel um hvert annað.