149. löggjafarþing — 93. fundur,  10. apr. 2019.

menntun, hæfni og ráðning kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla.

801. mál
[22:25]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra líka fyrir umfjöllunina um þetta mikilvæga mál sem við þekkjum að hefur fengið misgóðar viðtökur, ég held að það sé óhætt að segja það. Sjálf hef ég átt samtöl við fólk, sérstaklega á framhaldsskóla- og háskólastigi, sem haft hefur meiri skoðanir á þessu en það fólk sem ég hef hitt sérstaklega á grunnskólastigi. Mér hafa fundist áhyggjurnar fyrst og fremst felast í því að kennurum fjölgi svo hratt á framhaldsskólastiginu af því að það sé svo miklu betur borgað þannig að það muni halda áfram að vanta í grunnskólann. Það voru áhyggjurnar sem mér fannst fólk vera að lýsa sem og auðvitað að hæfnin sem það hefði til að kenna á mismunandi skólastigum yrði ekki til staðar. Þess vegna verð ég að segja að það sem ég er búin að rúlla í gegnum í málinu í dag vekur mér vonir um að við náum fram viðunandi niðurstöðu. Þau hæfniviðmið, sem ég held að séu afskaplega mikilvæg til að skilgreina hvar maður er hæfur til að kenna — því að vissulega eru markmiðin mjög ólík þegar maður sest á skólabekk og lærir til kennara. Ef maður leggur fyrir sig leikskólakennarann er maður að huga að því að vinna á því skólastigi en ekki endilega í framhaldsskóla. Það voru áhyggjurnar sem fólk viðraði við mig, alla vega að leikskólakennarar væru bara allt í einu farnir að sækja í framhaldsskólana og hvað ætti skólastjóri að gera sem byggi úti á landi og hefði ekki um neitt annað að velja ef leikskólakennarinn væri eini umsækjandinn sem væri með réttindi o.s.frv. Fólk hefur áhyggjur af svona atriðum og við þurfum auðvitað að svara þeim. Það gerum við með þessari vinnu og þeim umsögnum sem munu koma til allsherjar- og menntamálanefndar í framhaldinu.

Það er alveg rétt að ekki hefur myndast flæði — mikið er búið að tala um flæði á milli leik- og grunnskóla gagnvart nemendum, að það eigi að vera auðveldara viðfangs að nemendur geti byrjað fyrr, jafnvel í grunnskóla, eða að það eigi að vera meiri samskipti, að þeir eigi að geta farið á milli grunnskóla og framhaldsskóla án þess að það sé eitthvert tiltökumál með aldurinn, að hann sé ekki endilega það sem skipti máli þar. Umræðan gagnvart kennurunum hefur einhvern veginn verið erfiðari og þrengri hvað þetta varðar.

Mér líst ágætlega í fyrstu atrennu á þennan hæfniramma, þ.e. að reyna á að skilgreina þá hæfni sem fólk þarf til að geta kennt á hverju skólastigi fyrir sig, að það þurfi ekki að byrja á byrjuninni heldur geti það sótt fram í einhvers konar starfsþróun. Það veitir svo sannarlega ekki af, eins og hér hefur verið rætt. Við heyrum mikið um álag og við heyrum um kulnun, sérstaklega í þessari stétt, og í grunnskólanum er það gríðarlega algengt þannig að þörf er á að bregðast við. Eins og hv. þingmaður nefndi, sem talaði á undan mér, er ekki eðlilegt að svo margir sem lært hafa til kennara skili sér ekki í starfið, hvort sem það er vegna launamála eða aðbúnaðar eða hvað það nú er. Um leið og við segjum að þetta séu mikilvægustu störfin sem búi framtíðina okkar undir að takast á við það sem þau þurfa að takast á við, hvort sem það er fjórða iðnbyltingin eða bara lífið og tilveran almennt, þurfum við að vera sanngjörn þegar kemur að aðstöðu og launamálum. Það var áhugavert þegar Samtök iðnaðarins komu á fund fjárlaganefndar í morgun og skiluðu umsögnum um fjármálaáætlun. Þar kom fram að 70% nemenda í Finnlandi velja starfsnám. Við erum búin að tala mikið um starfsnám og áhersluna á það. Því fannst mér áhugaverð skýring þeirra á þessum mikla áhuga á því, þó að þeir hefðu hana ekki alveg á reiðum höndum var skýringin að einhverju leyti sú að meira samtal væri á milli skólastiga, samtalið um starfsnámið byrjaði fyrr, og krakkar byrjuðu fyrr að taka þátt í einhverju slíku, kannski umfram það sem við þekkjum.

Ég fagna líka því sem fyrirhugað er, að fimmta árið verði hálfgert kandídatsár. Ég held að það sé mjög aðlaðandi og skipti miklu máli. Ég man það sjálf, af því að ég fór fullorðin í þetta nám og var svo ljónheppin, einmitt vegna skorts á kennurum, að sveitarfélagið sá sér fært að styðja mig þannig að ég var ekki launalaus á meðan ég var í starfsnámi. En ég held að þetta skipti mjög miklu máli varðandi það að laða kennaranema í þessa menntun.

Mig langar til að spyrja um tvennt, ráðherra tekur það kannski bara saman í restina: Annars vegar langar mig að spyrja um þá gagnrýni sem fram kom meðan frumvarpið var í samráðsgáttinni. Hér er sagt að í lokaútgáfu frumvarpsins hafi verið leitast við að taka tillit til helstu athugasemda. Hverjar voru þær? Ég bið ráðherra aðeins að fara yfir hvað var veigamest af því sem tekið var tillit til. Annað sem mig langar að spyrja um, af því að ég átta mig ekki alveg á þessari menntun. Við tölum um þrjú leyfisbréf, þá hef ég hugsað: Leikskóli, grunnskóli, framhaldsskóli. Síðan er á bls. 12 talað um tónlistarskólakennara, að þeir öðlist þá þennan sama rétt, ef ég skil það rétt. Fá þeir þá rétt til kandídatsárs? Mun gilda það sama varðandi menntun þeirra eða verður hún óbreytt? Hér er líka talað um fyrsta, annað og þriðja hæfnisstig hvað þá varðar, ef ráðherra gæti aðeins skýrt hvort þeir geti þá gengið inn í öll skólastig. Geta þeir gert það nú þegar eða er það eitthvað umfram það sem þeir fá núna?

Maður þekkir að það er tónmenntakennsla í skólum, í mínum heimamenntaskóla er beinlínis listabraut þar sem hefur verið kennd tónlist. Það er ekki óeðlilegt að þar sé tónlistarskólakennari til staðar. En ég velti fyrir mér hvort þeir öðlist nákvæmlega sömu réttindi. Einhvern veginn hef ég þá tilfinningu — ég þekki samt ekki nám þeirra, það getur verið eitthvað öðruvísi uppbyggt varðandi ýmist faglegt og annað slíkt þannig að það væri áhugavert ef ráðherra gæti komið inn á það. Eins og ég segi kemur fram í 5. gr. að þeir falli undir gildissvið þessa frumvarps af því að aðalnámskrá tónlistarskóla samsvarar þessum þrepum. Ég tengi samt ekki alveg inn á að það falli að sama skapi undir faglega þekkingu og menntunarfræði annars vegar og faglega þekkingu og kennslufræði hins vegar, en það á sér eflaust einhverjar skýringar.

Ég fagna því að þetta frumvarp sé fram komið. Í mínum huga ætti sá ótti sem ég upplifði í samtölum mínum við fólk í þessari stétt, kennarastéttinni, að vera mun minni. Ég held að það verði áhugavert að sjá hvort viðbrögðin verða þá ekki önnur núna þegar það er fram komið. Ég vona svo sannarlega að frumvarpið nái fram að ganga í vor og þá með þeim breytingum sem þurfa að koma fram ef þær eru til staðar.