149. löggjafarþing — 93. fundur,  10. apr. 2019.

menntun, hæfni og ráðning kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla.

801. mál
[22:43]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmönnum fyrir athugasemdir þeirra um þetta mikilvæga mál. Hv. þm. Páll Valur Björnsson var duglegur að vitna í heimspekinga og fleiri þegar hann fjallaði um frumvarpið og því langar mig að vitna í John Stuart Mill þar sem hann segir, með leyfi forseta:

„Öll efling menntunar stuðlar að jöfnuði því menntunin selur alla einstaklinga undir sömu áhrif, veitir þeim aðgang að sama sjóði þekkingar og skoðunar.“

Þetta ritaði hann í riti sínu 1859 og það á svo sannarlega við enn í dag.

Mig langar að fara yfir tvennt og svara svo nokkrum spurningum hv. þingmanna. Í gær funduðu menntamálaráðherrar allra Norðurlandanna og það var mjög áhugaverður, góður og fróðlegur fundur. Tvennt stendur upp úr og er það annars vegar hin mikla kennaraþörf alls staðar á Norðurlöndunum, fyrir utan í Finnlandi. Til að mynda mun vanta í Svíþjóð á næstu tíu árum, ef ekki verður farið í róttækar aðgerðir, 82.000 kennara. Svíar eru í stórkostlegum vanda. Norðmenn eiga við svipaðan vanda að etja, þar er talan 32.000 kennarar. Ég er ekki búin að taka saman hlutfallslegar tölur hjá okkur. En það er svolítið merkilegt að í slíkum velferðarlöndum sé þessi staða komin upp. Þess vegna er mjög brýnt að við förum núna í fyrsta sinn eftir færnispá, að segja árið 2019 að við vitum hver staðan er og að við ætlum ekki að vera stjórnvöld sem eru aðgerðalaus. Við ætlum að fara í aðgerðir mjög víða. Þetta frumvarp er einn liður í því.

Það næsta sem mig langar að nefna frá fundi samráðherra minna er brotthvarfið á framhaldsskólastigi. Þar skerum við okkur Íslendingar algerlega úr. Það vill nefnilega þannig til að brotthvarf nemenda hefst ekki á fyrsta ári í framhaldsskóla. Það á sér nokkurn aðdraganda og við getum séð hvernig námsframvinda er og við hvaða áskoranir viðkomandi nemendur eiga að etja. Þess vegna er samfella og sveigjanleiki milli skólastiga alveg gríðarlega mikilvægur þáttur, til að kennarar skilji hvað veldur. Hvernig getum við aðstoðað, hjálpað og hvatt nemendur okkar meira og betur áfram? Svo að við tölum um hin mismunandi skólastig er á leikskólastiginu mæling sem heitir HLJÓMUR. Þar má finna mjög fljótlega hvernig börnunum mun vegna við að tileinka sér lestur. Það er ótrúleg fylgni á milli þess sem kemur út úr því prófi og hvernig þeim vegnar í lestri síðar. Þess vegna hef ég mjög mikla trú á snemmtækri íhlutun, að byrja strax að aðstoða og hlúa að nemendum.

Nú er ég búin að tala um þrjú skólastig í einu og benda á mikilvægi þess að þau skólastig séu upplýst um þær áskoranir sem við er að etja. Komið hefur fram í kvöld að áhyggjur hafi verið af hæfnirömmum. Það sem við gerðum þegar við vorum að vinna frumvarpið er að við tókum tillit til nánast allra þeirra athugasemda sem við fengum og aðlöguðum hæfnirammana samkvæmt því. Ég tel að það samstarf hafi skilað enn betra frumvarpi og meiri sátt um það. Þegar svona breytingar eru í gangi eru auðvitað alltaf einhverjar efasemdir, en ég er sannfærð um að þegar lögin taka gildi munum við sjá þennan sveigjanleika. Við þurfum að huga að því að staðan er grafalvarleg. Það verður ekki fram hjá því litið.

Ég sé líka fyrir mér með það sem við höfum núna, styttingu náms, sér í lagi varðandi hið bóklega nám á framhaldsskólastiginu, að meiri hreyfanleiki verði á milli framhaldsskólastigsins og grunnskólastigsins. Þær fréttir sem við fengum frá Hagstofunni í dag eru svolítið fróðlegar. Þetta var ekki skipulagt af ráðherranum sem hér stendur en það var fróðlegt að fá þær fréttir akkúrat í dag þegar ég mæli fyrir þessu frumvarpi að starfsmönnum við kennslu án kennsluréttinda fjölgi sífellt. Sumir eru með leyfisbréf á framhaldsskólastiginu en eru að kenna á grunnskólastiginu en frumvarpið mun gera það að verkum að við munum sjá fækkun hvað þetta varðar. Ég er bjartsýn á þann þátt.

Annað sem var nefnt varðar tónlistarkennarana. Við erum að auka réttindi þeirra en þeir fara eins og aðrir undir ákveðinn hæfniramma og höfum við fengið mjög góð viðbrögð frá tónlistarkennurum.

Ég vil koma því að, af því að ég nefndi brotthvarfið, að hlutföll þeirra sem innritast í verk- og starfsnám á Íslandi annars vegar og hins vegar bóklegt nám eru allt önnur en þekkjast á Norðurlöndunum. Hér fara um 70% í bóklegt nám. Ég vil taka fram að ég er mjög hlynnt bóklegu námi en ég get hins vegar ekki sem menntamálaráðherra horft fram hjá þeirri staðreynd að hér er brotthvarf mun meira. Ég þori varla að nefna töluna, hversu hlutfallslega hærra það er hér en til að mynda í Noregi og hjá öðrum ríkjum. Auðvitað miða allar þær aðgerðir sem við erum að fara í að því að fleiri finni sig í námi og að við bjóðum upp á nám sem hæfir unga fólkinu okkar.

Framboðið á framhaldsskólastiginu er mjög mikið en það dugar ekki ein námskynning til að fólkið okkar átti sig á því hvað er í boði. Það þarf að vera öflugt val í verk- og listgreinum alla skólagönguna svo að börnin okkar átti sig á því hvar áhugi þeirra liggur. Það þarf ekki aðeins slíkt val, foreldrarnir þurfa líka að vera upplýstir um það. Atvinnulífið þarf einnig að vera duglegt að kynna fyrir unga fólkinu hvaða tækifæri eru í boði. Þessi hlutföll þurfa að líkjast meira því sem við sjáum í Evrópu, en þar eru hlutföllin allt önnur.

Virðulegur forseti. Talað hefur verið um eitt leyfisbréf, sem hefur verið reynt annars staðar. Í ýmsum löndum er skörun á leyfisbréfum kennara sem kenna á milli skólastiga, svo sem í Noregi, Finnlandi og Kanada. Sú útfærsla sem um ræðir og ég hef mælt fyrir í þessu frumvarpi er ekki mikið frábrugðin þeim og er ætlað að ná fram þeim sveigjanleika sem áform voru uppi um í lögunum árið 2008. Sá sveigjanleiki og flæði kennara milli skólastiga er æskilegt til að minnka skil á milli skólastiganna, bæta starfsöryggi og hvetja til starfsþróunar sem leiðir þá til aukinna gæða í skólastarfi. Hæfnishugsunin sem frumvarpið byggir á rímar við það sem flest ríki innan OECD byggja menntamál sín á. Það má með sanni segja að þetta sé ný hugsun í íslenskum skólamálum en fyrirmyndirnar eru líka annars staðar.

Annað sem við erum að huga að er að undirbúa skólakerfið fyrir þær áskoranir sem fylgja fjórðu iðnbyltingunni, svo sem sjálfvirknivæðinguna. Við eigum eftir að sjá að nemendur fara meira á milli námsgreina. Ég mun hvetja til þess vegna þess að ég held að það auki sköpun og að við munum þá fá einstaklinga sem verða meira lausnamiðaðir. Þegar Efnahags- og framfarastofnunin nefnir hvaða hæfni verði eftirsóknarverðust er það einmitt lausnamiðuð hugsun, nýsköpun, að viðkomandi aðilar séu góðir í samskiptum. Ég tel að ef við fáum inn í kerfið okkar kennara sem geta verið á mismunandi skólastigum muni það hjálpa til við þetta. Kennarar þurfa að skilja hverjar lykilbreyturnar eru sem lúta að því að viðkomandi nemandi sé í meiri brotthvarfshættu en ella.

Virðulegur forseti. Brotthvarfið er mér ansi hugleikið og því vil ég benda á að það sem helst kemur í veg fyrir að ungt fólk misstígi sig síðar á lífsleiðinni er að það klári framhaldsnám. Þau sem eru ekki í skóla á framhaldsskólastiginu eða stunda ekki atvinnu eru margfalt líklegri til að eiga við verulega vanlíðan að etja og annað slíkt. Núna þegar við erum að skoða þennan hóp sérstaklega í mennta- og menningarmálaráðuneytinu sjáum við að besta forvörnin er að börnin okkar og unga fólkið finni nám við sitt hæfi.

Mig langar að lokum að nefna þá lykilþætti sem eru í frumvarpinu. Það er í fyrsta lagi aukinn sveigjanleiki. Í öðru lagi mun þetta auka og efla alla starfsþróun kennara. Í þriðja lagi er það líklegt til að auka starfsöryggi vegna sveigjanleika. Í fjórða lagi sjáum við fram á að kennurum muni fjölga. Í fimmta lagi teljum við að það muni auka og beina sjónum að mikilvægi kennarastarfsins á öllum skólastigum. Að lokum mun þetta líka stuðla að bættri stjórnsýslu vegna þess að fyrir útgáfu leyfisbréfa og veitingu undanþágna fyrir grunnskóla og framhaldsskóla til að ráða leiðbeinendur er ákveðin réttarbót, sem ekki má gleyma, sem felst í því að kæra má ákvarðanir Menntamálastofnunar í því efni til ráðherra. Við erum því búin að skýra stjórnsýsluna betur í frumvarpinu.

Virðulegur forseti. Það verður spennandi að sjá hvaða umsagnir og athugasemdir berast allsherjar- og menntamálanefnd. Ég get fullvissað þingheim um að unnið hefur verið mjög ötullega að frumvarpinu. Við höfum tekið tillit til athugasemda sem hafa borist. Ég tek undir með hv. þingmönnum sem segja að spennandi tímar séu fram undan í menntamálum og spennandi áskoranir. Við eigum að taka þau mál meira í fangið og veita þeim meira vægi í þjóðmálaumræðunni. Það sem er einkennandi hjá þjóðum sem hafa framúrskarandi menntakerfi er ekki einvörðungu að fjármunum sé forgangsraðað í þágu menntunar heldur eru menntamál mjög fyrirferðarmikil í þjóðmálaumræðunni. Hver er þróunin? Hverjar eru áskoranirnar og hvað gengur vel?

Eins og ég sagði í upphafi og vitnaði með leyfi forseta í John Stuart Mill er það svo að menntun og efling hennar stuðlar að jöfnuði. Ég tel að á þeim tímum sem við lifum á, í heimi tæknibreytinga, hafi þörfin aldrei verið meiri til að stuðla að jöfnuði, að því að allir hafi jöfn tækifæri til að mennta sig.