149. löggjafarþing — 93. fundur,  10. apr. 2019.

ríkisendurskoðandi og endurskoðun ríkisreikninga.

803. mál
[22:59]
Horfa

Frsm. forsætisn. (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga, nr. 46/2016. Frumvarpið flyt ég ásamt með öllum nefndarmönnum í forsætisnefnd Alþingis, sem sagt forsætisnefnd stendur öll að frumvarpinu ásamt áheyrnarfulltrúum Viðreisnar og Flokks fólksins. Frumvarp þetta felur það í sér að kveðið verði skýrar á um eftirlit ríkisendurskoðanda, sérstaklega hvað varðar eftirlit með tekjum ríkisins, í öðru lagi að tryggja ríkisendurskoðanda aðgang að upplýsingum úr upplýsingakerfum opinberra aðila og í þriðja lagi að samræma skjalavörslu Ríkisendurskoðunar við það sem gildir um Alþingi og aðrar stofnanir Alþingis, þ.e. umboðsmann Alþingis.

Í frumvarpinu felst, verði það að lögum, að skýrri lagastoð er skotið undir sérstaka starfseiningu innan Ríkisendurskoðunar sem mun í framhaldinu sinna eftirliti með því að tekjur ríkisins skili sér í samræmi við áætlanagerð ríkisins og kanna ýmis tekjuöflunarkerfi þess. Mikilvægt er að lagaumgjörð um eftirlitsverkefni af þessu tagi sé skýr og í ljósi reynslunnar af framkvæmd gildandi laga eru þar af leiðandi lagðar til nokkrar breytingar hvað þetta varðar. Í fyrsta lagi að skýrt verði skilgreint hvað felst í hlutverki ríkisendurskoðanda að hafa eftirlit með tekjum ríkisins með hliðstæðum hætti og skýrt er mælt fyrir um hlutverk Ríkisendurskoðunar á sviði fjárhagsendurskoðunar og stjórnsýsluendurskoðunar. Í 2. málslið 1. mgr. 3. gr. gildandi laga nr. 46/2016, um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreiknings, kemur fram að hlutverk ríkisendurskoðanda sé m.a. að hafa eftirlit með tekjum ríkisins, en að öðru leyti er þetta ekki eins skýrt útfært eða ítarlega eins og á við um önnur þau meginverkefni embættisins.

Nú hefur ríkisendurskoðandi í hyggju að leggja aukna áherslu á þetta hlutverk með sérstakri starfseiningu innan embættisins og ánægjulegt er að upplýsa að í fjármálaáætlun sem er nú til meðferðar í þingnefnd er gert ráð fyrir upphafsfjárheimildum til að efla embættið að þessu leyti. Í eftirlitinu felst m.a. að kanna forsendur afskrifta skattkrafna, yfirfara forsendur álagningar opinberra gjalda og annarra skatta, endurskoða og kanna forsendur rekstrartekna stofnana og hafa eftirlit með því að sértekjur stofnana séu innheimtar í samræmi við lög og fylgjast með innheimtu opinberra gjalda og skatta. Hér er að sjálfsögðu ekki um það að ræða að embætti Ríkisendurskoðunar fari að taka ákvarðanir á þessu sviði eða blanda sér inn í skattframkvæmdina sem slíka, heldur hafa eftirlit með henni og fylgjast með því hvernig gengur.

Í öðru lagi er í frumvarpinu kveðið sérstaklega á um aðgang ríkisendurskoðanda að gögnum hjá opinberum aðilum og upplýsingakerfum um fjárhagsmálefni ríkisins. Í gildandi lögum skortir á að slíkt sé gert með nægjanlega skýrum hætti eins og var þó upphaflega áætlunin með gildandi lögum, en nú hefur bæði komið til að með því að leggja aukna áherslu á tekjueftirlitið er þessi aðgangur mjög brýnn og eins þarf að styrkja orðalag hvað þetta varðar á tímum rafrænna gagnasafna sem í sívaxandi mæli eru það sem hér skiptir máli.

Þetta snýst um aðgang að ýmsum opinberum skrám eins og fasteignaskrám, ökutækjaskrám, loftfaraskrá, þjóðskrá, skipaskrá o.s.frv. og að heimild til þessa ótvíræða aðgangs sé skýr og að sá aðgangur sé án gjaldtöku. Auðvitað getum við ekki búið við það að mikilvægur eftirlitsaðili þurfi að sæta því að greiða fyrir sjálfsagðan aðgang að gögnum af þessu tagi sem er nauðsynlegur vegna starfsins.

Þá er jafnframt lagt til að aðgangsheimild ríkisendurskoðanda að bókhaldi þriðja aðila verði skýrari þegar um er að ræða greiðslur úr ríkissjóði eða endurgreiðslur kostnaðar. Þetta er í vaxandi mæli mikilvægt. Má í því sambandi nefna t.d. endurgreiðslu kostnaðar við kvikmyndagerð eða endurgreiðslu útlagðs kostnaðar vegna rannsóknar- og þróunarstarfsemi þar sem verulegir fjármunir skipta um hendur þegar ríkið endurgreiðir umtalsverðar fjárhæðir útlagðs kostnaðar af þessu tagi.

Þá er í þriðja lagi tekið af skarið um að með skjalavörslu embættisins, þ.e. ríkisendurskoðanda, skuli fara með sama hætti og hjá Alþingi og embætti umboðsmanns Alþingis. Lög um opinber skjalasöfn taka ekki til Alþingis og umboðsmanns. Ríkisendurskoðun er að vísu ekki talin til skilaskyldra aðila skv. 14. gr. þeirra laga en rétt þykir að taka af allan vafa um að staða Ríkisendurskoðunar skuli að þessu leyti vera sambærileg við Alþingi og umboðsmann. Hjá Ríkisendurskoðun er varðveitt allt skjalasafn embættisins frá árinu 1985, þ.e. allan þann tíma sem embættið hefur heyrt undir Alþingi. Þannig lagað séð er ekki um breytingu að ræða heldur að hin lagalega staða sé skýr. Þess vegna er lagt til að staða ríkisendurskoðanda hvað skjalavistun varðar verði sú sama og umboðsmanns Alþingis, enda staða embættanna sambærileg að mörgu leyti. Bæði starfa þau í skjóli Alþingis þó að verkefni þeirra sem slík skarist ekki.

Loks eru, herra forseti, á tveimur stöðum lagðar til uppfærslur á tilvísun til laga, þ.e. að í stað tilvísunar til eldri laga um fjárreiður ríkisins komi tilvísun til laga um opinber fjármál.

Ég hef, herra forseti, lokið að gera grein fyrir meginefni frumvarpsins og helstu nýmælum þess. Ég legg til að málið gangi til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar að lokinni þessari umræðu og bind vonir við að frumvarpið nái að verða að lögum fyrir vorið þar sem ljóst er að í undirbúningi er af hálfu ríkisendurskoðanda að efla starfið, sérstaklega hvað varðar tekjueftirlitsþáttinn.