149. löggjafarþing — 93. fundur,  10. apr. 2019.

ríkisendurskoðandi og endurskoðun ríkisreikninga.

803. mál
[23:07]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni. Ríkisreikningur samanstendur af rekstrarreikningi þar sem tekjur og gjöld eru færð og efnahagsreikningi þar sem eignir og skuldir eru færðar. Í 4. gr. laga um ríkisendurskoðanda kemur skýrt fram að ríkisendurskoðandi endurskoðar ríkisreikning og ársreikninga sjóða og ríkisfyrirtækja, sem rekin eru á ábyrgð ríkissjóðs, og ársreikninga hlutafélaga og sameignarfélaga þar sem ríkið á helmingshlut eða meira. Ríkisendurskoðanda ber því samkvæmt gildandi lögum að annast eftirlit með öllum tekjum ríkisins, innra eftirlit með umgjörð þeirra, hvernig þær verða til og hvernig þær verða varðveittar.

Þetta kallar því á nánari skýringu á því hvers vegna talin er þörf á þessum lagabreytingum þar sem þetta er hvort eð er alltaf hlutverk ríkisendurskoðanda og eðli starfa hans að fylgjast með tekjum ríkisins. Tekjur er ekki hægt að endurskoða nema um leið og skoðaðar eru forsendur fyrir öflun þeirra og þeirra kerfa sem halda utan um álagningu þeirra, skráningu þeirra, innheimtu og varðveislu.

Í fjármálaáætlun kemur skýrt fram að gjöld ríkisins eru áætluð því sem næst jafn há tekjunum ár hvert, sem sýnir mikilvægi gjalda ekki síður en tekna. Þess vegna vil ég fá hugleiðingar hv. þingmanns á því hvers vegna í frumvarpinu er ekki jafn rík áhersla á eftirlit með gjöldum ríkisins, forsendum þeirra og samþykktar kerfis þeirra áður en til greiðslu kemur eða áður en til færslu reikninga og gjalda kemur.