149. löggjafarþing — 93. fundur,  10. apr. 2019.

ríkisendurskoðandi og endurskoðun ríkisreikninga.

803. mál
[23:11]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir greinargott svar og má kannski aðeins á svipuðum nótum í þessu sambandi spyrja hvers vegna ekki sé jafnframt hnykkt sérstaklega á eftirlitshlutverki ríkisendurskoðanda með eignum ríkisins, enda má benda á að í nýjum lögum um opinber fjármál er byrjað að eignfæra allar verðmætar eignir sem áður voru gjaldfærðar. Minna má á flókna IPSAS-staðla í því sambandi.

Einnig má spyrja hv. þingmann hvers vegna ekki sé talið mikilvægt í frumvarpinu að fylgjast með skráningu skulda og verðmats þeirra af hálfu ríkisendurskoðanda og hvers vegna ekki sé áhersla lögð á þá þætti einnig í frumvarpinu. Kannski er bara best, eins og hv. þingmaður nefndi, að það verði skoðað innan vinnunnar í nefndinni, hvort þörf sé fyrir það. Að öðru leyti væri gott að fá hugleiðingar hv. þingmanns um verðmætar eignir og eignfærslurnar, hvernig þær eru færðar, og þá skráningu skulda eins og ég nefndi.