149. löggjafarþing — 94. fundur,  11. apr. 2019.

reglugerð um þátttöku Sjúkratrygginga vegna tannlækninga og tannréttinga.

[10:46]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Enn og aftur er sú staða komin upp að okkur hér á löggjafarþinginu rekur í rogastans yfir því hvernig verklagið í stjórnsýslunni er gagnvart borgurunum. Ung móðir í Vestmannaeyjum hefur verið að berjast fyrir því að barnið hennar, sem fæddist með klofinn góm, fái endurgreidda þá þjónustu sem lög og reglur ættu í raun að tryggja barninu. Ég veit að þetta mál kom upp í óundirbúnum fyrirspurnum í september í fyrra og ekki stóð á vilja hæstv. heilbrigðisráðherra til þess að reyna að bæta úr þeim annmarka sem greinilega var þarna á ferðinni. Ef ég skil það rétt gaf hún í kjölfarið út reglugerð sem átti að tryggja að þeim börnum sem fæddust með klofinn góm yrði ekki mismunað gagnvart öðrum. Það er ljóst að ef börnin eru líka með skarð í vör fá þau 95% endurgreitt úr Sjúkratryggingum Íslands. Maður furðar sig á því á hvaða vegferð Sjúkratryggingar Íslands eru gagnvart þeim heimildum sem þeim eru veittar.

Út frá þessu tilviki, út frá því hvernig ég skil reglugerðina, beini ég fyrirspurn minni til hæstv. heilbrigðisráðherra: Hvað hyggst hæstv. heilbrigðisráðherra gera til að tryggja að reglugerðinni sé framfylgt? Eða var reglugerðin þannig úr garði gerð að það megi vefengja hana eins og raun ber vitni?