149. löggjafarþing — 94. fundur,  11. apr. 2019.

reglugerð um þátttöku Sjúkratrygginga vegna tannlækninga og tannréttinga.

[10:50]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir svarið. Það er óumdeilt varðandi slíkan fæðingargalla sem það er fyrir lítið barn og þá byrði sem það ber að fæðast með skarð í góm að snemmtæk íhlutun og að unnið sé strax með barninu mun að öllum líkindum koma í veg fyrir rosalega erfiðar og stórar aðgerðir á seinni tíma í þroska þess.

Er eitthvað því til fyrirstöðu, hæstv. heilbrigðisráðherra, að bæta því einfaldlega inn í reglugerðina, taka af allan vafa, að börn sem fæðast með þennan stóra galla, skarð í góm, falli undir reglugerðina? Er eitthvað erfitt að koma því líka skýrt inn í reglugerð að taka mark á sérfræðingum, bæði innan lands sem erlendis, í þessu tilviki sérstaklega sem ég er að vísa til hér og nú, þ.e. að Sjúkratryggingar Íslands taki a.m.k. mark á því faglega mati sem þeim er rétt?