149. löggjafarþing — 94. fundur,  11. apr. 2019.

aðkoma ríkisstjórnarinnar að kjarasamningum og tengd mál, munnleg skýrsla forsætisráðherra. -- Ein umræða.

[12:17]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir að sinna kalli okkar stjórnarandstöðunnar vel og koma hingað og flytja okkur skýrsluna.

Óumdeilt er að það inngrip ríkisstjórnarinnar í þá erfiðu kjarabaráttu sem við var að etja í landinu gerði sannarlega sitt gagn. Það reið baggamuninn og nú höfum við siglt í höfn þeim samningum og ég ætla bara að segja að fátt er svo með öllu illt að ekki boði nokkuð gott.

Ég segi: Til hamingju, við verkalýðshreyfinguna, að þeim stóra áfanga sé náð og um leið séum við komin fyrir vind, hugsanlega, í sambandi við yfirvofandi verkfallsaðgerðir sem í rauninni höfðu algerlega ófyrirséðar afleiðingar í för með sér fyrir land og þjóð. Hins vegar eru risaverkefni fram undan. Tugþúsundir launafólks eiga eftir að vinna úr sínum samningagerðum og þá er spurningin hvað ríkisstjórnin mun gera í þeim efnum. Mun ríkisstjórnin stíga áfram inn og reyna að koma til móts við það, eru hinir svokölluðu lífskjarasamningar hugsaðir þarna fyrst og fremst? Ég býst við því.

Það eru tímamót, má segja, að við skulum nú í fyrsta skipti sjá í svona samningagerð að ekki sé eingöngu verið að einblína á prósentuhækkanir á launum heldur höfum við séð að verið er að hækka lágmarkslaunin í krónutölum. Þeir sem lægstu launin hafa fá í rauninni mest út úr því. Þeir sem hærri hafa launin fá ekki fleiri krónur, eins og prósenturnar gáfu þeim alltaf í denn.

Hins vegar þegar kemur að fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar til næstu fimm ára voru allar forsendur þeirrar fjármálaáætlunar brostnar áður en hún fór í prentun. Það hefur verið margsagt og allir vita, hvort sem það er ríkisstjórnin sjálf, stjórnarandstaðan eða bara allir sem vilja vita. Ég ætla ekki fara að tíunda þau áföll sem við höfum gengið í gegnum upp á síðkastið. Ég vil frekar horfa á ávinninginn sem við höfum verið að ná.

Því miður er eitt sem stendur enn þá upp úr og ég veit ekki hvenær við verðum komin fyrir vind með það. Það er enn verið að skattleggja fátækt. Það er enn verið að skattleggja útborguð laun langt undir 300.000 kr. Það er enn verið að skerða öryrkja, krónu á móti krónu. Ég fékk svar um daginn frá hæstv. félagsmálaráðherra við því hvað það myndi kosta að afnema allar skerðingar á öryrkja og eldri borgara. 46 milljarða kr. Þetta eru stórar tölur. Það skiptir máli í ríkisbúskapnum að taka þetta fjármagn í rauninni af þessum þjóðfélagshópum og setja það beint inn í þjóðarbúið.

Maður spyr: Hvernig stendur á því að þessi skilaboð eru endalaust send svona skýr út í samfélagið? Ef við skerðum ekki og skattleggjum ekki fátækt er þjóðarbúið bara í vanda, allt fer á hliðina, skútan leggst á hliðina. Eigum við frekar að afnema skattlagningu á bankana? Eigum við að lækka bankaskattinn um 7 milljarða? Eins og er núna greinilega ekki bara vilji heldur er í framkvæmd þegar ég stend hér í ræðupúltinu. Það er verið að framkvæma nákvæmlega vilja fjármálaráðherra, að lækka bankaskattinn um 7 milljarða kr. Það er líka algerlega augljóst að á þessu ári á að draga úr skattlagningu á sjávarútveginn um 4,3 milljarða kr. Hérna erum við komin samanlagt með 11,3 milljarða kr. samdrátt inn í ríkisbúskapinn í beinum lækkunum til þeirra sem hafa sannarlega efni á því og eru aflögufærir um að setja þetta inn í okkar sameiginlega sjóð.

Hverjir þurfa meira á því að halda en öryrkjar að við tökum utan um þá og sýnum það alla leið? Það kemur fram í skýrslu sem ég hef áður vísað til í þessu ræðupúlti og er eftir félagsfræðinginn Kolbein Stefánsson, sem hann gerði fyrir Velferðarvaktina og birti niðurstöðu sína 28. febrúar sl. Í ljós kemur að engir hafa það bágara í samfélaginu en öryrkjar. Hvernig stendur á því að við getum staðið hérna kjörtímabil eftir kjörtímabil, löggjafarþing eftir löggjafarþing, og horft á þessi bognu bök bogna meira?

Það er óásættanlegt. Óásættanlegt er að hanga alltaf í einhverju kerfi og tala alltaf út frá einhverju fyrir fram skipulögðu, vel skrifuðu, niður á blað. Það er óásættanlegt að við skulum ekki taka utan um okkar minnstu bræður og systur, hvort sem það er í fjármálaáætlun til næstu fimm ára eða í þeim góða vilja sem við ættum í rauninni að vera að predika hér. Hvað ætli kjósandinn hugsi þegar hann gengur í kjörklefann og setur X við sinn flokk, setur X við þann sem hann ætlar að treysta á í góðri trú um að hann muni tala sínu máli? Við horfum ítrekað upp á það á hinu háa Alþingi að mikið hagsmunapot er hérna, eigið hagsmunapot og hagsmunagæsla. Það er með ólíkindum að við skulum þurfa að horfa upp á þvílíkt og annað eins.

Ég segi, virðulegi forseti, að auðvitað munum við breyta fjármálaáætluninni að einhverju leyti að ári og reyna að laga hana að breyttum aðstæðum. Eðli málsins samkvæmt hlýtur það að vera réttast að gera í stöðunni. En það breytir ekki þeirri staðreynd að milli 10 og 15% barna líða hér mismikinn skort og teljast vera fátæk, samkvæmt þeirri skýrslu sem ég vísaði til áðan. Hugsið ykkur, við erum að tala um framtíðina. Við erum að tala um börnin okkar, 10–15% íslenskra barna í fátækt. Þetta er síðasta sort, virðulegi forseti.

Þetta er eiginlega þyngra en tárum taki og ég trúi því ekki að við skulum ekki tala meira um þetta, að við skulum ekki taka meira utan um þá þjóðfélagshópa sem þurfa nauðsynlega á hjálp okkar að halda. Auðvitað er það risastórt skref að reyna að gera húsnæðismarkaðinn þannig úr garði að þessi fátæku börn búi við öryggi. Þau hafa sum hver verið landflótta í sínu eigin landi og búið jafnvel á 10–15 stöðum á fyrstu tíu æviárunum af því að þau hafa ekki haft neitt öryggi.

Grunnþörfum þessara þjóðfélagshópa hefur ekki verið framfylgt. Mannréttindi þeirra hafa verið fótum troðin. Það er lágmark að við veitum fæði, klæði og húsnæði og að fólkið okkar geti gengið út frá því sem vísu á morgun að það sé á öruggum stað og hafi mat á diskinn sinn.

Við státum af mikilli velgengni. Við státum af því að vera sennilega eitt ríkasta land í heimi. Ég veit ekki, virðulegi forseti, hvernig við mælum þá auðlegð, hvort auðlegðin miðist bara við þá sem hafa nóg, gnægð af öllu, eða hvort það er hið fræga meðaltal, fallega excel-skjalið sem hæstv. fjármálaráðherra hefur orðið tíðrætt um í þessu ræðupúlti. Það væri afskaplega ánægjulegt að hafa hann í salnum með okkur í dag. Ég hef alltaf gaman af að tala til hans. (BjG: Hann er erlendis.) Ég heyri það frá hv. þm. Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur að hann er að sinna embættisverkum sínum erlendis. En það breytir ekki þeirri staðreynd að ég sakna þess að hafa hann ekki í salnum.

Að þessu sögðu segi ég: Betur má ef duga skal. Við göngum skrefið í rétta átt. Ég hef óskað ríkisstjórninni til hamingju með að hafa stigið öfluglega inn í það sem hún gerði í sambandi við þann hnút sem við horfðumst í augu við á launamarkaðnum, hjá verkafólkinu okkar. Ég vil líka óska þeim baráttujöxlum til hamingju sem hafa barist fyrir láglaunafólkið. Ég óska þeim til hamingju.