149. löggjafarþing — 94. fundur,  11. apr. 2019.

vandaðir starfshættir í vísindum.

779. mál
[14:00]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Eins og um mörg önnur mál er töluverður aðdragandi að því frumvarpi sem hér er lagt fram og ég mæli fyrir, frumvarpi til laga um vandaða starfshætti í vísindum. Í júní 2018 skipaði ég starfshóp til að undirbúa lagasetningu um þetta efni. Formaður var Vilhjálmur Árnason prófessor, en þar voru einnig starfsmenn mennta- og menningarmálaráðuneytis og forsætisráðuneytis. Segja má að þessi starfshópur hafi sprottið upp úr umræðu í Vísinda- og tækniráði, enda hefur það lengi verið til umræðu á vettvangi Vísinda- og tækniráðs og í vísindasamfélaginu hér á landi að efla þurfi vitund um siðfræði rannsókna og styrkja rammann um siðferðilegar hliðar vísindarannsókna.

Starfshópur var skipaður og fóru tillögur starfshópsins til samráðs í samráðsgátt stjórnvalda, bæði sem áform og síðar sem frumvarpsdrög. Heilt yfir má segja að undirtektir hafi verið jákvæðar. Við samningu þessa frumvarps var einkum horft til annarra Norðurlanda, en Norðmenn og Danir hafa nýlega sett lög um sama efni. Þá er frumvarp um þetta efni til umræðu í sænska þinginu. Finnar urðu hins vegar fyrstir til að setja umgjörð um efnið í formi reglugerðar og er hún enn í gildi.

Í greinargerð frumvarpsins er töluvert fjallað um þessa stöðu á Norðurlöndunum en þegar litið er til Noregs voru með lögum um skipulag rannsókna siðferðilegrar vinnu frá 2017 samþykktar breyttar reglur um rannsóknarnefnd sem starfar á landsvísu og var fyrst sett á laggirnar árið 2007. Í Noregi gilda lögin um rannsóknir, hvort sem er á vegum hins opinbera eða einkaaðila, og getur nefndin tekið mál til skoðunar sem upp koma erlendis ef viðkomandi vísindamaður er starfsmaður norsks vinnuveitanda eða ef verulegur hluti fjármagns kemur frá Noregi. Hjá hverri rannsóknastofnun á samkvæmt lögunum að vera starfrækt siðanefnd. Rannsóknarnefndin er kærunefnd þegar slíkar siðanefndir hafa komist að þeirri niðurstöðu að vísindamaður hafi brotið gegn viðurkenndum siðferðisviðmiðum um rannsóknir. Rannsóknarnefndin getur einnig tekið upp mál að eigin frumkvæði. Óheiðarleiki í vísindum er skilgreindur í lögunum sem fölsun, uppspuni, ritstuldur og önnur alvarleg brot á viðurkenndum siðferðisviðmiðum um rannsóknir sem framin eru af ásetningi eða stórfelldu gáleysi við skipulagningu, framkvæmd eða skýrslugjöf um rannsóknir.

Í Danmörku var miðlæg nefnd um óheiðarleika í rannsóknum í læknisfræði sett á laggirnar árið 1992. Árið 1998 var nefndunum fjölgað í þrjár og þær náðu yfir öll fræðasvið en með lögum sem heita lög um óheiðarleika í vísindum frá árinu 2017 voru nefndirnar sameinaðar í eina nefnd á landsvísu sem fjallar um óheiðarleika í vísindum. Lögin gilda um mál sem varða rannsóknir sem fjármagnaðar eru af hinu opinbera. Þá gilda þau um rannsóknir sem fjármagnaðar eru af einkaaðilum ef viðkomandi samþykkir þá málsmeðferð. Kvartanir um brot gegn heiðarlegum starfsháttum í vísindastarfi skal samkvæmt lögunum bera upp við viðkomandi rannsóknarstofnun og hún framsendir erindið til hinnar miðlægu nefndar með greinargerð um málið. Nefndin fjallar um alvarlegri brot á viðurkenndum siðferðisviðmiðum á þessu sviði, þ.e. uppspuna, falsanir og ritstuld, en rannsóknastofnanir sjálfar um annars konar hæpna rannsóknarhætti.

Í Svíþjóð hefur verið til umræðu frumvarp um svipað fyrirkomulag en staðan hefur þar verið sú að opinberir háskólar eiga að fjalla um meint óheiðarleikabrot í rannsóknum innan eigin stofnunar. Stofnanirnar eiga kost á því og í sumum tilvikum er þeim skylt að leita ráða hjá sérfræðihópi um óheiðarleika í rannsóknum hjá miðlægu siðaeftirlitsnefndinni en fyrir vísindamenn utan opinbera háskólakerfisins eru engar reglur um að taka beri á slíkum málum.

Ástæða þess að til umræðu er frumvarp er að stjórnvöld telja að ástandið hafi einkennst af skorti á samræmdri nálgun um hvernig meðhöndla eigi þessi mál og hverjar afleiðingar brota eiga að vera. Ekki er heldur til nein opinber skilgreining á óheiðarleika í vísindum.

Í Finnlandi var ráðgefandi nefnd á þessu sviði komið á fót með reglugerð árið 1991. Hlutverk nefndarinnar er fyrst og fremst fræðsla og ráðgjöf fremur en að hún annist beint úrlausn einstakra vafamála þótt hún veiti umsögn um þau. Þá beitir nefndin sér fyrir umræðu um vísindasiðfræði í Finnlandi og fylgist með þróun á alþjóðavettvangi.

Eins og sjá má er löngu tímabært að þessum málum verði komið í fastara form hér á landi og því er þetta frumvarp hér lagt fram þar sem við skilgreinum þetta ekki með þeim hætti að við séum að fjalla um óheiðarleika í vísindum heldur leggjum við fram frumvarp til laga um vandaða starfshætti í vísindum. Í markmiðsgreininni er markmið laganna útskýrt nokkuð vel, þ.e. að rannsóknir fari fram í samræmi við vandaða starfshætti í vísindum og auki þannig trúverðugleika vísindastarfs og rannsókna í samfélaginu en hugtakið vandaðir starfshættir vísar fyrst og fremst til viðurkenndra siðferðisviðmiða, m.a. um heiðarleg vinnubrögð.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að markmiðum verði náð með því annars vegar að undirstrika ábyrgð vísindamanna, stofnana og fyrirtækja sem þeir starfa hjá á því að efla vitund um vandaða starfshætti og taka á brotum sem upp koma. Það verður gert með siðanefndum eða öðru formlegu verklagi sem er á hendi hverrar stofnunar eða fyrirtækis. Hins vegar verður sett á laggirnar ein miðlæg, óháð nefnd sem hefur margþættu hlutverki að gegna. Í fyrsta lagi er hlutverk hennar að skrá viðurkennt siðferðisviðmið í rannsóknum og þar getur nefndin stuðst við alþjóðlegar fyrirmyndir.

Þá verður nefndin í öðru lagi stjórnvöldum og öðrum sem til hennar leita til ráðgjafar í vísindasiðfræðilegum efnum og í þriðja lagi mun nefndin gefa álit í tilteknum málum sem koma til kasta hennar. Mál munu geta komið til skoðunar hjá nefndinni vegna þess að stofnanir eða fyrirtæki vísa málum til hennar enda séu gildar ástæður fyrir því að ekki sé leyst úr þeim á heimavettvangi. Þá geta vísindamenn sem ekki eru sáttir við niðurstöður eða meðferð stofnana eða fyrirtækja á siðferðilegum álitamálum skotið málum til nefndar. Lögbundnar siðanefndir eins og Vísindasiðanefnd sem verður áfram starfandi eða siðanefndir háskólanna geta einnig vísa málum til nefndarinnar og að lokum getur hún tekið mál upp að eigin frumkvæði.

Samkvæmt frumvarpinu kveður nefndin ekki upp bindandi úrskurði heldur gefur álit og þau álit munu varða það í fyrsta lagi hvort viðurkennd siðferðisviðmið hafi verið brotin, hvort um sé að ræða kerfislægan vanda, hvort leiðrétta beri eða afturkalla niðurstöður rannsókna og loks hvort aðrir annmarkar séu á rannsókn.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að nefndir geti látið rannsóknir til sín taka, hvort sem þeim er sinnt á vegum hins opinbera eða í einkageiranum. Er það sama leið og Norðmenn hafa farið, eins og ég kom að áðan, en Danir, eins og ég nefndi líka, hafa gert það valkvætt fyrir einkaaðila að segja sig undir lögsögu nefndarinnar.

Ég vil halda því til haga að ekki komu fram athugasemdir við þá nálgun sem hér er lögð til í því samráði sem fór fram í gegnum samráðsgátt stjórnvalda. Samkvæmt frumvarpinu verður um sjö manna nefnd að ræða. Ráðherra sem skipar nefndina skal leita eftir tilnefningum frá háskólum og öðrum aðilum rannsóknasamfélagsins og eiga samráð við Vísinda- og tækniráð áður en gengið er frá skipan. Þess skal gætt við skipan í nefndina að þar sé fyrir hendi þekking á vísindasiðfræði, lögfræði og ólíkum rannsóknasviðum, þar með talið rannsóknum í atvinnulífinu. Ráðherra leitar eftir tilnefningu frá háskólum og öðrum aðilum rannsóknasamfélagsins og hefur, eins og ég segi, samráð við Vísinda- og tækniráð.

Forsætisráðherra er einnig formaður Vísinda- og tækniráðs og er gert ráð fyrir því að meðan svo er sé það forsætisráðherra sem annist skipan þessarar nefndar, en þó kann einhvern tímann að koma til þess, eins og hefur verið gert, að mennta- og menningarmálaráðherra, sem einnig fer með vísindi utan atvinnuvegarannsókna, sem hefur gegnt formennsku í Vísinda- og tækniráði taki þetta til sín. Það kann að vera, en sem stendur er gert ráð fyrir þessari skipan.

Nefndinni er ætlað að hafa yfirsýn yfir stöðu þessara mála hér á landi og alþjóðlega. Í því skyni eiga fyrirtæki og stofnanir sem stunda rannsóknir að tilkynna nefndinni um mál sem upp koma og afdrif þeirra. Henni er sömuleiðis ætlað að gefa árlega út skýrslu um störf sín. Nú liggur ekki fyrir hvert umfang starfseminnar verður og er erfitt að spá fyrir um málafjölda. Kannski verða þau hverfandi fá og vonandi sem til kasta nefndarinnar koma. Eins og ég nefndi er fyrst um sinn gert ráð fyrir því að forsætisráðherra skipi í nefndina og sjái henni fyrir starfsaðstöðu en kannað verður hvaða leið er hagkvæmust í þeim efnum.

Ég tel að þetta frumvarp sé skref í þá átt að efla vitundina hér á landi um siðferðilegar hliðar rannsókna. Vísindasiðanefnd sem ég nefndi áðan er þegar starfandi, en hún fjallar eingöngu um rannsóknir í heilbrigðisvísindum sem snúast um rannsóknir á mönnum. Hlutverk hennar er að gefa leyfi til rannsókna áður en þær fara fram. Eðli þeirrar nefndar sem hér er lögð til er því allt annað. Hún mun ná yfir allar fræðigreinar og með til að mynda tækniframförum sem við sjáum allt í kringum okkur eru að koma upp siðferðileg álitamál í rannsóknum á mun fleiri sviðum en svo að það nái eingöngu til heilbrigðisvísinda. Nægir þar að nefna notkun gervigreindar við ýmis verkefni, svo dæmi sé tekið. Eitt af því sem hefur verið rætt á alþjóðavettvangi er til að mynda hvort gera þurfi sérstakan alþjóðlegan sáttmála um siðferðileg viðmið um notkun gervigreindar, bæði í rannsóknum en líka á vinnumarkaði, og ég tel til að mynda að þessi nefnd gæti reynst okkur mikilvægur ráðgjafi í þeim flóknu úrlausnarefnum sem þar eru fram undan. Nefndarinnar er nefnilega ekki einungis að taka á einstaka málum sem, eins og ég sagði áðan, verða vonandi fá heldur einnig að beita sér fyrir fræðslu og upplýstri umræðu um vísindasiðferði.

Verði þetta frumvarp að lögum er það von mín að við höfum nálgast önnur norræn ríki í að efla umgjörð um siðferðilegan grunn vísindastarfs og skapað úrræði til að viðhalda og efla trúverðugleika vísindastarfs hér á landi.

Að svo mæltu legg ég til að málinu verði að lokinni þessari 1. umr. vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar.