149. löggjafarþing — 94. fundur,  11. apr. 2019.

höfundalög.

797. mál
[15:02]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir frumvarpið og framsöguna. Ég minnist þess að hafa fjallað um þetta mál þegar það kom inn í utanríkismálanefnd til að aflétta stjórnskipulegum fyrirvara og gott að sjá þetta hér í frumvarpi.

Það er eitt sem ég minnist, virðulegur forseti, að hafi komið til tals hjá okkur og það var varðandi RÚV. Við áttuðum okkur ekki nógu vel á því hvort þetta ætti við um RÚV. Ég man að það var sérstök umræða hjá okkur um þetta. Þetta er reyndar sérstakt áhugaefni hjá mér því að ég hef fengið víða ábendingar um efni, t.d. það sem KrakkaRÚV er með, að það sé ekki opið fyrir það erlendis og þá á ég við fyrir Íslendinga sem búsettir eru erlendis. Það er oft mjög erfitt að nálgast barnaefni á íslensku fyrir þann hóp þannig að ég hef ítrekað bent á KrakkaRÚV og það frábæra efni sem þar er að finna. Þótt ég ætli ekkert endilega að hrósa RÚV fyrir margt finnst mér full ástæða til að hrósa því fyrir störfin þegar kemur að menningarefni fyrir börn.

Myndi þessi lagabreyting með einhverjum hætti opna á það eða er það bara ákvörðun hæstv. ráðherra að bregðast við því með einhverjum hætti að RÚV geti opnað sína þjónustu fyrir fólk sem er staðsett erlendis? Þá er ég sérstaklega að vísa til Íslendinga sem búsettir eru erlendis.

Síðan langaði mig að spyrja hvort hæstv. ráðherra hefði látið fara fram einhverja skoðun nú þegar á þeim breytingum sem áttu sér stað á höfundalögunum hjá Evrópuþinginu ekki alls fyrir löngu. Þau mál fengu töluverða umræðu í fjölmiðlum. (Forseti hringir.) Ég klára svo í næsta andsvari.