149. löggjafarþing — 94. fundur,  11. apr. 2019.

höfundalög.

797. mál
[15:04]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að spyrja um Ríkisútvarpið. Það sem þetta frumvarp sem ég mælti hér fyrir gerir er að Ríkisútvarpinu er heimilt að gera þetta, en það er ekki skylda. Ég er hins vegar á því að það sé mjög brýnt að opna fyrir þetta. Þá er ég m.a. að hugsa um að börn og ungmenni hafi aðgengi að dagskrá Ríkisútvarpsins og fjölskyldur sem vilja efla tungumálið, sem búa í skamman tíma erlendis. Ég myndi fagna því ef ég og hv. þingmaður færum saman í þá vegferð að tryggja gott aðgengi að efni Ríkisútvarpsins erlendis.

Hv. þingmaður spurði einnig um ný höfundalög sem hafa verið til umræðu. Við erum að skoða þetta í ráðuneytinu og mér væri ljúft og skylt að mæta fyrir allsherjar- og menntamálanefnd til að gera grein fyrir okkar mati á áhrifum þessara nýju laga og umræðunni um þau.