149. löggjafarþing — 94. fundur,  11. apr. 2019.

höfundalög.

797. mál
[15:08]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé einmitt mjög brýnt að við vegum og metum áhrifin af nýjum höfundalögum sem eru nú til umræðu hjá Evrópuþinginu. Ég er hjartanlega sammála hv. þingmanni um mikilvægi þess að kortleggja stöðuna og kanna á fyrri stigum málsins áður en við tökum viðkomandi löggjöf eða tilskipanir eða reglugerðir upp í okkar lög, að við séum búin að sjá hvar okkar hagsmunir liggja og hvernig við getum brugðist við og ekki bara brugðist við heldur haft áhrif í þeim málaflokkum sem skipta okkur miklu máli. Þetta er svolítið spurning um hugarfarsbreytingu, hvernig við nálgumst þetta alþjóðasamstarf, því að það er okkur mjög mikilvægt og ábatinn af því og ávinningurinn hefur verið verulegur. En það er auðvitað mismunandi eftir því hvert umræðuefnið er. Mestu máli skiptir að við séum mjög vel með á nótunum snemma í ferlinu.