149. löggjafarþing — 94. fundur,  11. apr. 2019.

höfundalög.

797. mál
[15:09]
Horfa

Olga Margrét Cilia (P):

Forseti. Píratar fagna vissulega tilkomu þeirrar reglugerðar sem um ræðir og frumvarpinu sem hér liggur fyrir. Ég vil vitna í stefnu Pírata um internetið sem eitt markaðssvæði, með leyfi forseta:

„Það sem er í daglegu tali kallað internetið var hannað til þess að koma í veg fyrir að upplýsingar glatist. Það þýðir að engar aðgangstakmarkanir eru byggðar inn í samskiptamiðilinn, sem internetið er orðið, sem slíkan. Aðgangstakmarkanir koma í veg fyrir frjálst flæði upplýsinga og fela í sér eftirlit með samskiptum manna á milli, við það myndast hætta á að gengið verði á borgararéttindi. Vegna þess hvernig internetið er hannað, án landamæra, þá er það óhjákvæmilega eitt markaðssvæði með tilliti til vara sem eru einungis til á internetinu eða í stafrænu formi.“

Það liggur einnig í hlutarins eðli að þegar við erum með tækni eins og hið svokallaða internet er erfitt að setja hömlur á það. Með því að fella niður stafræn landamæri er þannig einnig verið að tryggja að notendur þess séu ekki óafvitandi að brjóta lög. Af þessu ætti því bæði að leiða að notendur eru í minni hættu að brjóta lög óafvitandi og yfirvöld landanna þurfa ekki að eyða miklum fjármunum í að framfylgja bönnum sem þjóna í raun litlum tilgangi. Auk þess hefur raunin verið sú að þjónustuveitendur eru settir í hlutverk svokallaðrar internetlöggu til þess að framfylgja slíkum bönnum, sem getur komið í veg fyrir að friðhelgi einkalífs notenda sé tryggð með fullnægjandi hætti.

Flytjanleiki þjónustu gerir það einnig þægilegra fyrir neytendur að nýta þær þjónustuveitur sem þeir eru áskrifendur að þannig að ekki skapast ástand þar sem fólk getur ekki notað alþjóðlega stafræna þjónustu við það eitt að fara yfir landamæri þar sem það eru tæknilega séð engin landamæri innan EES-svæðisins og því væri kjánalegt að viðhalda stafrænum landamærum innan svæðisins. Þetta er því frábært fyrir neytendur og internetnotendur og við Píratar fögnum því að þetta frumvarp sé komið fram.