149. löggjafarþing — 94. fundur,  11. apr. 2019.

sameiginleg umsýsla höfundarréttar.

799. mál
[15:13]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Hér verður mælt fyrir frumvarpi til laga um sameiginlega umsýslu höfundaréttar. Tilefni og tilgangur frumvarpsins er í fyrsta lagi að bæta starfsumhverfi rétthafasamtaka á sviði höfundaréttar sem teljast sameiginlegar umsýslustofnanir með því að setja samræmdar reglur um stjórnhætti, gagnsæi starfsreglna og fjármálaskipulag þeirra. Reglurnar eiga að tryggja viðeigandi þátttöku rétthafa í ákvörðunarferli sameiginlegra umsýslustofnana og upplýsingaflæði til rétthafa, annarra rétthafasamtaka, þjónustuveitenda og alls almennings. Þá eiga reglurnar að tryggja að umsýsla tekna sem sameiginlegar umsýslustofnanir innheimta fyrir hönd rétthafa sé skilvirk, réttmæt og samræmd.

Í öðru lagi er stefnt að því að koma á samræmdum reglum um fjölþjóðleg leyfi sem veitt verða af sameiginlegum umsýslustofnunum um afnot af tónlist á netinu í þeim tilgangi að tryggja aukið framboð slíkrar þjónustu. Frumvarpinu er ætlað að innleiða tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2014/26, um sameiginlega umsýslu höfundarréttar og skyldra réttinda og leyfisveitingar yfir landamæri vegna netnotkunar á tónverkum á innri markaðnum. Tilskipunin var tekin upp í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 186 frá 22. september 2017, um breytingu á viðauka nr. XVII við EES-samninginn.

Virðulegi forseti. Meginefni frumvarpsins er skipt í níu kafla. Í I. kafla frumvarpsins er fjallað um gildissvið og skilgreiningar. Þar er tekið fram að frumvarpið taki til allra sameiginlegra umsýslustofnana með staðfestu hér á landi. Sameiginleg umsýslustofnun telst hver sú skipulagsheild sem lögum samkvæmt eða með framsali, leyfi eða öðru samningsbundnu fyrirkomulagi hefur, sem sitt eina eða helsta hlutverk, umsjón með höfundarétti eða réttindum sem tengjast höfundarétti, fyrir hönd fleiri en eins rétthafa, til sameiginlegra hagsbóta fyrir þá rétthafa og er annaðhvort í eigu eða undir yfirráðum félagsmanna sinna og ekki starfrækt í hagnaðarskyni.

Í II. kafla frumvarpsins er fjallað um réttindi rétthafa, aðildarreglur sameiginlegra umsýslustofnana, réttindi rétthafa sem ekki eru félagsaðilar sameiginlegrar umsýslustofnunar, hlutverk aðalfundar og eftirlit með forsvarsmönnum sameiginlega umsýslustofnana og skyldur þeirra.

Í III. kafla frumvarpsins er fjallað um umsýslu tekna af réttindum og settar reglur um innheimtu og not tekna, um leyfilegan frádrátt frá tekjum áður en þeim er úthlutað til rétthafa, um úthlutun til rétthafa og hvernig með skuli fara ef ekki er unnt að finna rétthafa sem hefur fengið úthlutað af réttindatekjum.

Í IV. kafla frumvarpsins er fjallað um umsýslu réttinda af hálfu einnar sameiginlegrar umsýslustofnunar fyrir hönd annarrar á grundvelli fyrirsvarssamninga. Þar er m.a. fjallað um hvernig staðið skuli að greiðslum á frádrætti frá innheimtum tekjum vegna slíkrar umsýslu.

Í V. kafla frumvarpsins er fjallað um gagnsæi í starfsemi sameiginlegra umsýslustofnana og skýrslugjöf þeirra og upplýsingaskyldu.

Í VI. kafla frumvarpsins er fjallað um ábyrgðarskiptingu milli sameiginlegra umsýslustofnana og félagsaðila þeirra þegar slíkir félagsaðilar eru samtök rétthafa og þeim síðarnefndu er falin úthlutun og útborgun réttindagreiðslna og samantekt gagnsæisskýrslu.

Í VII. kafla frumvarpsins er fjallað um leyfisveitingar sameiginlegra umsýslustofnana á réttindum yfir landamæri vegna netnotkunar á tónverkum. Þar er fjallað um skilyrði þess að sameiginleg umsýslustofnun geti gefið út slík leyfi, upplýsingaskyldu stofnunarinnar um fyrirsvar tónverka sem nýtt eru á netinu, reglur um reikningsgerð og úthlutun innheimtra tekna, samninga milli sameiginlegra umsýslustofnana um leyfisveitingar vegna fjölþjóðlegrar nýtingar á tónverkum á netinu, um aðgang rétthafa að leyfisveitingum yfir landamæri og að lokum um undanþágu frá réttindum til netnotkunar á tónverkum yfir landamæri.

Í VIII. kafla frumvarpsins er fjallað um meðferð deilumála, eftirlit og viðurlög.

Í XI. kafla, lokakafla frumvarpsins, er tiltekið að um EES-innleiðingu sé að ræða, gildistökuákvæði og breytingar á höfundalögunum vegna innleiðingar tilskipunarinnar.

Virðulegi forseti. Það frumvarp sem ég mæli fyrir felur í sér að lagaumhverfi sameiginlegra umsýslustofnana á sviði höfundarréttar verður mun skýrara en áður hefur verið og jafnframt er lagaumhverfið samræmt á öllu EES-svæðinu. Sameiginleg umsýsla höfundaréttinda er mikilvægt úrræði til efnahagslegrar hagnýtingar fyrir fjölda rétthafa, innlendra sem erlendra. Slíkar stofnanir sýsla með verulegar fjárhæðir fyrir hönd rétthafa. Því er mikilvægt að reglur um slíka umsýslu séu skýrar og gagnsæjar og að þátttaka rétthafa sé tryggð í öllu ákvörðunarferli. Að því er stefnt með frumvarpi þess.

Einnig er mikilvægt að reglur um slíka umsýslu séu samræmdar á milli aðildarríkja EES því að það tryggir að einfaldara verður fyrir notendur verka að afla sér leyfa víðar en í einu landi og auðveldara fyrir rétthafa að fylgjast með notum verka sinna á því svæði. Sérstaklega hefur verið þörf á að tryggja samræmda málsmeðferð til að afla leyfa hjá sameiginlegum umsýslustofnunum yfir landamæri vegna notkunar tónlistar á netinu.

Í frumvarpinu eru því settar fram ítarlegar reglur um hvaða skilyrði sameiginlegar umsýslustofnanir skuli uppfylla til að geta veitt slík leyfi. Þær reglur eiga að tryggja hagsmuni allra sem að slíkum fjölþjóða leyfum koma, fyrst og fremst rétthafa en einnig leyfishafa, um leið og þær eiga að tryggja aukið framboð fjölþjóðlegra leyfa.

Með frumvarpinu er ítarleg greinargerð þar sem farið er bæði yfir öll meginatriði frumvarpsins, sem ég hef nú þegar reifað í þessari ræðu, og yfir hverja efnisgrein frumvarpsins fyrir sig og möguleg álitaefni umfram þau sem ég hef tæpt á í ræðu minni.

Virðulegi forseti. Að því mæltu legg ég til að frumvarpinu verði að lokinni 1. umr. vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar.