149. löggjafarþing — 94. fundur,  11. apr. 2019.

lýðskólar.

798. mál
[15:21]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Það er mér sönn ánægja að mæta hér og mæla fyrir stjórnarfrumvarpi til almennrar löggjafar um lýðskóla og fylgi þannig eftir þingsályktun sem Alþingi samþykkti 2. júní 2016, nr. 41/145. Lýðskólar bjóða upp á annars konar nám en hefðbundnir skólar. Lögð er áhersla á mannrækt, sjálfsrækt og virka þátttöku nemenda. Í lýðskólum er boðið upp á heildstætt nám sem oft er tengt við ákveðin þemu eða svæðisbundna, menningarlega og samfélagslega sérstöðu.

Markmið lýðskóla er jafnframt að auka umburðarlyndi og félags- og samskiptahæfni, m.a. með því að nemendur búi saman á heimavist. Skólarnir hafa til að mynda verið taldir góður kostur fyrir þá nemendur sem hafa jafnvel ekki fundið sig í hefðbundnu skólastarfi. Danskar rannsóknir benda til þess að dvöl í lýðskóla auki líkur á útskrift síðar meir. Þá hafa jákvæð samfélagsáhrif einnig verið mæld í rannsóknum á Norðurlöndum og vísbendingar eru um jákvæð áhrif af starfsemi LungA á Seyðisfirði í nærsamfélagi sínu ásamt Lýðháskólanum á Flateyri.

Virðulegi forseti. Í frumvarpinu kemur fram að hverju er stefnt með námi í lýðskólum og hvaða skilyrði fræðsluaðilar þurfa að uppfylla til að fá viðurkenningu til að starfa undir heitinu lýðskóli. Þar eru sett fram skilyrði um óhagnaðardrifin rekstrarform, stjórnskipan lýðskóla, lágmarksstarfstíma og lágmarksfjölda nemenda sem verða að vera orðnir lögráða þegar þeir hefja nám. Einnig eru ákvæði um forvarnir og réttindi nemenda, aðbúnað og öryggi á heimavist þeirra, hæfni starfsfólks og fyrirkomulag náms. Þá er mælst til þess að nám í lýðskólum nýtist nemendum til frekari verkefna eða til áframhaldandi náms, m.a. með aðferðum raunfærnimats sem er þekkt aðferðafræði innan framhaldsskóla og framhaldsfræðslu og er nú einnig að ryðja sér til rúms á háskólastigi. Það er mjög brýnt að við getum náð því betur inn í skólastigið og þau fyrstu skref sem hafa verið tekin benda til þess. Við undirbúning frumvarpsins hefur verið horft til norrænnar löggjafar um lýðskóla og þá sérstaklega til Noregs og Danmerkur.

Virðulegi forseti. Frumvarp þetta er nýmæli en engin almenn lög eru í gildi um lýðskóla. Hvorki lög um framhaldsskóla, nr. 92/2008, né lög um framhaldsfræðslu, nr. 27/2010, ná yfir starfsemi lýðskóla þótt snertifletirnir geti verið margir. Hefur við gerð frumvarpsins einkum verið litið til löggjafar, eins og áður var nefnt, í Danmörku og Noregi.

Frumvarpið skiptist í fjóra kafla. Í I. kafla er fjallað um markmið, gildissvið og yfirstjórn. Markmið laganna er að stuðla að því að lýðskólar séu starfræktir á Íslandi, sem hafa það hlutverk að veita almenna menntun og uppfræðslu í samræmi við ákvæði laganna og undirbúa nemendur til þátttöku í lýðræðissamfélagi.

Í II. kafla frumvarpsins eru ákvæði sem varða viðurkenningu og fjármögnun lýðskóla. Þar er m.a. lagt til að lýðskóli skuli vera rekinn samkvæmt viðurkenndu rekstrarformi, svo sem sjálfseignarstofnun, og að hann skuli ekki rekinn með fjárhagslegan ágóða að markmiði.

Í III. kafla frumvarpsins er fjallað um skipulag og inntak náms, innritun, réttindi og skyldur nemenda og skólagjöld. Gert er ráð fyrir að nemendur þurfi að hafa náð 18 ára aldri þegar þeir hefja nám.

Loks er í lokakafla frumvarpsins, IV. kafla, ákvæði um reglugerðarheimild og gildistöku.

Víkur nú að fjármögnun. Á árinu 2019 eru 30 millj. kr. veittar til hvors skóla, annars vegar á Seyðisfirði og hins vegar á Flateyri, samtals um 60 millj. kr. Gert er ráð fyrir að þeir lýðskólar sem uppfylla tiltekin skilyrði laganna geti sótt um rekstrarstyrki sem verða auglýstir samkvæmt úthlutunarreglum sem ráðherra gefur út samkvæmt 42. gr. laga um opinber fjármál. Fjármagn hefur verið tekið frá á fjárlögum til að styrkja starfsemina. Í áætlunum er ekki gert ráð fyrir útgjaldaaukningu miðað við óbreytta stöðu en bent er á að lögð hefur verið fram tillaga til þingsályktunar um stofnun lýðháskóla UMFÍ á Laugarvatni og þá geta húsmæðraskólar einnig fallið undir gildissvið laganna.

Eins og nefnt var fyrr í ræðunni eru tveir skólar reknir undir merkjum lýðháskóla, LungA-skólinn sem stofnaður var árið 2013 á Seyðisfirði og Lýðháskólann á Flateyri sem hóf kennslu haustið 2018.

Virðulegi forseti. Umtalsvert samráð hefur þegar farið fram, svo sem við þá tvo lýðháskóla sem eru nú starfandi og fjölda hagsmunaaðila sem koma að námi fullorðinna. Við undirbúning lagafrumvarps þessa voru áform um lagasetningu kynnt LungA á Seyðisfirði og Lýðháskólanum á Flateyri sem tóku þátt í undirbúningi og hugmyndavinnu á frumstigi hennar. Þá voru áformin rædd við 11 símenntunarmiðstöðvar sem starfa um allt land. Einnig var fyrirhuguð lagasetning kynnt eftirtöldum aðilum og þeim boðið á umræðu- og kynningarfund sem haldinn var í desember 2018 í mennta- og menningarmálaráðuneytinu: Skólameistarafélagi Íslands, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Sambandi íslenskra framhaldsskólanema, Landssamtökum íslenskra stúdenta, Samstarfsnefnd háskólastigsins, Félagi náms- og starfsráðgjafa, BSRB, ASÍ, BHM, Samtökum atvinnulífsins, Vinnumálastofnun, Öryrkjabandalagi Íslands, Leikn, Fræðslumiðstöð atvinnulífsins, Rannís, Menntamálastofnun og VIRK – Starfsendurhæfingasjóði.

Ásamt því að kynna áform um lagasetningu á fundinum var fyrirkomulag lýðskóla í Danmörku og Noregi kynnt hagsmunaaðilum og helstu álitamál rædd og tekin saman. Þá er leitað til norrænna samstarfsaðila, svo sem norska menntamálaráðuneytisins og samtaka lýðskóla í Danmörku.

Virðulegi forseti. Með frumvarpinu er mætt óskum og ákalli um annars konar nám í fjölbreyttri flóru menntunar. Hlutverk lýðskóla er fyrst og fremst að búa nemendur undir lífið, gera þá að fjölhæfum einstaklingum og reiðubúna til að takast á við tilveruna. Það er bæði í takt við sáttmála ríkisstjórnarinnar og stefnu stjórnvalda sem birtist í lögum um leik-, grunn- og framhaldsskóla og aðalnámskrám skólastiganna. Í sáttmála ríkisstjórnarinnar frá 2017 segir að lögð sé rík áhersla á að efla menntun í landinu með hagsmuni nemenda og þjóðarinnar allrar að leiðarljósi. Skapandi og gagnrýnin hugsun, læsi og þátttaka í lýðræðissamfélaginu verða áfram undirstaða íslenska skólakerfisins og innkoma lýðskóla styður svo sannarlega við þá lykilhæfni.

Ég legg til að frumvarpinu verði vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar að lokinni 1. umr.