149. löggjafarþing — 94. fundur,  11. apr. 2019.

lýðskólar.

798. mál
[15:29]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil óska hæstv. ráðherra til hamingju með þetta frumvarp og ég hlakka til að ræða það hér á eftir. Þetta mál á sér náttúrlega áralanga og jafnvel allt að því áratugalanga þróun, allt frá því að það var endurvakið í gegnum LungA á Seyðisfirði, sem ýtti undir nýtt viðhorf, nýja nálgun, í skólakerfinu. Allir flokkar á þingi samþykktu þetta meira og minna 2016 og ráðuneytið hefur unnið vel úr þessu skemmtilega viðfangsefni þar sem kröfum nútímans er mætt um að við verðum að horfa á hæfni og eiginleika hvers einstaklings og leyfa honum að njóta sín á eigin forsendum innan skólakerfisins, hvort sem það er formlegt eða óformlegt.

Lög um framhaldsfræðslu og framhaldsskóla gilda ekki um þetta svið, en engu að síður er raunfærnimatið — og ég fagna því sérstaklega að ráðherra nefndi raunfærnimat í ræðu sinni því að það er gríðarlega mikilvægt tæki til að sem flestir í samfélaginu fái notið sín á sínum eigin forsendum, á hvaða aldurstíma sem er. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvernig hún sjái raunfærnimati vera framfylgt. Hefur verið haft samráð við þá sem framkvæma raunfærnimatið og eru þeir viðurkenndir fræðsluaðilar? Hvernig sér hún því fylgt eftir að raunfærnimatið fari að fúnkera strax gagnvart þeim sem hafa notið sín í lýðskólum? Ég held að það væru til að mynda mjög mikilvæg skilaboð inn í lýðskólasamfélagið, að þetta úrræði myndi virka fljótt þegar út úr lýðskólunum væri komið.