149. löggjafarþing — 94. fundur,  11. apr. 2019.

lýðskólar.

798. mál
[15:31]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir áhuga á lýðskólum og mikilvægi þeirra í íslenska menntakerfinu. Það er auðvitað mjög ánægjulegt að við séum komin á þann stað að við séum komin með frumvarpsdrög þannig að við römmum betur inn þessa starfsemi.

Hv. þingmaður spurði út í raunfærnimatið og hvernig við ætluðum að setja það inn í starfsemi lýðskóla. Það er fullur vilji til þess að það komi sterkt þarna inn og líka vegna þess að eitt af því sem við sjáum í íslenska menntakerfinu er að það er meira brotthvarf á framhaldsskólastiginu en gengur og gerist á hinum Norðurlöndunum. Þess vegna er þörfin fyrir raunfærnimat og að tvinna það saman við háskólastigið, lýðskóla, endurmenntun og annað, afar brýn. Við höfum verið í miklu samstarfi við aðila vinnumarkaðarins, þá sem framkvæma raunfærnimatið. Við erum að þróa fagháskólastigið, og eru mjög spennandi tímar fram undan þar.

Eitt af því sem við horfum fram á er að þær kröfur sem eru úti í atvinnulífinu eru að breytast mjög mikið í kjölfar fjórðu iðnbyltingarinnar. Ég tel að eitt af því sem er afar brýnt að horfa á sé að hafa aðgengi að menntun á hvaða aldursskeiði sem er mjög greitt vegna þess að það eru sífellt annaðhvort auknar kröfur eða nýjar kröfur. Þá er brýnt að sem flestir geti endurmenntað sig og haft aðgengi að sem fjölbreyttastri menntun.