149. löggjafarþing — 94. fundur,  11. apr. 2019.

lýðskólar.

798. mál
[15:33]
Horfa

Þorgerður K. Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka svarið. Ef og þegar einstaklingur hefur farið í lýðskóla og dvelur þar í ákveðinn tíma, fer svo þaðan, hugsanlega tímabundið út á vinnumarkaðinn en vill síðan kannski klára framhaldsskólann, sér ráðherrann ekki að þetta tímabil verði líka metið til eininga innan framhaldsskólans eða þess skóla sem viðkomandi einstaklingur hyggst sækja? Það væri gott að fá aðeins betri útlistun á því hvernig ráðherrann sér þetta síðan nýtast út í lífið. Ég kem aðeins að því á eftir.

Ég tel þetta skref gríðarlega mikilvægt einmitt til þess að koma til móts við ekki síst þann hóp sem hefur t.d. flosnað upp úr skólakerfinu. Það þarf að sjá til þess að kerfið sem við erum að búa til, þ.e. að við bætum nú við kerfið með lýðskólum, taki raunverulega utan um þessa nemendur og þann hóp fólks sem sækir svo sannarlega í lýðskólana eins og raun ber vitni.

Ég velti líka fyrir mér tæknilegum atriðum varðandi raunfærnimatið. Það er mjög mikilvægt að viðurkenndu fræðsluaðilarnir fái strax þau skilaboð að vera á tánum, að móttaka, af því að í gegnum tíðina, skulum við viðurkenna, hefur verið pínulítið innbyggð tortryggni gagnvart lýðskólahugmyndinni. Ég fagna því að verið er að tala um lýðskóla, ekki lýðháskóla. Ég held það skipti líka mjög miklu máli að við virðum þau lög sem við settum á sínum tíma, 2006. Það gerir ekki úrræðið verra fyrir vikið, alls ekki. En mér finnst skipta máli að þegar við afgreiðum þessi lög, og ég er sannfærð um að þau verði afgreidd hér fyrr en síðar, verði skýrt að kerfið allt sé tilbúið til að taka á móti einmitt þeim hópi fólks ef það kýs síðan að fara einhverjar fleiri leiðir, aðrar leiðir innan menntakerfisins okkar þegar lýðskólagöngunni er lokið.