149. löggjafarþing — 94. fundur,  11. apr. 2019.

lýðskólar.

798. mál
[15:36]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil aðeins koma nánar inn á athugasemdir hv. þingmanns er varða raunfærnimatið, en ég bendi á að á bls. 8 í frumvarpinu er einmitt farið inn á þann þátt. Þar segir, með leyfi forseta:

„Sú margvíslega hæfni sem nemendur tileinka sér í lýðskólum þarf að geta nýst þeim í áframhaldandi vinnu og verkefnum. Þar sem nám í lýðskólum gefur ekki einingar er mikilvægt við skipulag námsins að styðjast við stigvaxandi hæfniviðmið sem sett eru á viðeigandi þrep íslenska hæfnirammans. Þannig nálgun auðveldar mat á hæfni nemenda milli skólakerfa. Í framhaldsskóla- og framhaldsfræðslulögum ásamt aðalnámskrá frá 2011 er fjallað um þrepaskipta hæfni og mikilvægi raunfærnimats.“

Ég vil einnig nefna að í 3. gr. frumvarpsins er í 9. lið fjallað um að skólunum sé skylt að halda til haga gögnum um námsvist og þátttöku nemenda sem getur nýst þeim til frekara náms eða starfa. Ég tel að ég og hv. þingmaður séum algjörlega sammála um að mikilvægt sé að það sé utanumhald hvað þetta varðar þannig að nemendur geti nýtt sér námið til þess að fara í frekara nám eða þá annars staðar.