149. löggjafarþing — 94. fundur,  11. apr. 2019.

lýðskólar.

798. mál
[15:38]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Herra forseti. Eins og ég gat um áðan fagna ég sérstaklega því tækifæri sem við fáum nú til að ræða frumvarp til laga um lýðskóla sem hefur átt sér nokkuð mikinn og langan aðdraganda. Það er loksins komið hingað til þess að styðja við það sem hefur verið ákall eftir, að menntakerfið okkar í heild, stóra menntakerfið, ekki bara skólarnir heldur menntakerfið sem slíkt, bjóði upp á fjölbreyttar leiðir, tækifæri fyrir einstaklinga sem geta verið alls konar. Þá verðum við einfaldlega að búa til þannig samfélag, m.a. í gegnum menntakerfið okkar sem er okkar besta tæki til að láta einstaklinga njóta sín, og búa þannig um hnútana að kerfið sem slíkt virki. Þetta er mikilvægur liður í því.

Þessu til viðbótar er hægt að taka byggðavinkilinn, byggðasjónarmiðin. Ég hef talað um LungA en núna er líka hægt að benda á Flateyri. Það sýnir sig alltaf þegar við byggjum upp menntun hvar sem er á landinu, þegar við ýtum undir menningu, að besta leiðin til að styðja við byggðir landsins er í gegnum menntun og menningu. Það er raunhæfasta leiðin, það er skynsamlegasta leiðin. Það hefur sýnt sig í gegnum tíðina, í gegnum alls konar áföll, að þetta er það sem á endanum bindur samfélögin saman, að hafa slíka kjarnastarfsemi á staðnum, starfsemi sem veitir fólki ekki bara von heldur tækifæri til að bæta við sig þekkingu eða að reyna að nýta eigin mannkosti með tilteknum hætti. Lýðskólarnir gera það.

Það hefur þó lengi verið ákveðin tortryggni gagnvart lýðskólunum, kannski af því að við kunnum einfaldlega ekki alveg á lýðháskólahugtakið eins og Grundtvig lagði upp með á sínum tíma. Héraðsskólarnir rugluðu kannski líka að einhverju leyti myndina. En núna er nákvæmlega það að gerast sem ég fagna sérstaklega, að við sjáum fjölbreytni. Ég nefni LungA með sínar áherslur og ég hvet fólk, og ég veit að ráðherra hefur kynnt sér það mjög vel, til að kynna sér starfsemi LungA á Austurlandi, þá fjölbreyttu starfsemi, og núna á Flateyri í gegnum Lýðháskólann á Flateyri sem er stórkostlegt að fylgjast með. Beint og óbeint eru með nemendum og fjölskyldum um 50 einstaklingar að koma inn í vestfirskt samfélag á Flateyri þar sem voru fyrir um 170–180 íbúar.

Þetta skiptir mjög miklu máli en þá skiptir líka miklu að sjá hversu faglega er haldið utan um hlutina og af miklum metnaði og ekki síður að þetta er ekki einhver miðlæg ákvörðun heldur kemur þetta úr grasrótinni. Þetta kemur frá heimamönnum. Þetta kemur frá því að vilja nýta þá kosti sem samfélagið hefur upp á að bjóða, reyna að færa það yfir á fleiri svið og leyfa öðrum að tengja sig við það. Af miklum metnaði hafa þau náð til sín fólki sem hefur þekkingu og kunnáttu til þess alla vega að ýta þessu af stað. Auðvitað er svona framtak brothætt og þess vegna er fagnaðarefni að ráðuneytið og ekki síður Alþingi, fjárlaganefnd og við öll hér á þingi höfum verið mjög viljug til að fara út í ákveðna tilraunastarfsemi, stuðningsstarfsemi til að veita þessum sprotum stuðning. Það er mjög ánægjulegt að sjá þá skjóta rótum fyrir austan og vestan og vonandi líka á Suðurlandinu fallega í gegnum Laugarvatn og UMFÍ.

Þetta eru svolítið ólík málefnasvið en ég fagna því sérstaklega. Ég held að við eigum aðeins að staldra við þegar þessir þrír skólar eru komnir af stað og veita þeim ákveðið svigrúm og tækifæri til að sjá hvernig þeir halda áfram að þróast og þá ekki síður með því stuðningskerfi sem er lagt til hér. Ég verð að segja, þótt hér sé kannski eitt og annað sem má fara betur eins og gengur og gerist og verður tekið fyrir í nefnd, að heildaryfirbragðið á þessu er mjög til fyrirmyndar að mínu mati, hvernig lagt er upp með þetta í frumvarpinu.

Ég talaði um raunfærnimat við ráðherra áðan. Það er tæki sem er algjörlega ómetanlegt og hefur fært ákveðna vídd inn á vinnumarkaðinn. Það hefur m.a. stuðlað að því að t.d. samstarf aðila vinnumarkaðarins — við erum að klára kjarasamninga núna — en alla jafna á milli kjarasamninga er samstarf á milli aðila vinnumarkaðarins mjög gott. Það hefur ekki síst birst í því að það eru öflugar áætlanir um hvernig hægt er að byggja upp hæfni og þekkingu starfsmanna í alls konar mismunandi fyrirtækjum þvert yfir landið. Raunfærnimatið er hluti af þeim árangri, því samtali og það er mikilvægt að hlúa að því og að finna að það er í raun gert ráð fyrir því, miðað við orð ráðherra áðan, í þessu máli

Ekki síður fagna ég því sem var bent á áðan að það er verið að draga fram hæfniramma. Það er eitthvað sem hefur verið talað um lengi og hefur verið í vinnslu og fór í rauninni af stað fyrir nokkrum árum. Það er framkvæmd sem aðilar vinnumarkaðarins ekki síst eiga mikinn heiður af að hafa ýtt við og stutt við. Það má nefna t.d. Samtök ferðaþjónustunnar, SAF, sem hafa af miklum myndarbrag byggt upp bæði nám og hæfniramma sem auðveldar fólki að fara á milli vinnustaða, láta meta hvað það raunverulega kann, inn í skólakerfið, út úr skólakerfinu. Þannig er tekið utan um þá hæfni og þekkingu sem hver og einn einstaklingur hefur yfir að ráða.

Þetta frumvarp er að því leytinu til mjög skemmtilegt að það sýnir okkur að við erum að halda áfram með þróun á menntakerfinu. Við förum að einhverju leyti inn í framtíðina, hvort sem við viljum tala um fjórðu iðnbyltinguna eða ekki, en tökum líka utan um hóp sem hefur ekki endilega fundið sig í hinu formlega menntakerfi en hefur yfir gríðarlegri hæfni og færni að ráða sem er mikilvægt að rækta og veita tækifæri.

Ég gleymdi að spyrja hæstv. ráðherra áðan, ég geri ráð fyrir að ráðherra loki hér málum, en ég hefði gjarnan viljað fá að vita um stöðuna á verkefninu með UMFÍ með lýðskóla á Laugarvatni. Þar yrði væntanlega ákveðinn fókus á lýðheilsu, heilbrigði og íþróttir. Ég vildi gjarnan fá að vita hver staðan á því er.

Að því sögðu vil ég einfaldlega undirstrika mikilvægi þess að við fáum tækifæri til að ræða þetta á þessum forsendum, að við erum að veita fólki tækifæri til að rækta hæfileika sína, fara áfram með líf sitt og styðja við það með þessum hætti hvar sem það er á landinu. Lifi fjölbreytileikinn enn og aftur, það er það sem skiptir máli fyrir menntakerfið okkar sem og annars staðar í samfélaginu.