149. löggjafarþing — 94. fundur,  11. apr. 2019.

lýðskólar.

798. mál
[15:46]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég vil óska ráðherra til hamingju með þetta mál sem er nú loksins komið fram. Ég vil um leið geta þess að vinkona mín og fyrrverandi þingmaður, Brynhildur Pétursdóttir, talaði ötullega fyrir lýðháskólahugmyndinni og því að við myndum láta það verða að veruleika að setja lagaramma utan um þetta skólastig. Það er að hennar tilstuðlan í sjálfu sér, og Bjartrar framtíðar á þeim tíma, að þingsályktunartillaga var lögð tvisvar sinnum fram og samþykkt í síðara sinn þar sem því var beint til ráðherra að fara í þá vinnu. Það er vel að við sjáum afrakstur af því sem vísað er til ráðherra, að það verði að veruleika. Það er alltaf ósköp ljúft.

Hér hefur aðeins verið reifuð saga slíkar skóla á Norðurlöndunum, sem er orðin ansi löng og sprettur úr því að ekki áttu allir kost á né höfðu vilja til að fara í bóklegt nám þar sem þurfti að þreyta próf. Hugmyndin kviknaði út frá því að hægt væri að undirbúa fólk undir lífið öðruvísi en með slíku námi. Eins og við vitum er ekki síðra að fólk kunni almennt að fara í umræður og rökræður og annað sem þarf til þess að geta verið virkur þjóðfélagsþegn. Skólarnir á Norðurlöndunum eru orðnir nokkur hundruð. Við eigum tvo og eins og var verið að enda við að segja er áhugi fyrir þriðja skólanum á Laugarvatni. Núna á 149. þingi var lögð fram tillaga um þetta. Mig minnir að hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir hafi lagt hana fram en ég er þó ekki alveg viss. Hún var líka ötul talskona þess að það yrði gert. Ég man þegar við vorum að ræða þau mál á sínum tíma. Það er spurning hvort vilji þingsins standi til þess að það verði tekið í gegnum Alþingi eða hvort rekstrarformið verði einhvern veginn öðruvísi, eins og hinir skólarnir hafa orðið til, sjálfsprottnir í umhverfi sínu, líkt og má segja með það sem er að gerast á Laugarvatni. Þau hafa sett sig í samband við Dani til að aðstoða við uppbygginguna o.fl.

Á sínum tíma þegar tillagan var lögð fram var vitnað í skýrslu forsætisráðuneytisins sem heitir Allir stundi nám og vinnu við sitt hæfi. Með leyfi forseta:

„Auka þarf fjölbreytni kennsluaðferða og nútímavæða framsetningu námsefnis í grunn- og framhaldsskóla til að mæta ólíkum þörfum og væntingum nemenda og glæða og viðhalda áhuga þeirra. Mikilvægt er að örva nemendur í verkefnabundnu og lausnamiðuðu námi og ýta undir frumkvæði, gagnrýna hugsun og skapandi starf nemenda. Nýta þarf nýja miðla sem nemendur nota utan skóla til að glæða áhuga þeirra á náminu og auka fjölþætt verkefnaskil t.d. á formi margmiðlunar.“

Þetta á við um það starf sem unnið er í lýðskólum, en ekki þeim sem við þekkjum, en ekki síður í mörgum framhaldsskólum landsins. Ég vitna gjarnan í minn skóla sem ég er svo stolt af, Menntaskólann á Tröllaskaga, þar sem einmitt er mikið unnið í þeim anda. Aðaláherslan er ekki á að nemendur lesi fyrir próf heldur vinni sér til gagns í því sem þeir að gera og er mikil áhersla á blandað nám, bæði list og sköpun og hið bóklega. Þar hefur maður séð það gerast að nemendur sem áttu jafnvel erfitt uppdráttar hafa náð sér á strik, vegna fjölbreytileikans sem þarna er og vegna þess að prófkvíðinn hefur ekki náð tökum á þeim o.s.frv.

Ég held að afar mikilvægt sé að við setjum löggjöf fyrir þetta skólaform, hvort sem það er til að tryggja rekstrargrundvöll skólann eða annað. Við þekkjum í fjárlaganefnd, þar sem ég hef setið, að sérstaklega LungA hefur þurft að koma með betlistafinn á hverju einasta ári til að geta lifað þrátt fyrir að vera með mikinn stuðning í nærsamfélagi sínu, eins og Lýðskólinn á Flateyri þótt hann sé nýr. Auðvitað er aldrei gott að þurfa að reka sig frá ári til árs. Það þarf að vera hægt að skipuleggja starfið fram í tímann og svo er einnig, eins og hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir rakti á undan mér, mikilvægt að við sjáum að þeir nemendur sem þarna fara inn, á hvaða tíma sem er, stoppi ekki, að það nýtist þeim ekki til framhaldsnáms í öðrum skólakerfum, ef við getum orðað það þannig, heldur verður að liggja fyrir hvernig hægt er að meta það.

Mér finnst skipta gríðarlega miklu máli að við gerum þetta og ég hvet fólk sem hefur almennt áhuga á þeim málum að skoða afskaplega áhugaverða sögu lýðháskólanna á Norðurlöndunum og hvernig starfsemin á Íslandi hefur þróast. Í sjálfu sér er formið að fá á sig einhverja mynd núna, þ.e. lögfesting á einhverju slíku, en þetta hefur verið til í mismunandi formi í gegnum tíðina, allt frá héraðsskólum eða húsmæðraskólum eða hvað það heitir. Það er ótrúlega mikils virði, eins og ég sagði áðan, að sjá og hitta fólk, bæði erlent og innlent, t.d. í LungA sem ég hef heimsótt oftar en einu sinni, og spjalla við það um hvers vegna það kemur, hvers vegna það ákveður að fara í nám sem kostar töluverða peninga fremur en að fara í hefðbundinn framhaldsskóla eða fræðslumiðstöð. Það er eftirspurn eftir samverunni, eftirspurn eftir því að standa á eigin fótum, læra að takast á við vandkvæði, hljóta viðurkenningu innan hópsins o.s.frv. Mér hefur fundist það töluvert ríkjandi og svo það að fá að gera eitthvað með höndunum. Fólk sem ég hef talað við hefur rætt mikið um það og sagt frá.

Þetta er eitthvað sem við eigum að stefna að almennt í skólakerfinu okkar og erum að gera samkvæmt námskrá, þ.e. skapandi og gagnrýnin hugsun, læsið, þátttakan og allt það sem við þekkjum. Þegar fólk er komið á fullorðinsaldur og hefur einhverra hluta vegna ekki fótað sig í hefðbundnu skólakerfi skiptir máli að eiga tækifæri. Maður sér á stöðum eins og á Flateyri að þetta er svo mikil innspýting í samfélögin. Það skiptir svo gríðarlegu máli fyrir sjálfsmynd þessara samfélaga að hafa hvort sem það eru skólar eða eitthvað annað af slíku kalíberi, því að skólar eru gjarnan hjörtun í sveitarfélögunum. Mér finnst þetta mjög mikilvægt.

Það er eitt sem mig langar að nefna í lokin. Ég þarf ekki að lengja umræðuna, ég er bara ótrúlega ánægð með að þetta frumvarp sé komið fram. En á bls. 8 í greinargerðinni þar sem talað er um rekstrarfyrirkomulagið og að þetta eigi ekki að vera með ágóðamarkmiði og annað segir að „kennsla fari að jafnaði fram á íslensku nema annað sé tekið fram í skólanámskrá“. Auðvitað er það hið hefðbundna en nú þekkjum við, eins og fyrir austan, að hópurinn er mjög blandaður. Þar eru nemendur erlendis frá, hefur verið töluvert stór hópur þar. Það er alveg ljóst að þar hefur kennsla ekki farið fram á íslensku nema að takmörkuðu leyti, eðli máls samkvæmt, og stofnendurnir að þeim skóla eru ekki íslenskir, þeir sem mættu þar í samfélagið og urðu til þess einhvern veginn að hrinda þessu í framkvæmd sem hefur svo orðið eins risastórt og það er á Seyðisfirði.

Mig langar að ráðherra komi aðeins inn á þetta þegar hún lokar málinu á eftir þannig að það sé alveg á hreinu ef dugar bara að taka þetta fram í skólanámskrá, þá sé það í lagi. Eins og ég segi finnst mér frábært að við skulum vera komin hingað og að við sjáum fram á að fjölga hér enn í skólaflórunni. Ekki veitir af því, mjög margir þurfa á þeim úrræðum að halda. Það er svakalega gott ef við sjáum fram á að vera með einn svona skóla fyrir vestan, einn fyrir austan og ef það yrði að veruleika líka á Suðurlandi held ég að við værum orðin mjög vel sett. Að sjálfsögðu gætu þeir orðið fleiri en ég held að það væri mjög flott að hafa þetta svona og hvet til þess að við sjáum fram á það að skólinn á Laugarvatni verði veruleika.