149. löggjafarþing — 94. fundur,  11. apr. 2019.

lýðskólar.

798. mál
[16:05]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég er hingað komin eins og aðrir í þessari umræðu til að fagna sérstaklega að hér skulum við vera komin með frumvarp til laga um lýðskóla. Mér finnst þetta í rauninni vera mjög stór dagur, að hér skulum við vera komin með frumvarp sem hefur það markmið að stuðla að starfrækslu lýðskóla á Íslandi. Það er búið að rekja ýmislegt sem skiptir máli í umræðunni. Ég kem vafalaust til með endurtaka eitthvað af því, en vonandi líka bæta einhverju nýju við.

Eins og fram hefur komið lagði Brynhildur Pétursdóttir, hv. þáverandi þingmaður, fram þingsályktunartillögu um lýðháskóla og í annað skiptið sem sú þingsályktunartillaga var lögð fram var fjallað um hana í allsherjar- og menntamálanefnd. Þá fékk ég það hlutverk að vera framsögumaður nefndarálits nefndarinnar og tillagan var samþykkt 2. júní 2016. Þar var sagt fyrir um það að lýðháskólar yrðu viðurkenndir að lögum sem valkostur í íslensku menntakerfi og að litið yrði til fyrirkomulagsins á Norðurlöndunum við mótun lagaumgjarðar. Eftir því sem ég best fæ séð hefur tekist það sem rætt var í hv. allsherjar- og menntamálanefnd við umfjöllun um þingsályktunartillöguna og í rauninni er komið, að því er ég best fæ séð, býsna gott frumvarp, góður rammi, sem uppfyllir það sem lagt var upp með en auðvitað mun svo núverandi allsherjar- og menntamálanefnd taka málið til frekari umfjöllunar og skoða það.

Eins og fram hefur komið eru starfræktir hér tveir lýðháskólar en hér er frumvarp um lýðskóla. Það eina sem var ekki í samræmi í frumvarpinu og nefndarálitinu á sínum tíma og kannski í þingsályktuninni eins og hún varð er að þá var talað um að við ættum að halda okkur við hugtakið lýðháskóli en ég held samt að þetta sé orðin mjög góð niðurstaða, að við færum okkur í hugtakanotkuninni og breytum hugtakinu lýðháskóli í lýðskóli. Ég fæ ekki betur heyrt en að allir séu orðnir tiltölulega sáttir við það sem vinna á þessu sviði.

Nú eru sem sagt starfræktir tveir skólar, annar á Seyðisfirði og hinn á Flateyri eins og fram er komið. Ég vil nota þetta tækifæri og þakka Seyðfirðingum þrautseigjuna. Ég held að við eigum þeim að þakka að hér erum við stödd í dag, þeim sem þar hafa starfað að málefnum skólans, bæði núverandi stjórnendum lýðháskólans þar, LungA-skólans, og ýmsum í samfélaginu sem hafa drifið verkefnið áfram.

Ýmislegt fleira hefur gerst í aðdraganda þessa máls. Fyrir u.þ.b. ári var í Norræna húsinu haldin á vegum Ungmennafélags Íslands ráðstefna þessara tveggja skóla, á Flateyri og Seyðisfirði, og þangað komu gestir frá norrænum lýðháskólum. Þar var í rauninni komið á vísi að samtökum lýðskóla á Íslandi, eða lýðháskóla eins og það hét í fyrra, sem hefur verið líka drifkraftur að því að við erum hingað komin.

Eins og fram hefur komið hefur síðan verið flutt þingsályktunartillaga um stofnun lýðháskóla á Laugarvatni og ég vil þá nota tækifærið og benda á að ég held að fyrsti flutningsmaður sé hv. þm. Willum Þór Þórsson.

Lýðskólar hafa ekki náð að festa rætur á Íslandi í gegnum tíðina þó að þeir hafi gert það á hinum Norðurlöndunum. Í greinargerð með frumvarpinu eru raktar ýmsar ástæður fyrir því og ég get tekið undir þær. Hér voru til skamms tíma heimavistarskólar víða um landið sem sinntu hlutverki þessara skóla að nokkru leyti. Þeim hefur síðan fækkað og það hefur myndast ákveðið tómarúm í íslensku menntakerfi sem ég held að við náum að fylla upp í ef þetta frumvarp verður að lögum.

Það sem mig langaði að staldra sérstaklega við er að í greinargerðinni er bent á að meðal stofnana eða skóla sem gætu fallið undir gildissvið laganna og hlotið viðurkenningu samkvæmt þeim séu húsmæðraskólarnir sem nú starfa og eru tveir, annar á Hallormsstað og á sér mjög langa og merkilega sögu og hinn í Reykjavík og á sömuleiðis langa og merkilega sögu. Þessir tveir skólar hafa sinnt eins og margir heimavistarskólar að nokkru leyti sambærilegu hlutverki og lýðskólar gera. Ég held að það sé mjög mikilvægt að í umfjöllun nefndarinnar verði farið yfir akkúrat þetta atriði sérstaklega og kallað eftir fulltrúum þessara skóla til að skoða hvort þessi tilhögun sé raunverulega skynsamleg.

Annað sem mig langaði aðeins að drepa á er að hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir kom inn á vestnorrænu eftirskólana, þingsályktunartillögu þar að lútandi og umfjöllun um hana hér, ég man raunar ekki hvort hún sagði á yfirstandandi þingi eða síðasta þingi, en vildi þá í því samhengi vekja athygli á Norður-Atlantshafsbekknum, tilraunaverkefni sem Verslunarskóli Íslands tekur þátt í og er áætlað að hefjist frá og með skólaárinu 2019–2020 þar sem nokkrum íslenskum nemendum sem eru að ljúka grunnskóla gefst kostur á að taka þátt í nýjung í námsframboði á framhaldsskólastigi þar sem fjórir framhaldsskólar vinna saman, frá Danmörku, Grænlandi og Færeyjum ásamt Verslunarskólanum. Þarna held ég að sé akkúrat komið verkefni sem gæti fallið undir það sem fjallað var um í þingsályktuninni um vestnorræna eftirskóla.

Aðeins að efnisatriðum frumvarpsins. Ákvæðið um markmið, gildissviðið og yfirstjórnina er mjög skýrt. Svo er grein um viðurkenningu lýðskóla og fjármögnun. Þar eru talin upp atriði sem öll skipta miklu máli. Mig langar að staldra við 7. liðinn: „Nám í lýðskóla er ekki metið til eininga en skólarnir ákveða að öðru leyti fyrirkomulag kennslu og námsmats. Starfstími með nemendum skal að lágmarki vera 15 vikur á skólaárinu.“ Þarna er settur rammi um það.

Í 9. liðnum stendur svo: „Skólanum er skylt að halda til haga gögnum um námsvist og þátttöku nemenda sem getur nýst þeim til frekara náms eða starfa.“

Þetta tel ég einmitt vera lykilinn að því að aðrir skólar séu tilbúnir og vinnumarkaðurinn sömuleiðis að meta það sem fram fer í lýðskólunum eftir því sem við á hverju sinni.

Í III. kafla er fjallað um skipulag náms og skólastarf. Koma þar inn mjög skynsamleg atriði í takt við aðra löggjöf um skólabrag, eins og um að öllum beri að leggja sitt af mörkum til þess að viðhalda góðum starfsanda og jákvæðum skólabrag, að nemendaráð skuli starfa og lýðræði viðhaft í starfseminni.

Að lokum vil ég bara koma aftur að því að frumvarpið skapar ramma um starfsemi lýðskóla til framtíðar og dregur því úr þeirri óvissu sem hefur ríkt um nám í lýðskólum, skýrir hverjir geta boðið upp á námið og á hvaða forsendum og hvetur til þess að formlega skólakerfið og atvinnulífið þekki starfsemina, meti það starf sem þar fer fram og þá hæfni sem nemendur tileinki sér í lýðskólunum. Til að tryggja samfellu og sveigjanleika í öllu skólakerfinu sem lýðskólarnir verða þar hluti af eiga lýðskólarnir að vinna námskrá út frá viðmiðum um stigvaxandi hæfni eins og formlega skólakerfið og þannig tengist námið mati á raunfærni nemenda, eins og hæstv. ráðherra kom inn á í framsöguræðu sinni.

Að lokum vil ég leggja áherslu á að málið hljóti umfjöllun og afgreiðslu í allsherjar- og menntamálanefnd.