149. löggjafarþing — 94. fundur,  11. apr. 2019.

lýðskólar.

798. mál
[16:16]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Herra forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um lýðskóla. Ég vil í upphafi ræðu minnar þakka hæstv. ráðherra fyrir að leggja fram þetta mál og fagna því mjög að það skuli vera komið fram. Eins og margir hv. þingmenn hafa komið inn á er þetta mál framhald af máli sem þingmenn Bjartrar framtíðar, undir forystu Brynhildar Pétursdóttur, fluttu á 145. löggjafarþingi og er afar gleðilegt að það skuli vera komið áfram.

Í þeirri tillögu stóð þó að gert yrði ráð fyrir því þar sem stendur, með leyfi forseta, „að gera lýðháskóla að viðurkenndum valkosti í menntun sem njóti lagalegrar umgjarðar og stuðnings hins opinbera“.

Það má velta fyrir sér hvað tillöguflytjendur hafa á þeim tíma haft í huga með því. En engu að síður er málið hér fram komið og ljómandi gott fyrsta skref.

Ég velti þessu með stuðninginn upp, m.a. vegna ákvæðis 5. gr. frumvarpsins þar sem m.a. er talað um að skólarnir skuli nánast fjármagna sig sjálfir og innheimta skólagjöld, en í 1. tölulið 3. gr. kemur fram að þeir eigi ekki að vera reknir í hagnaðarskyni að jafnaði. En aftur kemur í 5. gr. fram að þeir megi vera með annars konar starfsemi samhliða starfsemi lýðskóla. Ég er ekki að segja að það sé ósamrýmanlegt, en þá þarf sú starfsemi væntanlega að hafa einhvern ábata til að geta lagt fé til reksturs skólans.

Ég hefði auðvitað viljað að það væri áskilnaður í lögum um að ríkið, eða sveitarfélög eftir atvikum, legði skólum eins og þessum til fé með einhverjum hætti, jafnvel einhvers konar einingar með hverjum nemanda. En ég skil hins vegar vel að til að koma málinu fram á þessu stigi málsins sé þetta það skref sem hægt er að taka núna og við gætum þá bætt um betur síðar.

Eins og margir hv. þingmenn hafa komið inn á eru nú í rekstri tveir lýðháskólar, eins og þeir kalla sig enn þá, á Íslandi, á Flateyri og Seyðisfirði. Það er full ástæða til að þakka þeim sem hafa staðið fyrir þeirri starfsemi í gegnum tíðina fyrir það frumkvöðlastarf sem þeir hafa drifið áfram og náðu að halda lífi í sínum skólum, sérstaklega á Seyðisfirði, þar sem skólinn hefur verið lengur í rekstri en á Flateyri, en ég var einmitt svo heppin að fá að vera viðstaddur opnun þess skóla síðasta haust og verða vitni að þeim mikla metnaði og bjartsýni sem ríkir í kringum stofnun slíks skóla og ekki hvað síst hvað þetta skiptir miklu máli fyrir samfélagið á Flateyri.

Hv. þingmenn hafa einnig komið inn á að auðvitað á málið sér einhverja sögu og sjálfsagt muna einhverjir hv. þingmenn eftir skólanum í Skálholti, sem upprunalega fór af stað sem lýðháskóli en þróaðist síðan yfir í að vera nokkurs konar skóli þjóðkirkjunnar. En allt þetta byrjar einhvers staðar, eins og margir hv. þingmenn hafa komið inn á.

Ég tel að lýðskólar, og við skulum reyna að venja okkur á að kalla þá það, séu mjög mikilvægir í flórunni í íslensku menntakerfi, ekki síður en annars staðar á Norðurlöndum. Við erum þarna í rauninni að byggja á mjög gamalli, norrænni menntahefð og sem slík er hún afar mikilvæg. Hún er ekki síst mikilvæg í ljósi þess að hún gefur þeim sem þarna leita sér menntunar annars konar tækifæri en þeir hefðu haft í hinu hefðbundna menntakerfi. Það skiptir mjög miklu máli.

Tekið er fram í frumvarpinu í 7. tölulið 3. gr. að nám í lýðskóla verði ekki metið til eininga en að skólarnir skuli síðan kveða sjálfir á um fyrirkomulag að öðru leyti.

Á svipaðan hátt og varðandi fjármögnunina, eins og ég kom inn á áðan, get ég í sjálfu sér alveg tekið undir það að svona fyrsta kastið höfum við þetta með þessum hætti. En ég myndi halda að til lengri tíma litið væri það skoðandi að við sem samfélag litum á nám í lýðskóla eins og hvert annað nám og gerðum fólki þannig kleift ekki bara að nota námið í lýðskólanum til að fóta sig inn í skólakerfið, heldur líka nota það að einhverju leyti sem byggingareiningu eða stökkpall inn í annað nám með formlegum hætti. Þá kæmi væntanlega líka að því þegar slíkt yrði ákveðið að meta hvort nám í lýðskóla ætti að einhverju leyti að vera lánshæft eins og annað nám í íslenska menntakerfinu, jafnvel þó að hér sé ekki um framhaldsskólanám eða „háskólanám“ að ræða, því að þetta eru oft og tíðum einstaklingar sem hafa átt erfitt með að finna sér viðspyrnu annars staðar í skólakerfinu og það getur skipt gríðarlega miklu máli að gera þeim kleift að finna þessa viðspyrnu. Þá er einhvers konar styrkja- eða lánakerfi alla vega það fyrirkomulag sem við notumst við í dag og er mikilvægt að skoða það á síðari stigum.

Ég fagna þessu frumvarpi, herra forseti, og vona að það fái góðan framgang í hv. allsherjar- og menntamálanefnd.