149. löggjafarþing — 94. fundur,  11. apr. 2019.

lýðskólar.

798. mál
[16:24]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Ég ætla að koma hingað upp, eins og aðrir hv. þingmenn, til að að fagna þessu frumvarpi í ljósi þess að ég hef komið vestur á Flateyri og heimsótt skólann þar og frétt af skólanum á Seyðisfirði sem gengur prýðilega. Mikil ánægja er með þetta form og er bæði nemendum og samfélaginu öllu til góðs. Það sem ég horfi fyrst og fremst á þegar ég sé að þetta er orðið að veruleika er að þarna er komið til móts við ungt fólk sem fer ekki alveg hefðbundnar leiðir í námi og öðru slíku, þ.e. eins og venjan er hér á landi. Við erum ekki öll eins og ungt fólk á oft erfitt með að fóta sig eða taka ákvarðanir eða vita hvað það vill. Maður þekkir það sjálfur frá fyrri tíð og á ungu fólki í dag.

Þessi nálgun hugnast mínum smekk bara mjög vel og eins það sem komið hefur fram í ræðum, að læra að vinna með höndunum. Það er eitt af því sem við höfum verið að ræða á hinu háa Alþingi undanfarið og ég veit að hæstv. menntamálaráðherra hefur reynt að undirbyggja iðn- og verknám. Við vorum í mínum flokki með það á stefnuskránni okkar fyrir síðustu kosningar að efla iðn- og verknám, og þá með meiri fjárframlög til slíkrar menntunar, vegna þess að það hefur sýnt sig á undanförnum árum og áratugum að þeir sem fara í nám fara frekar í bóknám, sem er að sjálfsögðu gott mál líka. En þarna á milli þarf að vera jafnvægi og nám til að kenna höndunum að vinna skiptir ekki minna máli.

Lengi hefur verið skortur á iðnaðarmönnum. Vonandi er þetta skref í þá átt að koma á móts við þann vanda. Eins og ég kom inn á áðan þarf að hjálpa ungu fólki við að átta sig á því hvað það langar að gera í lífinu. Það er mikilvægt að færa þetta út í samfélagið. Til dæmis hefur Flateyri, og Vestfirðir almennt, átt mikið undir högg að sækja. Þar hefur verið fækkun á fólki og samdráttur í atvinnu þó að núna sé uppgangur í kringum fiskeldið. Þá hefur skólahald og innviðir staðanna dregist saman. Þetta verður vonandi til þess að bæta ástandið enda er mjög mikil ánægja með þennan skóla fyrir vestan. En auðvitað þarf dæmið að geta gengið upp, því að allt kostar pening. Vonandi verður reynslan af þessu það góð í nánustu framtíð að hið opinbera sjái sér hag í því að fjármagna skólann í samvinnu við sveitarfélögin. Það er svo magnað að ansi margt snýst um peninga og þegar þarf að fara að gera eitthvað þarf að réttlæta þau fjárútlát og spá í hvort þau borgi sig. Við þurfum að setja verðmiða á alla skapaða hluti, þar á meðal börnin okkar og okkur sjálf og heilsuna og heilsuleysið og ég veit ekki hvað og hvað. Það hlýtur að vera góð fjárfesting í því að koma ungu fólki til fullorðinsáranna á sem bærilegastan hátt. Í mínum huga þarf ekki að reikna það mikið út en sjálfsagt eru einhverjir aðrir miklu betri í að gera það en ég.

Ég er ekki búinn að fletta mikið í þessu en samt aðeins og sé ýmsar útfærslur, m.a. þá punkta, eins og reyndar hefur verið drepið á hérna, að skólinn þurfi að geta sýnt hvernig fjárhagslegri ábyrgð sé háttað og hvernig fjárhagslegt rekstraröryggi starfseminnar sé tryggt. Það er einmitt það sem ég kom inn á. Þetta þyrfti að vera í góðri samvinnu við hið opinbera. Ég hef trú á því að við vinnum að því og það sýnir sig hvað viljinn er mikill hjá yfirvöldum að vinna að þessu máli.

Ég held að ég hafi ekki öllu meira um þetta að segja nema ég endurtek að ég fagna þessu. Það er þó eitt enn sem ég var búinn að strika hérna við, þessi stutta setning, með leyfi forseta:

„Hlutverk lýðskóla er fyrst og fremst að búa nemendur undir lífið, gera þá að fjölhæfum einstaklingum og reiðubúna til að takast á við tilveruna.“

Það er helsti punkturinn í ræðunni hjá mér. Ég tek heils hugar undir það.