149. löggjafarþing — 94. fundur,  11. apr. 2019.

lýðskólar.

798. mál
[16:39]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég vil taka undir að það er mjög ánægjulegt að búið sé að leggja frumvarp til laga um lýðskóla. Nafnið skiptir kannski ekki öllu máli þótt við séum orðin vön að kalla þetta lýðháskóla út af þeirri þó ekki svo löngu sögu sem lýðháskólar eiga sér á Íslandi. En ég tel mjög mikilvægt að það sé lagaumgjörð um þessa skóla, sem eru af öðrum meiði en hefðbundnir skólar sem við þekkjum hér á Íslandi. Annars staðar á Norðurlöndunum hefur þetta skólaform tíðkast lengi og verið góð viðbót við annað námsframboð og mætt ungu fólki á ákveðnum stað í lífinu þegar það er ekki búið að gera upp hug sinn varðandi hvað það ætlar að verða þegar það verður stórt og hefur tekið ákvörðun um að fá að lifa lífinu og þroskast í öðruvísi umhverfi og gera eitthvað skemmtilegt. Ég held einmitt að það framboð sem er að verða á Íslandi í þessa átt varðandi lýðskóla sé mjög gott fyrir samfélag okkar sem er stressandi og með sífellt meiri hraðspólun.

Við þekkjum að búið er að stytta framhaldsskólana niður í þrjú ár og mjög mikið álag er á ungu fólki í framhaldsskólum landsins í dag. Hjá öllu því unga fólki sem ég hef hitt, og hitti ég þó nokkuð af ungu fólki á þessum aldri, finnst mér standa upp úr að þetta sé orðin of mikil pressa. Fólk sem er á þessum aldri vill auðvitað bæði njóta lífsins, vera ungt og læra og gera eitthvað skemmtilegt, setja upp sýningar, leikrit og ýmislegt og vera í ýmiss konar félagsstarfi meðfram framhaldsskólunum. En það er oftar en ekki mikið álag að standa undir þessu öllu. Þess vegna held ég að svona námsframboð þar sem fólk tengist meira náttúrunni og ýmiss konar sköpun, hugmyndavinnu og útfærslu á ýmsu þar sem einstaklingurinn fær tækifæri á að þroska sig og vera skapandi, sé mjög gott.

Skólarnir sem vaxið hafa með þessum hætti hér á Íslandi, eins og á Seyðisfirði frá árinu 2013 og á Flateyri frá því í fyrrahaust, hafa sprottið upp vegna áhuga einstaklinga á að byggja þetta upp og hafa fengið góðar viðtökur, bæði frá heimamönnum og nærumhverfinu. Það er frábært. Mér finnst mjög ánægjulegt að svona hlutir gerist fjarri, kannski ekki heimsins glaumi, en fjarri höfuðborginni þar sem flestar menntastofnanir eru, sem sýnir að hægt er að hafa fjölbreytileika í námi og námsvali hvar sem er á landinu. Vilji, áræðni og þor er það sem þarf. Þá er það ekkert síðra og oft og tíðum betra að komast aðeins út úr skarkalanum og fá að þroskast í fallegu umhverfi og góðu framboði á ýmsum námsbrautum sem ekki eru hefðbundnar.

Ég var á skólasetningu á Flateyri, þar sem ég þekki ágætlega til og bý í næsta firði, á Suðureyri við Súgandafjörð, síðasta haust þar sem lýðskólinn á Flateyri hóf sitt starf. Þar er lögð áhersla á að byggja upp námsleiðir sem snerta auðlindir sem eru á svæðinu, í náttúrunni, menningunni og í samfélaginu á Flateyri og í nærsveitum. Í náminu er lögð áhersla á færni, þekkingu og verkefni sem miða að því að nemendur verði færari í að ferðast um náttúruna, njóta hennar og nýta sér auðlindir hennar á öruggan og umhverfisvænan hátt. Þetta eru göfug og góð markmið. Á Seyðisfirði hefur alls kyns listsköpun verið stunduð. Það nám hefur verið eftirsóknarvert af fólki víðs vegar að úr heiminum. Á Flateyri hefur þetta verið fólk á ýmsum aldri, allt frá 18 ára og upp í 60–70 ára gamalt fólk. Svo lengi lærir sem lifir. Það sýnir að áhuginn er til staðar hjá fólki á öllum aldri og bara gott þegar fólk hristist saman á mismunandi aldri. Það deilir bæði gleði og ánægju þegar fólk getur verið saman og lært og kynnt sér ýmislegt sem þarna er í boði á þeim námsbrautum sem lýðskólinn hefur verið að bjóða upp á.

En alltaf þarf einhverja peninga til að halda góðum hlutum gangandi. Ég rak augun í eitt í þessu frumvarpi þar sem segir, með leyfi forseta:

„Í viðurkenningu lýðskóla felst hvorki skuldbinding um fjárframlög úr ríkissjóði til viðkomandi skóla né ábyrgð hins opinbera á skuldbindingum hans.“

Það er ákveðið áhyggjuefni að ekki sé tryggt að einhver fastur stuðningur sé á hverju fjárhagsári frá ríkinu. Ég kalla eftir því í lokaræðu hæstv. ráðherra og spyr hvernig hún sjái það fyrir sér að ríkið komi að málum, hvort það geti verið mismunandi á milli ára og að þeir aðilar sem bera ábyrgð og reka þessa lýðskóla geti sótt um. Það verður þá bara að ráðast hverju sinni hve mikill stuðningur kemur frá ríkinu. En við vitum að sveitarfélög og ýmsir aðilar og auðvitað ríkið hafa stutt starfsemina á Seyðisfirði, LungA, og á Flateyri. En auðvitað er nauðsynlegt að þetta sé byggt á traustum grunni og auðvitað þarf líka að vera ábyrg fjármálastjórn á þeim skólum sem fara af stað undir þessum formerkjum.

Ég tek líka undir orð hv. þm. Bryndísar Haraldsdóttur, en við erum báðar í Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins. Þar hefur verið mikil umræða og áhugi, sérstaklega hjá Grænlendingum, á eftirskóla. Við höfum á sameiginlegum fundum okkar talað um hvort ekki væri hægt að tengja þetta með einhverjum hætti við uppbyggingu á lýðskólum hér á Íslandi. Mér fyndist mjög spennandi ef hægt væri að samþætta þetta með einhverjum hætti í framtíðinni. Ég held að það væri mjög áhugavert og við þurfum að skoða það í framhaldinu með menntamálaráðuneytinu og hæstv. menntamálaráðherra.

Ég vil segja að góðir hlutir gerast hægt og sumir gerast hratt, eins og á Flateyri. Það var ekki sjálfgefið í þessu litla þorpi sem hefur marga fjöruna sopið að upp sprytti lýðskóli einn daginn, en það gerðist með dugnaði og krafti þeirra sem stóðu að honum. Ég þakka þeim frumkvöðlum sem höfðu dug og þor til að starta þeim góða skóla og vonandi á hann langt líf fyrir höndum. Það setur auðvitað svip á lítið þorp þegar svona starfsemi er komin í bæinn. Mér finnst það vera frábært og sýna að allt er hægt að gera ef viljinn er fyrir hendi og ekki síður fagmennska og þróttur sem fylgir vestfirskum og austfirskum fjöllum frekar en annars staðar á landinu í svona metnaðarfullu starfi sem fylgir svo óhefðbundnu skólastarfi sem lýðskólar halda utan um.

Ég ætla að láta þessu lokið og treysti því að vel verði fjallað um þessi mál í allsherjar- og menntamálanefnd og óska okkur öllum til hamingju með þann árangur sem virðist vera að nást í þessum efnum. Vonandi gengur vel með að koma á fót álíka skólastarfsemi á Laugarvatni. Ég óska líka hæstv. ráðherra til hamingju með hennar vinnu að framgangi þessara mála.