149. löggjafarþing — 94. fundur,  11. apr. 2019.

lýðskólar.

798. mál
[16:50]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Frú forseti. Við fjöllum hér um frumvarp til laga um lýðskóla. Þetta er kærkomið frumvarp. Markmiðið með því er að stuðla að starfrækslu lýðskóla á Íslandi sem hafi það að markmiði að veita almenna menntun og fræðslu og undirbúa nemendur fyrir þátttöku í lýðræðissamfélagi, eins og segir í 1. gr., efla þá til þess að verða þátttakendur í samfélaginu, nýta möguleika sína eins og kostur er og betur en ella. Þetta er gott frumvarp og með þessu bætist enn eitt blómið við í flóru menntakerfisins okkar. Eigum við ekki að taka okkur í munn það gamalkunna orðtak að lofa þúsund blómum að blómstra? Þetta er eitt blómið í viðbót, þau eru kannski ekki þúsund, en rík þörf er á því að auka fjölbreytileikann í námsvali fyrir ungt fólk. Flest bendir til þess að skólakerfið okkar verði að laga sig betur að ungum einstaklingum og þörfum þeirra, fækka þeim sem upplifa sig í einskismannslandi, finna ekki tilgang hreinlega með lífinu, kornungt fólk. Eins og hæstv. menntamálaráðherra kom inn á í ræðu sinni í gær snúa allt of margir einstaklingar baki við skólanum sínum, gamla hefðbundna skólanum sínum, komast í þann stóra hóp þeirra sem falla brott úr hinu íslenska skólakerfi og því miður lenda of margir í óvissutímabili, lenda hreinlega á refilstigum.

Frú forseti. Nám við lýðháskóla er ólíkt því sem við eigum að venjast í hefðbundnum framhaldsskólum. Í lýðháskóla fá nemendur og kennarar tækifæri til að vera meira við leik og störf, prófa sig áfram, oft í óhefðbundnu umhverfi, og eru ekki eins bundin af því að sökkva sér niður í fræðilegar kenningar og skólabækur þó að það sé vissulega hluti af náminu og viðfangsefninu. Samtöl, samvinna, verklegt nám, tengsl við atvinnulífið á viðkomandi stað, tengsl við mannlífið, náttúruskoðun og lögmál náttúrunnar eins og þetta virkar oft, vettvangskannanir — þetta eru mikilvægir þættir í náminu og þó að við höfum vandað nám og vandaða námskrá í hinum hefðbundnu skólum verða of margir viðskila einhvers staðar á leiðinni. Próf og einkunnir eru ekki hið æðsta takmark í lýðskóla eða lýðháskóla heldur eru samtöl, fundir, félagsleg efling, félagsleg þroskaleit það mikilvæga og í því felst mikil menntun. Þetta er það sem ungt fólk í dag er að glíma við, þ.e. skortur á þeirri færni að eiga hin félagslegu greiðu og góðu samskipti. Hugtakið félagsfælni er okkur kannski tamt á tungu.

Í lýðháskólaumhverfinu gefst nemendum færi á að þroskast eftir kannski óhefðbundnum en árangursríkum leiðum. Nemendur eru mikið saman, þeir eru óbundnir af aga fjölskyldunnar þó að skólaagi í lýðháskólunum sé engu minni en í hefðbundnu skólakerfi.

Frú forseti. Ég þekki til þess að þegar Lýðskólinn á Flateyri tók til starfa tók samfélagið stakkaskiptum, ungt og fært fólk streymdi til bæjarins og skapaði gamalkunna og öfluga stemningu í litlu samfélagi sem horfði sannast sagna ekki björtum augum til framtíðar. Framtak eins og þetta og stuðningur hins opinbera við verkefnið gerði gæfumuninn. Ætli stuðningurinn nemi ekki eins og tveimur stöðugildum sálfræðinga á ársgrundvelli.

Ísafjarðarbær er, eins og þingheimur þekkir allur, rótgróið menningarsamfélag en Flateyri er hluti af Ísafjarðarbæ. Þar iðar allt af félags-, íþrótta-, mennta- og menningarlífi. Heimamenn eru alvanir að taka á móti gestum, bæði Íslendingum og í raun frá öllum heimshornum. Flateyri er við sjávarsíðuna sem gefur einstaka innsýn í lífið eins og við Íslendingar höfum lifað því í gegnum aldirnar. Sjósókn hefur borið uppi lífið og störfin líkt og víða í nágrannalöndunum og hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir benti svo vel á það í ræðu sinni áðan að Vestnorræna ráðið hefði lagt fram tillögu, sem samþykkt var í þinginu fyrir skemmstu, um að við kæmum á fót hér eftirskólum. Það er tilbrigði við lýðháskóla á sína vísu. Það ánægjulega hefur gerst að umræða um nýja valkosti í skólakerfinu hefur fengið vængi og ánægjulegt að vita til þess að bæði LungA og lýðháskóli eða lýðskóli á Laugarvatni er kannski að komast fyrir vind. Eftirskóla þekkjum við ekki í íslenska skólakerfinu en auðvitað þekkjum við lýðháskólahugmyndafræðina. Þúsundir Íslendinga hafa farið á lýðháskóla í nágrannalöndunum og átt þar námsdvöl og bera lýðháskóladvöl góða sögu.

Það er ánægjulegt hversu öflugu lífi hefur verið blásið í þessa hugmyndafræði hér á landi. Ég held að ástæða sé til að þakka hæstv. ráðherra fyrir þann skilning sem hún hefur sýnt gagnvart því að við þurfum að bregðast við þeim merkjum sem við fáum stöðugt um vandann í skólunum, vanda ungs fólks og vanlíðan margra í skólunum. Það er ástæða til að undirstrika að það á ekki við öll ungmenni en hópurinn sem býr við vanlíðan og fellur brott er svo stór og marktækur að við verðum að bregðast við. Þetta er gott skref sem verið er að stíga því að námsdvöl í lýðskóla er mjög góður kostur fyrir stóra hópa ungmenna. Þar eru gerðar, eins og við þekkjum, óhefðbundnar kröfur um inngöngu og það er dálítið háð skólunum. Þeir velja líka sínar áherslur. Við þekkjum áherslur Lýðháskólans á Flateyri, við þekkjum listabrautina fyrir austan og svo á ég von á að íþróttir muni setja sinn svip á skólann á Laugarvatni sem vonandi fær að dafna.

Lýðskólar eða lýðháskólarnir hafa reynst mörgum — og um það er hægt að vitna — dýrmæt stoð, nemendur sem stundað hafa nám við lýðháskóla hafa hreinlega áttað sig á og lært að lesa á áttavitann í lífinu. Þetta hefur einfaldlega verið sá bjarghringur sem skilað hefur mörgum heilum að landi. Það er því, frú forseti, lottóvinningur þarna á hverjum miða.

Þess má geta hér í lokin að fyrir liggur nýleg og yfirgripsmikil greining, sem unnin var af samtökum lýðháskóla í Danmörku, sem sýnir og staðfestir að dvöl ungs fólks á lýðháskóla, fólks sem fallið hefur úr skóla í hinu hefðbundna menntakerfi, er ótvírætt góð. Líkurnar á að snúa aftur til náms og halda áfram í námi á æðri stigum aukast verulega ef það næst að fá ungt fólk til þess að stunda nám, t.d. við lýðháskóla.

Frú forseti. Ég vona að við getum gleymt því að tala um lýðháskóla sem allra fyrst og orðum aldrei meir en það er undir Alþingi og allsherjar- og menntamálanefnd komið. Vonandi fær þetta frumvarp greiða leið í gegnum þingið og við getum farið samkvæmt lögum að tala um öfluga lýðskóla, fyrst þessa þrjá og kannski fleiri í framtíðinni.