149. löggjafarþing — 94. fundur,  11. apr. 2019.

lýðskólar.

798. mál
[17:02]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því, eins og allir aðrir hv. þingmenn sem hafa tekið þátt í umræðunni í dag, að þakka hæstv. ráðherra fyrir að koma með þetta frumvarp hér inn. Ég fagna því um leið að það sé að verða til heilsteypt lagaumhverfi og umgjörð fyrir lýðskóla á Íslandi.

Hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra Lilja Alfreðsdóttir fór mjög vel yfir í framsögu markmið, tilgang, fyrirkomulag og þau skilyrði sem um ræðir. Ég vil í því samhengi, í tengslum við þessa lagaumgjörð alla og tilurð og tilefni frumvarpsins, taka undir með hv. þm. Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur um að það sé bæði mikilvægt og um leið sérstaklega ánægjulegt að sjá tillögu þingsins, í þessu tilviki þingsályktunartillögu Brynhildar Pétursdóttur, verða að veruleika. Ég þakka röggsemi hæstv. ráðherra við að klára þetta mál. Á bls. 4 í greinargerðinni er farið vel yfir tilefni og nauðsyn lagasetningarinnar og vísað til þeirrar þingsályktunartillögu sem var samþykkt á Alþingi í júní 2016.

Þá vil ég taka undir með hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, sem ræddi fyrr í dag um mikilvægi og fjölbreytni tækifæra sem í því formi felast, og einnig með fjölmörgum öðrum hv. þingmönnum sem hafa talað fyrir fleiri skólum og aukinni fjölbreytni um leið og því að fá lýðskóla á Laugarvatni.

Ég vil nota tækifærið, og bendi á þingsályktunartillögu sem ég hef lagt fram í tvígang um það efni og vísa þá til þingsályktunartillögu um stofnun lýðháskóla Ungmennafélags Íslands á Laugarvatni. Ég held að það væri mikill bragur á því að um leið. Ég er þess fullviss og veit að tekið verður vel utan um þetta mál í hv. allsherjar- og menntamálanefnd. Þingsályktunartillagan um stofnun lýðháskóla eða lýðskóla Ungmennafélags Íslands á Laugarvatni hefur fengið mjög jákvæðar umsagnir og það væri bragur á því að klára þau tvö mál samhliða. Ég er þess fullviss, horfandi á frumvarpið sem við ræðum, að það myndi alla vega ekki tefja fyrir framgangi þess að lýðskóli á Laugarvatni yrði raunin. Mér þykir hreinlega vænt um það, hæstv. forseti, hversu margir hv. þingmenn hafa stutt það að fjölga skólum og það að skólinn á Laugarvatni verði að veruleika.

Ég vil að lokum vísa til orða hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra Lilju Alfreðsdóttur í framsögu hennar. Það er oft mikið talað um brottfall og brotthvarf í umræðu um skólamál og við tengjum það forvörnum. Á bls. 7 í greinargerðinni, svo að ég setji það í eitthvert samhengi, segir, með leyfi forseta:

„Markmið lýðskóla er jafnframt að auka umburðarlyndi og félags- og samskiptahæfni, meðal annars með því að nemendur búi saman á heimavist. Lýðskólar eru því viðbót sem getur aukið á fjölbreytni í menntakerfinu. Í þeim þreyta nemendur ekki próf og skólarnir hafa til að mynda verið taldir vera góður kostur fyrir nemendur sem vita ekki hvert þeir vilja stefna og fyrir ungt fólk sem flosnað hefur upp úr námi. Margt bendir og til þess að dvöl í lýðskóla auki líkur á útskrift nemenda í formlegu námi …“

Þetta er ansi mikilvægt. Ég vitnaði til orða hæstv. ráðherra áðan, sem ég veit að hefur tekið mjög vel til í öllum þáttum skólastarfs og unnið gegn brottfalli í námi, hæstv. ráðherra veit hvað það hefur mikið forvarnagildi. Ég held að við ættum að hafa það í huga ásamt öðrum þeim kostum sem lýðskólar bjóða með fjölbreyttu vali í námi fyrir nemendur okkar, þótt ekki væri nema fyrir það að gefa nemendum færi og kost á því að halda út í nám, þá er mikið unnið.

Ég ætla ekki að hafa þetta lengra. Eins og aðrir hv. þingmenn þakka ég hæstv. ráðherra fyrir þetta frumvarp sem ég veit að fær góða umfjöllun í hv. allsherjar- og menntamálanefnd.