149. löggjafarþing — 94. fundur,  11. apr. 2019.

lýðskólar.

798. mál
[17:08]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Hæstv. forseti. Ég veit ekki hvort mörgum er innan brjósts eins og mér en ég finn eiginlega fyrir nærveru Jónasar frá Hriflu í húsinu í dag. Ég get ekki leynt því að mér finnst í sjálfu sér að með þessu frumvarpi hér sé verið að vinna það sem einu sinni var kallað á hátíðlegum stundum „ræktun lands og lýðs“ vegna þess að hvort tveggja er að þeir tveir lýðskólar sem þegar eru í starfsemi í landinu eru hvor í sínum enda landsins þar sem áskoranir eru í búsetu, bæði hafa þessir staðir eflst og gengið í endurnýjun lífdaganna og svo hefur það unga fólk á öllum aldri sem þarna hefur fengið inni í námi blómstrað. Eins og allir vita var það þannig að þegar Jónas frá Hriflu sótti á sínum tíma um inngöngu í Latínuskólann og var hafnað af því að hann þótti of gamall safnaði hann fé til að komast í lýðháskóla eða lýðskóla í Danmörku og færði þá hugmynd með sér heim. Upp úr því spruttu héraðsskólarnir, sem var kannski akkúrat það sem Ísland þurfti á að halda í miðri kreppu, að sjá heima í héraði merki uppbyggingar, merki um bjartsýni og merki um að það væri framtíð í landinu.

Það er líka athyglisvert og snertir mig, hafandi búið í nágrenninu, að sjá í greinargerðinni smáklásúlu um skóla Torfa í Ólafsdal, sem var miklu merkilegri skóli og hefur miklu merkilegri sögu en hefur verið sögð. Það var ekki einasta það að Torfi væri að taka unga bændur til sín og kenna þeim gott verklag með því t.d. að flytja inn nýjan ljá o.s.frv. heldur var það líka þannig að kona Torfa tók ungar stúlkur í nám. Það má segja að þetta unga fólk af báðum kynjum hafi síðan farið miklu betur menntað en það hafði áður verið til baka í heimasveitir sínar. Þetta fólk varð undantekningarlítið máttarstólpar í samfélögum sínum, hvar sem það var.

Þess vegna greip ég í klisjuna áðan um ræktun lands og lýðs, vegna þess að mér finnst að þarna sé verið að gera hvort tveggja, ég tala nú ekki um ef Laugarvatn kemst í rekstur líka. Þá væri Jónasar vel minnst, ef sá ágæti skóli fengi aftur það hlutverk sem hann hafði sem lengst og tilgang eins og til hans var stofnað á sínum tíma.

Ég hef tekið eftir því og kann að meta það og ber mikla virðingu fyrir því starfi sem hæstv. menntamálaráðherra hefur unnið í því augnamiði að breikka tækifæri til menntunar. Ég orðaði það einhvern tímann þannig í þessum ræðustól að hjörtu okkar slægju svolítið í takt þegar væri verið er að tala um t.d. iðn- og tæknimenntun. Ef það er eitthvað sem maður sér eftir frá fyrri árum sínum á þinginu er það sú staðreynd að maður samþykkti þessa 25 ára reglu sem var sett á í denn, sem dró úr möguleika þeirra sem einhverra hluta vegna höfðu lagt lykkju á leið sína í námi til að koma inn aftur og fóta sig.

Við höfum líka orðið vör við mikið brottfall. Þetta mikla brottfall sem er úr námi á Íslandi hefur gríðarlega dökkar hliðar í sumum tilfellum og getur nánast orðið til þess að líf manna breytist og jafnvel leggur líf í rúst. Við höfum heyrt af því og vitum að það er aukin streita meðal ungs fólks og unglingum finnst miklu meiri kröfur til sín gerðar en áður. Nú kann ég svo sem ekki að meta hvort það er rétt, en þetta er upplifun þessa fólks að nokkrum hluta. Þess vegna er mjög gott að hérna komi möguleiki sem veitir fólki tækifæri til að efla sjálft sig án þess að hafa yfir höfðinu hangandi þá pressu sem regluleg próf og krafa um námsárangur, beitt krafa, hefur í för með sér. Að því leyti til og að flestu leyti líst mér mjög vel á þetta mál.

Ég held að mikil og brýn þörf sé fyrir þetta nám og fyrir þetta frumvarp og er alveg sannfærður um að það muni koma í ljós. Það hefur náttúrlega þegar komið í ljós t.d. á Flateyri, þar sem öll rými hafa fyllst sem þar var boðið upp, á hvernig það setur allt annan brag á þann bæ en var fyrir örfáum árum síðan. Það er líka mikils virði, held ég.

Það var sagt við mig í gær að sá sem hér stendur væri eins og jólasveinninn, það væri eins og hann væri 350 ára gamall, hann hefði verið úti um allt. En hafandi búið á Austfjörðum líka get ég vel skynjað að fólk af þessu horni hér hefur í mörgum tilfellum mjög gott af því að komast í kyrrara umhverfi og þá eindregnu náttúrufegurð sem er á bæði Flateyri, Seyðisfirði og Laugarvatni. Ég held að menn komist í miklu meiri snertingu við sjálfa sig í því afslappaða umhverfi sem er á þeim stöðum.

Að því leyti til er ég gríðarlega ánægður með frumvarpið. Ég er einnig mjög ánægður með hvernig fært er í orð hlutverk lýðskóla á bls. 7, með leyfi hæstv. forseta, þar sem segir:

„Hlutverk lýðskóla er fyrst og fremst að búa nemendur undir lífið, gera þá að fjölhæfum einstaklingum og reiðubúna til að takast á við tilveruna.“

Þetta þykir mér vel fram sett. Ég neita því hins vegar ekki að það er eitt atriði sem ég sakna aðeins og ég veit ekki hvort það hefði hugsanlega verið betra að geyma málið vegna þess sem mér finnst vanta hér inn. Mér finnst vanta eitthvert vilyrði um aðkomu ríkisins að rekstri þessara skóla. Ef ég heyrði rétt áðan talaði hv. þm. Ólafur Þór Gunnarsson um möguleikann á því að koma upp því kerfi að hverjum nemanda fylgdi ákveðin fjárhæð. Nú kann að vera að það hafi farið fram hjá mér ef eitthvert slíkt ákvæði er í frumvarpinu. Ég taldi mig hafa lesið það nokkuð gaumgæfilega en þetta kann að hafa farið fram hjá mér. En ég hefði talið að það væri mjög farsælt og þá er ég ekki að tala um skuldbindandi fjárheimildarloforðið eða eitthvað slíkt heldur tryggingu eða formbyggingu á því hvernig fjármögnun skólanna gæti farið fram.

Það er náttúrlega alltaf eitt sem maður óttast — og ég ber mikla virðingu fyrir því hvernig Seyðfirðingar hafa haldið hafa haldið úti sínum skóla í áravís, skemur á Flateyri — og það er að til þessa starfs sé stofnað án þess að rekstrargrundvöllur sé sæmilega tryggður. Þá er verr af stað farið en heima setið, ef menn rekur svo upp á sker jafnvel innan nokkurra ára. Kannski svarar hæstv. ráðherra því í ræðu á eftir hvort um misskilning þess sem hér stendur er að ræða eða hvort þetta er svona.

Ég las ákvæðið um skólagjöld, sem er góðra gjalda vert. Nú þegar starfa í Reykjavík eða á Íslandi skólar á boð við Verslunarskóla Íslands, sem er að hluta til rekinn fyrir skólagjöld. Þar kemur að vísu á móti að ríkið hefur, alla vega seinni árin, lagt til með hverjum nemanda ákveðna upphæð. Ég hefði því talið affarasælla að skoða þetta atriði á einhvern hátt. Það er náttúrlega mjög mögulegt að þegar frumvarpið fer í meðferð hv. allsherjar- og menntamálanefndar verði það tekið fyrir. Ég vona sannarlega að þegar málið fer þangað komi á fund nefndarinnar þeir sem hafa komið að slíkri starfsemi á bæði Flateyri og Seyðisfirði til að miðla reynslu sinni og koma því beint á framfæri við alþingismenn hvar skórinn kreppir helst. Ég hefði talið að það væri mjög gagnlegt, án þess að ég ætli að fara að stjórna, enda sit ég ekki í nefndinni og á ekkert með að kalla fólk fyrir hana, en ég ráðlegg þetta mjög eindregið.

Eins og ég segi hef ég mjög góða tilfinningu fyrir þessu lagafrumvarpi og held að við getum öll verið sammála um að ef þetta verður til þess að þeir sem ekki finna sig í hefðbundnu námi, einhver ákveðinn fjöldi, finni sér stað, finni sér leið, finni sér síðan námsbraut, sé það mjög þýðingarmikið. Ef við erum „að forða einhverjum frá verri örlögum“ með því að þetta nám sé til, nám sem er, ef ég get orðað það þannig, afslappaðra en hefðbundið nám sem gerir þó nokkra kröfu til fólks, held ég að þar sé mikið unnið.

Ég hef rætt við hæstv. ráðherra einhvern tímann að það er sú hringrás sem maður hefur óttast, þ.e. þeir sem flosna upp úr námi, mest drengir, hafa tekið vondar ákvarðanir varðandi líf sitt. Sumir þeirra hafa ekki átt afturkvæmt en aðrir misst af miklum tækifærum og misst ákveðinn kafla úr lífi sínu út, þó að margir hafi ratað til baka, sem betur fer. Ég held að þetta sé gott skref í þá átt.

Kannski er iðn- og tæknimenntun og þróunin komin lengst í Verkmenntaskólanum í Neskaupstað og ekki að ófyrirsynju, það eru hliðaráhrif af þeirri iðnaðaruppbyggingu sem hefur orðið þar í nágrenninu, á Reyðarfirði, sem margir voru óhressir með. Það er næsta víst að álverið á Reyðarfirði hefur óneitanlega gert bæði samninga við ungmenni sem eru að læra í Verkmenntaskólanum í Neskaupstað, jafnvel styrkt að einhverju leyti til náms þetta unga fólk, alla vega getur unga fólkið gengið að vel launuðum störfum í verksmiðjunni að námi loknu. Þá erum við að tala um verðmæt störf, ég get nefnt rafvirkja og fleiri iðngreinar og einnig tækninám, þ.e. þeir sem hafa farið enn þá lengra hafa hugsanlega farið í tæknifræði eða eitthvað slíkt.

Ég held að það sé brýnt, og þetta hef ég svo sem líka rætt við ráðherra á einhverjum tímapunkti, að gera úttekt eða alla vega smala saman þeim öflugu iðnfyrirtækjum sem við eigum. Ég get nefnt það sem er hér í nágrenninu, eins og Skaginn 3X, Marel og fyrirtækið sem rekur stærsta renniverkstæði á Íslandi, Össur. Ég held að þarna séu endalaus tækifæri til að efla iðn- og tæknimenntun.

Ég óska ráðherra til hamingju með þetta mál og vona að það fái vandaða yfirferð. Ég vona líka eindregið að tryggt verði eða komið fram með hugmyndir um hvernig fjármögnun að einhverjum hluta gæti orðið.