149. löggjafarþing — 94. fundur,  11. apr. 2019.

lýðskólar.

798. mál
[17:23]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Frú forseti. Ég ætla nú að byrja mína ræðu á að fagna þessu frumvarpi og óska hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra til hamingju með að hafa lagt það fram. Ég tek undir með fyrri ræðumanni og vona að frumvarpið fái góða meðferð í nefndinni.

Það sem ég ætlaði að segja voru nokkur atriði, bara stutt og laggott. Ég ætlaði í fyrsta lagi að segja að lýðháskólar eru ekki nýtt fyrirbæri, eins og kemur fram í greinargerðinni. Þetta er aldagamalt form menntaseturs. Fyrsti lýðskólinn tók til starfa í Danmörku 1844 og í dag eru þeir 70 þar. Það hafa verið gerðar tilraunir á Íslandi til að stofna slíka skóla en þeir hafa ekki orðið mjög langlífir. Nokkrar slíkar tilraunir eru raktar í greinargerðinni og nú á að gera tilraun af alvöru með þessum lögum, að festa lýðskóla í sessi.

Lýðháskólahugmyndin byggir á norrænni lýðháskólahefð og er skýrt í greinargerð hvers vegna ekki sé unnt að nota þetta orð, „lýðháskóli“ — heldur er í þessu frumvarpi talað um „lýðskóla“.

Málið á sér forsögu eins og hefur komið fram. Í þingsályktun frá því í júní 2016 var mennta- og menningarmálaráðherra falið að vinna að gerð þess frumvarps sem hér er fram komið. Eins og áður segir fagna ég því ákaflega og er mikill talsmaður þess af mörgum ástæðum.

Lýðháskóla sækja nemar sem eru yfirleitt komnir á aldurinn 18–25 ára en þó með einhverjum undantekningum, bæði yngri og eldri. Krakkarnir búa saman á heimavist, kynnast og vinna saman. Það eflir auðvitað þroskann. Þetta er kannski svolítið eins og í gamla daga, kemur kannski í staðinn fyrir það sem flestir gerðu hér áður fyrr, að fara í sveit og koma þaðan til baka eftir að hafa verið þar eitt sumar eða fleiri, auðvitað efldir að þroska.

Þannig að ég held að þetta úrræði, þótt gamalt sé, sé einnig tímanna tákn, þarna geti nemar notið samvista, oft fjarri stórborgum. Hér á Íslandi eru slíkir skólar þegar komnir fram, nú nýverið á Flateyri og Seyðisfirði. Einkunnarorð skólans á Flateyri eru einmitt frelsi, þekking og þroski, sem lýsa kannski best í fáum orðum hvað er verið að gera þarna. Það er verið að efla þroska nemendanna og þekkingu þeirra.

Því sem ég fagna sérstaklega er það sem kemur líka fram í greinargerðinni um fólk sem sækir lýðháskóla — og margir Íslendingar hafa gert það, farið til Danmerkur og Noregs, maður þekkir nokkra sem hafa gert þetta líka; oft eru þetta krakkar sem vita ekki alveg hvert þeir eru að fara í lífinu á þessum aldri, sem algengt er. Þetta hefur hjálpað mjög mörgum til að rétta kúrsinn, koma síðan til baka, vera kannski búnir að efla sína þekkingu á tungumáli, kynnast mörgu fólki frá ólíkum löndum og koma oft og tíðum allt aðrir til baka. Þeir taka ákveðna stefnu og fara í nám og ljúka því. Rannsóknir hafa sýnt, og það kemur fram í greinargerðinni með þessu frumvarpi, að auknar líkur eru á því að þeir sem sækja nám í lýðháskóla ljúki öðru námi síðar. Þannig að ég fagna þessu af mörgum ástæðum.

Ég fagna frumvarpinu ekki síst vegna þess að í því er fólgið byggðamál. Þetta er tækifæri fyrir staði eins og Seyðisfjörð og Flateyri en einnig, eins og hugmyndir eru uppi um hjá Ungmennafélagi Íslands, að stofna slíkan skóla á Laugarvatni í Árnessýslu. Þar er nú gamalgróið skóla- og menntasetur og væri ekki verra ef þar myndi bætast við skólastofnun á þessu sviði, þ.e. lýðskóli.

Þannig að ég fagna þessu ákaflega. Það sem er lögð áhersla á í svona skólum — eða var upphaflega — er, svo ég lesi úr greinargerðinni:

„Áherslan skyldi vera á hið talaða orð, umræður og rökræður og þátttöku nemandans á öllum sviðum og búa þá þannig undir lífið. Ekki skyldu þreytt próf. Þá ættu nemendur og kennarar að búa á sama stað og markmiðið væri að nemendur tileinkuðu sér færni og þekkingu sem gagnaðist þeim í hinu daglega lífi.“

Þetta var upphaflega hugmyndin. Við erum auðvitað ekkert komin langt frá henni í dag, að breyttu breytanda. Hér er einnig texti um einkenni lýðháskóla núna, ég ætla að lesa hann, með leyfi forseta:

„Lýðskólar eru öðruvísi kostur í námi og bjóða upp á annars konar nám en hefðbundnir skólar. Þannig er mikil áhersla lögð á mannrækt, sjálfsrækt og virka þátttöku nemenda. Í lýðskólum er boðið upp á heildstætt nám sem oft er tengt við ákveðin þemu eða svæðisbundna menningarlega og samfélagslega sérstöðu. Markmið lýðskóla er jafnframt að auka umburðarlyndi og félags- og samskiptahæfni, meðal annars með því að nemendur búi saman á heimavist.“

Þetta er nú ekki komið langt frá upphaflegu hugmyndinni um lýðháskólana.

Ég fagna þessu frumvarpi ákaflega og vona að það eigi greiða leið í gegnum þingið.