149. löggjafarþing — 94. fundur,  11. apr. 2019.

sviðslistir.

800. mál
[17:44]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um sviðslistir. Frumvarpi þessu um sviðslistir er ætlað að koma í stað laga nr. 138/1998, leiklistarlaga.

Íslenskt menningarlíf er í miklum blóma og við Íslendingar getum svo sannarlega verið stoltir af þeim glæsilega árangri sem listafólk okkar nær á ýmsum sviðum. Á þeim rúmu tveimur áratugum sem liðnir eru frá setningu leiklistarlaga hafa orðið ýmsar breytingar sem kalla á endurskoðun laganna. Má til að mynda nefna að starfsumhverfi stofnana hefur breyst og ábyrgð stjórnenda aukist auk þess sem afar brýnt er að ein heildarlög nái yfir sviðslistir í heild sinni.

Með þessu frumvarpi er leitast við að styrkja umgjörð sviðslista í landinu og samræma löggjöf þeim breytingum sem mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur unnið á sviði bókmennta, myndlistar og tónlistar. Á þeim sviðum hafa verið skipaðar stjórnir eða ráð fyrir viðkomandi listgrein sem eru ráðherra til ráðgjafar um viðkomandi svið. Þá hafa einnig verið stofnaðir sjóðir til að efla viðkomandi listgrein með veitingu styrkja ásamt því að skapa grundvöll fyrir rekstur skrifstofu eða miðstöðvar sem þjóni viðkomandi sjóði og standi að kynningu á listgreininni hér á landi og erlendis. Reynslan hefur sýnt að þetta fyrirkomulag auðveldar stjórnsýslu, yfirsýn og samvinnu sjóðanna.

Frumvarpið skiptist í fjóra kafla og helstu breytingar sem felast í frumvarpinu eru eftirfarandi:

Í I. kafla frumvarpsins er kveðið á um markmið þess, auk þess sem hugtakið „sviðslistir“ er skilgreint en það er notað yfir leiklist, listdans, óperuflutning, brúðuleik og aðrar skyldar listgreinar, svo sem fjölleikahús.

Í II. kafla frumvarpsins eru ákvæði um Þjóðleikhúsið. Nokkrar breytingar eru frá gildandi leiklistarlögum. Ákvæðið um þjóðleikhússtjóra breytist þannig að ríkari kröfur eru gerðar um menntun hans, auk þess sem mælt er fyrir um skipunartíma og hugsanlega endurskipun. Ætíð skal auglýsa embættið laust til umsóknar í lok hvers skipunartímabils. Ákvæði um þjóðleikhúsráð er breytt þannig að fagfélög sviðslistafólks tilnefna þrjá fulltrúa í þjóðleikhúsráð en tveir fulltrúar verða skipaðir án tilnefningar.

Í III. kafla er fjallað um Íslenska dansflokkinn. Uppbygging kaflans er hliðstæð kaflanum um Þjóðleikhúsið. Með frumvarpinu er gert ráð fyrir að ákvæði um Íslenska dansflokkinn verði lögfest í fyrsta sinn. Fram til þessa hefur hann einungis starfað á grundvelli reglna sem ráðherra hefur sett honum, fyrst nr. 878/1999 og nú nr. 14/2002 með áorðnum breytingum.

Í IV. kafla er fjallað um aðra sviðslistastarfsemi en þá sem fellur undir ríkisaðila og þar eru einnig ákvæði um sviðslistaráð og sviðslistajóð. Sviðslistaráð úthlutar úr sviðslistasjóði sem skiptist í tvær deildir, deild atvinnuhópa og deild áhugahópa í sviðslistum. Þá er ráðherra veitt heimild til að fela þriðja aðila að annast kynningarmál á íslenskum sviðslistum hér á landi og erlendis og efla alþjóðlegt samstarf íslenskra sviðslistamanna og stofnana. Að auki er ákvæði til bráðabirgða sem kveður á um að ráðherra skipi nefnd sem falið verði að skila tillögu um stofnun þjóðaróperu. Í athugasemdum í samráðsgátt við drög að frumvarpi til sviðslistalaga komu fram óskir um að staða Íslensku óperunnar yrði tryggð til lengri tíma.

Umtalsvert samráð hefur nú þegar farið fram. Við fyrstu gerð frumvarpsins var haft samráð við helstu hagsmunaaðila, auk þess sem drög að frumvarpinu voru höfð til almennrar kynningar á vef ráðuneytisins haustið 2011 þar sem kostur gafst á að senda athugasemdir eða ábendingar um efni þess. Þá var haft samráð við hagsmunaaðila við áframhaldandi vinnslu frumvarpsins í ráðuneytinu og tekið tillit til ýmissa athugasemda. Auk þess hefur samráðið verið aukið og við vorum með sérstaka nefnd til þess að aðstoða okkur við gerð og samningu þessa frumvarps.

Virðulegur forseti. Með framangreindum breytingum er stefnt að því að sams konar rammalöggjöf gildi um sviðslistasvið og önnur listasvið, þ.e. að ákvæði séu annars vegar um þær ríkisstofnanir sem starfa á viðkomandi sviði og hins vegar um sjóði og ráð sem vinni að framgangi sviðslistanna utan veggja stofnana. Er það mat mitt að þessum breytingum verði náð með samþykkt frumvarpsins.

Ég legg til að frumvarpinu verði vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar að lokinni 1. umr.