149. löggjafarþing — 94. fundur,  11. apr. 2019.

sviðslistir.

800. mál
[17:56]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eitt af því sem er hér nefnt sem ákvæði til bráðabirgða er að ráðherra skuli fyrir 1. janúar árið 2020 skipa nefnd sem falið verði að gera tillögur um stofnun þjóðaróperu. Nefndin skal skila ráðherra tillögum sínum eigi síðar en í árslok árið 2020. Það sem við erum að hugsa hér er að við viljum efla umgjörð í kringum þessa listgrein. Þjóðarópera gæti verið mjög öflugur vettvangur til þess.

Ég sé líka fyrir mér að það verði aukið samstarf við Þjóðleikhúsið, Íslenska dansflokkinn, Sinfóníuhljómsveitina og svo að koma með þjóðaróperu.

Það sem ég tel að muni aukast verulega á næstunni er áhugi ferðamanna á að sækja menningarviðburði á Íslandi. Við erum með framúrskarandi sinfóníuhljómsveit, við erum með glæsileg leikhús, flottan dansflokk. Þetta er á heimsmælikvarða og ég sé það svolítið fyrir mér að við munum í framtíðinni lyfta þessu enn frekar upp. Það verður mikil eftirspurn eftir því að sækja þessa viðburði á Íslandi ásamt eftirspurn eftir þeim á erlendum vettvangi.

Þetta frumvarp er allt liður í því, eins og ég nefndi í framsögu minni og í svörum, að efla skapandi greinar á Íslandi og stofna til samstarfs við aðila sem á því hafa áhuga.