149. löggjafarþing — 94. fundur,  11. apr. 2019.

meðferð einkamála o.fl.

783. mál
[19:39]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Forseti. Ég ætla að gera hér örstuttar athugasemdir. Ég ákvað að fara ekki í andsvör við hæstv. ráðherra þar sem hann er ekki skrifaður fyrir þessu frumvarpi, þó að hann hafi mælt fyrir því.

Ég ætla að gera athugasemd við tvennt, hvort tveggja í 2. gr. Mér finnst að með því ákvæði að óheimilt sé öðrum en dómstólum að hljóðrita eða taka myndir í þinghaldi en dómari geti síðan veitt undanþágu frá banni við öllu framangreindu, ef sérstaklega standi á, sé verið að snúa hlutunum á haus.

Að mínu viti á þetta að vera heimilt, það á að vera hin almenna regla, en síðan geti dómari haft lokað þinghald eða bannað myndatöku eða hljóðritun ef þurfa þykir. Ég vil með öðrum orðum snúa þessu við og beini því til hv. nefndar sem tekur þetta mál til meðferðar.

Eins vil ég beina því til hv. nefndar að huga að því hvað það þýði að óheimilt sé að senda samtímaendursögn af skýrslutökum og hvort þetta muni hafa áhrif á fréttaflutning eins og hann tíðkast í dag úr dómsmálum. Ef svo er og það er þrengt að fréttaflutningi frá dómsmálum með þessu frumvarpi er það eitthvað sem þarf virkilega að setjast yfir og skoða — því að það er andstætt því sem við viljum sjá.