149. löggjafarþing — 94. fundur,  11. apr. 2019.

skráning raunverulegra eigenda.

794. mál
[20:01]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um skráningu raunverulegra eigenda á þskj. 1255. Þetta er mál nr. 794. Með frumvarpinu er lagt til að sett verði lög um skráningu raunverulegra eigenda lögaðila og fjárvörslusjóða og sambærilegra aðila. Einnig eru lagðar til breytingar á lögum um fyrirtækjaskrá, nr. 17/2003, og lögum um greiðsluþjónustu, nr. 120/2011.

Meginmarkmið með lagasetningunni er að tryggja að ávallt séu til staðar réttar og áreiðanlegar upplýsingar um raunverulega eigendur svo unnt sé að greina og koma í veg fyrir peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Tilefni frumvarpsins er innleiðing á ákvæðum 30. og 31. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2015/849 frá 20. maí 2015, um ráðstafanir gegn því að fjármálakerfið sé notað til peningaþvættis eða til fjármögnunar hryðjuverkastarfsemi sem og viðbrögð við athugasemdum alþjóðlegs vinnuhóps um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Enska heitið er: „Financial Action Task Force“, skammstafað FATF.

Í niðurstöðum úr úttekt FATF á árinu 2017 um stöðu mála á Íslandi voru gerðar athugasemdir er varða aðgang tilkynningarskyldra aðila að upplýsingum um raunverulega eigendur viðskiptamanna sinna.

Með innleiðingu á framangreindum ákvæðum tilskipunar ESB, sem áður var getið, nr. 2015/849, er komið til móts við þessar athugasemdir FATF. Í skýrslu FATF voru einnig gerðar athugasemdir við heimildir ríkisskattstjóra til að beita viðurlögum vegna brota á lögum um fyrirtækjaskrá, nr. 17/2003, sem og við framfylgni Íslands við tilmæli FATF um peninga- og verðmætasendingarþjónustu. Eru því í frumvarpinu einnig lagðar til breytingar á lögum um fyrirtækjaskrá og lögum um greiðsluþjónustu, nr. 120/2011.

Með frumvarpinu er einnig lagt til að tekin verði efnislega upp í íslenskan rétt þau ákvæði tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2018/843 sem breyta ákvæðum 30. og 31. gr. tilskipunar ESB nr. 2015/849, en tilskipunin nr. 2018/843 hefur ekki verið tekin upp í EES-samninginn.

Rétt er að geta þess að í lok síðasta árs voru sett ný heildarlög um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Þetta eru lög nr. 140/2018, en með lögunum voru annars vegar innleidd ákvæði tilskipunar ESB nr. 2015/849, utan ákvæða 30. og 31. gr. um raunverulega eigendur, og hins vegar brugðist við stærstum hluta athugasemda FATF.

Í frumvarpi því sem hér er lagt fram er lagt til að þeim aðilum sem falla undir gildissvið frumvarpsins, samanber 2. gr., t.d. hlutafélögum, einkahlutafélögum, skráðum trúfélögum, lífeyrissjóðum, sparisjóðum og fleiri aðilum, verði gert skylt að skrá upplýsingar um raunverulega eigendur sína eins og þeir eru skilgreindir í lögum um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, nr. 140/2018, en með raunverulegum eiganda er átt við einstakling, einn eða fleiri, sem í raun á starfsemina eða stýrir þeim viðskiptamanni, lögaðila eða einstaklingi í hvers nafni viðskipti eða starfsemi er stunduð eða framkvæmd.

Þegar um lögaðila er að ræða telst raunverulegur eigandi vera einstaklingur eða einstaklingar sem í raun eiga eða stjórna lögaðila í gegnum beina eða óbeina eignaraðild að meira en 25% hlut í lögaðilanum, ráða yfir meira en 25% atkvæðisréttar eða teljast á annan hátt hafa yfirráð yfir lögaðila. Undanskildir eru lögaðilar sem skráðir eru á skipulegum markaði. Ef ekki er mögulegt að finna raunverulegan eiganda, t.d. vegna svo dreifðs eignarhalds að engir einstaklingar eiga eða stýra viðskiptamanni í skilningi laganna eða ef vafi leikur á um eignarhaldið, skal sá einstaklingur, einn eða fleiri, sem stjórnar starfsemi lögaðilans teljast raunverulegur eigandi. Þannig væri í tilviki sjálfseignarstofnana stjórn stofnunarinnar skráð sem raunverulegur eigandi og það sama á við ef vafi leikur á um eignarhaldið.

Í tilviki fjárvörslusjóða og sambærilegra aðila telst raunverulegur eigandi vera fjárvörsluaðili, stofnaðili, ábyrgðaraðili ef við á, rétthafi, einn eða fleiri. Ef rétthafi hefur ekki verið tilgreindur telst rétthafi vera hver sá einstaklingur eða hópur einstaklinga sem mun njóta ávinnings af stofnun fjárvörslusjóðs eða sambærilegs aðila og aðrir einstaklingar sem hafa yfirráð með beinum eða óbeinum hætti yfir fjárvörslusjóði eða sambærilegum aðila.

Í frumvarpinu er lagt til að lögaðilum verði skylt að skrá upplýsingar um nafn raunverulegs eiganda, lögheimili, kennitölu eða fæðingardag, ríkisfang, eignarhlut, þ.e. stærð eignarhlutar, og tegund eignarhalds, og senda inn gögn til staðfestingar á framangreindum upplýsingum.

Gert er ráð fyrir að skrifstofa fjármálagreininga lögreglu, Fjármálaeftirlitið, ríkisskattstjóri, lögreglan, héraðssaksóknari og tollstjóri hafi aðgang að öllum upplýsingum og gögnum um raunverulega eigendur lögaðila. Rétt er að nefna að Fjármálaeftirlitið og ríkisskattstjóri eru eftirlitsaðilar samkvæmt lögum um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

Lagt er til að tilkynningarskyldir aðilar í skilningi laganna um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, svo sem fjármálafyrirtæki, lögmenn og endurskoðendur, hafi aðgang að nauðsynlegum upplýsingum og gögnum þegar þeir framkvæma áreiðanleikakönnun og að almenningur hafi aðgang að upplýsingum um nafn raunverulegs eiganda, fæðingarmánuð og ár, búsetuland, ríkisfang og stærð og tegund eignarhalds.

Einnig er lagt til að skattyfirvöld hafi aðgang að öllum upplýsingum og gögnum um raunverulega eigendur vegna skatteftirlits, upplýsingaskipti milli landa og skattrannsókn, en ekki er kveðið sérstaklega á um aðgang skattyfirvalda að upplýsingum um raunverulega eigendur í tilskipun nr. 2015/849. Rétt þykir þó að kveða á um aðgang skattyfirvalda að upplýsingum um raunverulega eigendur með þessum hætti en með því er komið til móts við skuldbindingar stjórnvalda vegna samninga um upplýsingaskipti á sviði skattamála sem byggðir eru á marghliða samningum OECD og Evrópuráðsins um gagnkvæma stjórnsýsluaðstoð í skattamálum. Markmið með gerð slíkra samninga er að auka gagnsæi og sporna við skattundanskotum.

Hvað fjárvörslusjóði og sambærilega aðila varðar er lagt til að m.a. verði skráðar upplýsingar um fjárvörsluaðila, stofnaðila, ábyrgðaraðila og rétthafa. Lagt er til að aðgangur að upplýsingum um raunverulega eigendur fjárvörslusjóða og sambærilegra aðila verði með svipuðum hætti og aðgangur að upplýsingum um raunverulega eigendur lögaðila. Þó er ekki gert ráð fyrir að almenningur hafi aðgang að slíkum upplýsingum nema geta sýnt fram á lögvarða hagsmuni af því að fá upplýsingarnar afhentar.

Í frumvarpinu er lagt til að upplýsingar um raunverulega eigendur verði skráðar í fyrirtækjaskrá sem ríkisskattstjóri starfrækir. Lagt er til að ríkisskattstjóri fái heimild til að leggja á dagsektir og stjórnvaldssektir sem og heimild til að afskrá eða slíta skráningarskyldum aðila samkvæmt 2. gr. veiti hann ekki upplýsingar samkvæmt lögunum og verði ekki við kröfu um úrbætur.

Í frumvarpinu er jafnframt lagt til að gerðar verði breytingar á lögum um fyrirtækjaskrá, nr. 17/2003, annars vegar vegna skráningar raunverulegs eiganda og hins vegar til að bregðast við athugasemdum FATF. Eins og fyrr segir lutu athugasemdir FATF að því að ríkisskattstjóri hefði ekki nægar heimildir til að beita viðurlögum vegna brota á lögum um fyrirtækjaskrá, nr. 17/2003, og því er lagt til að ríkisskattstjóri fái heimild til að leggja á dagsektir og stjórnvaldssektir veiti tilkynningarskyldur aðili ekki upplýsingar samkvæmt lögunum og verði ekki við kröfum um úrbætur.

Þá er lagt til í frumvarpinu að gerðar verði minni háttar breytingar á lögum um greiðsluþjónustu, nr. 120/2011, vegna athugasemda FATF við framfylgni Íslands við tilmæli FATF um peninga- og verðmætasendingarþjónustu en breytingarnar leiða af því að hugtakið peninga- og verðmætasendingarþjónustu féll brott úr lögum með samþykkt laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, nr. 140/2018. Í stað hugtaksins „peninga- og verðmætasendingarþjónusta“ kemur „greiðslustofnun“.

Lagt er til að lögin taki þegar gildi. Við nýskráningu skráningarskyldra aðila samkvæmt lögunum skal tilkynna raunverulega eigendur.

Í bráðabirgðaákvæði frumvarpsins er kveðið á um skyldu skráningarskyldra aðila samkvæmt lögunum sem þegar eru skráðir í fyrirtækjaskrá til að skrá upplýsingar um raunverulega eigendur sína eigi síðar en 1. desember 2019. Eins og fyrr segir er í frumvarpinu lagt til að upplýsingar um raunverulega eigendur verði skráðar í fyrirtækjaskrá sem ríkisskattstjóri starfrækir.

Gert er ráð fyrir að frumvarpið hafi í för með sér aukinn kostnað vegna breytinga á tölvukerfi ríkisskattstjóra sem nemur 15 millj. kr. Einnig er gert ráð fyrir að rekstrarkostnaður skrárinnar vegna skráningarinnar aukist um 20 millj. kr. á ári. Gert hefur verið ráð fyrir þessum auknu útgjöldum í kjölfar samþykktar frumvarpsins og rúmast kostnaður innan útgjaldaramma málefnasviðsins.

Í frumvarpinu er lagt til að ríkisskattstjóri fái heimild til að beita sektum vegna vanrækslu á tilkynningarskyldu. Ógerlegt er að áætla tekjur af sektum, enda ekki hægt að segja til um það að hvaða marki muni reyna á beitingu þeirra og hvernig ákvörðun á fjárhæð sektar muni þróast. Dagsektir og stjórnvaldssektir eru þó í eðli sínu viðurlög sem eiga að hafa fælingarmátt og er því ekki gert ráð fyrir verulegum tekjum með þessari aðgerð.

Verði frumvarpið óbreytt að lögum verða fjárhagsáhrif á afkomu ríkissjóðs því auknar tekjur vegna heimildar til að beita dagsektum og stjórnvaldssektum en ekki liggur fyrir hve háar þessar tekjur verða.

Hæstv. forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar til umfjöllunar.