149. löggjafarþing — 95. fundur,  29. apr. 2019.

innleiðing þriðja orkupakkans.

[15:03]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Forseti. Í fyrsta lagi vil ég spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort ráðherrann sé sammála hæstv. fjármálaráðherra í mati hans á innleiðingu þriðja orkupakkans frá því í lok mars í fyrra. Hæstv. ráðherra sagði hér í ræðu, eftirminnilega:

„Það sem ég á svo erfitt með að skilja er áhugi hv. þingmanns og sumra hér á þinginu á að komast undir boðvald samevrópskra stofnana. Hvað í ósköpunum liggur mönnum á að komast undir sameiginlega raforkustofnun Evrópu á okkar einangraða landi með okkar eigið raforkukerfi? Hvers vegna í ósköpunum hafa menn áhuga á því að komast undir boðvald þessara stofnana?“

Þá er kallað fram í og hæstv. fjármálaráðherra svarar að bragði:

„Ja, vegna þess að við erum þegar undir því? Eru það rök, hæstv. forseti? Eru það rök að þar sem Evrópusambandinu hefur þegar tekist að koma Íslandi undir einhverja samevrópska stofnun sé ástæða til að ganga lengra?“

Hæstv. ráðherra heldur áfram í þessari góðu ræðu sinni og lýsir því m.a. að það sé grundvallaratriði og kristaltært að raforkumál á Íslandi séu ekki innrimarkaðsmál hjá Evrópusambandinu.

Því spyr ég, minnugur þessarar góðu ræðu hæstv. fjármálaráðherra, sem hæstv. forsætisráðherra hlýtur að muna eftir líka: Er hæstv. ráðherra sammála mati hæstv. fjármálaráðherra? Og ef svo er, getur ráðherrann aðstoðað hæstv. fjármálaráðherra við að fylgja eftir þeirri skoðun og þeirri stefnu sem hann lýsti hér svo vel í ræðu sinni fyrir rétt rúmu ári?

Ég veit að hæstv. forsætisráðherra getur ráðið og rekið ráðherra Sjálfstæðisflokksins og hlýtur fyrir vikið að geta veitt Sjálfstæðisflokknum aðstoð nú við að framfylgja stefnu þess flokks. Eða ætlar hæstv. forsætisráðherra frekar að þiggja aðstoð Viðreisnar og Samfylkingarinnar við að ganga gegn stefnu Sjálfstæðisflokksins í málinu?