149. löggjafarþing — 95. fundur,  29. apr. 2019.

áhrif kjarasamninga á tekjur öryrkja og eldri borgara.

[15:18]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Kjör öryrkja hafa dregist aftur úr kjörum annarra í samfélaginu um næstum þriðjung frá hruni og um tvo þriðju undanfarna þrjá áratugi. Skattkerfið veldur keðjuverkandi skerðingum og er notað til þess að leggja sífellt þyngri byrðar á herðar öryrkja og eldri borgara. Þessu verður að breyta.

Efling stéttarfélag og VR hafa skrifað undir kjarasamning við Samtök atvinnulífsins, svokallaðan lífskjarasamning. En um lífskjör hverra er að ræða? Hver verða næstu skref í kjaramálum öryrkja og eldri borgara? Ljóst er að núverandi fyrirkomulag hefur haldið öryrkjum og hluta aldraðra í ekki bara fátækt heldur sárafátækt. Það er óásættanlegt að lífeyrisþegar sitji alltaf eftir, séu alltaf neðstir í goggunarröðinni og þurfi sífellt að bíða eftir kjarabótum.

Hæstv. forsætisráðherra lýsti því eitt sinn eftirminnilega yfir á Alþingi að stjórnvöld ættu ekki að biðja fátækt fólk á Íslandi að bíða eftir réttlæti.

Undanfarna þrjá áratugi hefur verið beitt ótrúlega fáránlegum klækjum til að koma í veg fyrir að öryrkjar og eldri borgarar fái réttlátar launahækkanir. Með ótrúlegum brellum og með því að nota neysluvísitölu — sem á að nota á vörur en ekki fólk — hefur verið séð til þess að öryrkjar sitji alltaf eftir. Það stendur skýrt í 69. gr. almannatryggingalaga að ákvörðun um hækkun bótanna skuli miða við launaþróun.

Nú er búið að gera nýjan kjarasamning um launamál. Þar er um krónutöluhækkanir að ræða. Þess vegna langar mig að fá svar frá hæstv. ráðherra — skýlaust svar: Munu öryrkjar fá sömu krónutöluhækkanir frá 1. apríl í ár og samið var um á vinnumarkaði?