149. löggjafarþing — 95. fundur,  29. apr. 2019.

áhrif kjarasamninga á tekjur öryrkja og eldri borgara.

[15:22]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra rýr svör. Króna á móti krónu skerðingar eru bara allt annar hlutur en kauphækkanir á almennum vinnumarkaði. Það er greinilegt að öryrkjar eiga ekki að fá hækkun frá 1. apríl. Þá spyr ég: Eiga þeir að fá frá 1. janúar afturvirkt eða á að beita enn einu sinni sömu brellunum á þá og sjá til þess að þeir fái ekki kauphækkanir eins og allir aðrir? Á enn einu sinni að nota krónu á móti krónu umhverfið til að sleppa við að veita þeim þær hækkanir sem almenningur er að fá núna og var samið um í síðustu kjarasamningum? Þetta eru tveir ólíkir hlutir.

Spurningin er: Fá öryrkjar umsamdar hækkanir, krónutölurnar, eins og var samið um á almenna markaðnum, frá 1. apríl eða fá þeir það ekki? Fá þeir þær frá 1. janúar? Ef það er frá 1. janúar á næsta ári, fá þeir þá afturvirkt þannig að þeir sitji við sama borð og allir aðrir sem hafa fengið hækkanir?