149. löggjafarþing — 95. fundur,  29. apr. 2019.

sifjadeild sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu.

718. mál
[16:20]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Helga Vala Helgadóttir) (Sf):

Herra forseti. Vegna málafjölda og manneklu á sifjadeild sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu hefur til langs tíma, ég vil segja allt frá því að embættið var stofnað árið 2015, ekki verið hægt að taka mál sem þangað berast til meðferðar strax. Deildin annast öll fjölskyldumál, svo sem skilnaðar- og forsjármál, umgengnis-, dagsektarmál og lögheimilismál — en einnig mál er varða ættleiðingar, dánarbú, lögræði og fleira.

Samkvæmt upplýsingum frá sifjadeild geta íbúar höfuðborgarsvæðisins sem þangað leita lögbundinnar og nauðsynlegrar þjónustu ekki fengið neinar upplýsingar um hvenær embættið geti hafið meðferð á málum þeirra. Á heimasíðu embættisins er sagt að enn hafi ekkert þeirra mála sem varði umgengni barna við foreldri, forsjá, lögheimili, meðlag, leyfi til utanlandsferða sem bárust eftir september 2018, eða síðastliðna níu mánuði, verið tekið til fyrstu umfjöllunnar.

Við skulum átta okkur á því að þótt mál hafi verið tekin til umfjöllunar á alveg eftir að vinna þau. Það á eftir að senda þau í sáttameðferð, sem er lögbundin, og það á líka eftir að úrskurða, þegar það á við, og tekur þetta allt saman óratíma. Við erum bara að tala um að bið eftir að komast til úthlutunar hjá starfsmanni tekur a.m.k. níu mánuði og jafnvel lengri tíma.

Á bak við þessi mál, herra forseti, eru lítil börn sem stundum fá ekki að njóta reglubundinnar umgengni við foreldra sína. Á bak við þessi mál eru líka fullorðnir einstaklingar sem eru að sækja um skilnað við maka sinn í kjölfar ofbeldis. Á bak við þessi mál eru líka einfaldari mál sem hægt er að leysa með hraði — en miðað við þetta varla á innan við einu ári.

Þetta hefur mjög miklar afleiðingar vegna þess að sá tímafrestur, sá tímarammi sem eru í t.d. skilnaðarmálum, hefst við fyrstu fyrirtöku hjá fulltrúa sýslumanns. Þetta hefur mjög miklar afleiðingar, herra forseti.

Þetta ástand er fullkomlega óboðlegt hjá lögbundinni þjónustustofnun og á því ber ríkisstjórnin ábyrgð. Ég hef margbent á þetta og spyr því hæstv. dómsmálaráðherra einfaldrar spurningar: Hyggst hún bregðast við þessari slæmu stöðu sem verið hefur um langt árabil hjá sýslumannsembættinu á höfuðborgarsvæðinu vegna manneklu og mikils málafjölda og hefur hæstv. ráðherra einhver áform um að tryggja meira fé til embættisins svo hægt sé að hraða málsmeðferð þeirra mála sem heyra undir þessa deild?