149. löggjafarþing — 95. fundur,  29. apr. 2019.

sifjadeild sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu.

718. mál
[16:26]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Helga Vala Helgadóttir) (Sf):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. dómsmálaráðherra fyrir svarið. Mér er svolítið brugðið, verð ég að segja, af því að það virðist vera sem hæstv. dómsmálaráðherra telji að þessi mál, sem voru talin upp í fyrri fyrirspurn, snúist bara um hagræðingu. Að þetta snúist bara um að hagræða og að það þurfi einhvern veginn að finna út úr þessu þegar — eins og fram hefur komið, og var tekið skýrt fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar um stöðu sýslumannsembættanna um allt land — illa var staðið að sameiningunni sem farið var í og samþykkt hér á þingi 2014 og tók gildi 1. janúar 2015.

Það var farið illa af stað við þetta, það var ekki verið að skoða hvaða verkefni væru fyrir hendi, það fylgdi ekki fjármagn með. Óteljandi verkefni sem sýslumannsembættin þurftu að fara í, t.d. er varðar skjalavörslu og annað, voru ófjármögnuð og hvet ég hæstv. ráðherra til að lesa þessa skýrslu. Þetta var frumkvæðisathugun hjá Ríkisendurskoðun sem fór í þessa úttekt á sýslumannsembættunum og þetta er eiginlega algjör rassskelling fyrir stjórnvöld, hvernig þau stóðu á þessu máli. Við eigum eftir að ræða þetta sérstaklega hér í þinginu seinna.

Herra forseti. Þetta ástand snýst ekki bara um fjármagn. Rafræn þinglýsing er vissulega frábært dæmi en við tökum ekki sömu krónuna og notum hana margsinnis. Það er hagræðingarkrafa á embættunum nú þegar. Við getum ekki bæði fækkað starfsfólki og ætlaði að nota sama starfsfólkið á sifjadeildinni til þess að vinna niður það ófremdarástand sem þar er.

Við verðum að hugsa um börnin, herra forseti, og það fólk sem er að reyna að losna úr mögulega vondum samböndum, ofbeldissamböndum, og ég held að við verðum að gera annað en að vísa í það að við ætlum að hefja hér rafrænar þinglýsingar.