149. löggjafarþing — 96. fundur,  29. apr. 2019.

fullgilding samnings um að koma í veg fyrir stjórnlausar úthafsveiðar í miðhluta Norður-Íshafsins.

773. mál
[17:05]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Með þessari þingsályktunartillögu er leitað heimildar Alþingis til fullgildingar á samningi um að koma í veg fyrir stjórnlausar úthafsveiðar í miðhluta Norður-Íshafsins. Samningurinn var undirritaður hinn 3. október 2018 á Grænlandi. Með samningnum skuldbinda strandríkin við Norður-Íshaf að Íslandi meðtöldu ásamt úthafsríkjunum Japan, Kína, Suður-Kóreu og ESB, sem er að vísu ekki ríki heldur ríkjabandalag, sig til að hefja ekki atvinnuveiðar á þeim hluta Norður-Íshafsins sem telst vera úthaf.

Bakgrunnur þessa máls er vitaskuld vel þekktur. Norður-Íshafið hefur hingað til verið að mestu þakið ís allan ársins hring og engar fiskveiðar hafa verið stundaðar á úthafinu utan lögsögu strandríkja á miðhluta Norður-Íshafsins af þeim sökum. En aðstæður á norðurslóðum breytast hratt sökum loftslagsbreytinga og því er ekki hægt að útiloka að í náinni framtíð kunni að vera mögulegt að stunda þar fiskveiðar í atvinnuskyni. Þá er mikilvægt að tryggja að komi til þess að þar megi stunda slíkar veiðar þá verði það aðeins gert á grundvelli fiskveiðistjórnar sem byggir á vísindalegu mati á veiðiþoli viðkomandi fiskstofna og áhrifum slíkra veiða á viðkvæm vistkerfi á þessum slóðum.

Þessi samningur skapar forsendur til þess í fyrsta lagi með því að með samningnum skuldbinda ríkin níu og ESB, sem undirritað hefur samninginn, sig til þess að hefja ekki atvinnuveiðar á úthafinu á miðju Norður-Íshafi fyrr en fyrirkomulag liggur fyrir um hvernig stjórna megi slíkum veiðum. Í öðru lagi með því að skapa ramma og vettvang fyrir samstarf þessara ríkja til að fylgjast með þróun mála á þessu svæði, skiptast á vísindalegum upplýsingum og taka ákvarðanir um hvernig fyrirkomulagi hugsanlegrar framtíðarnýtingar þess verði háttað með ábyrgum hætti og á grundvelli varúðarnálgunarinnar.

Þessi samningur er mikilvægur fyrir íslenska hagsmuni því að hann stuðlar að því að tryggja að ákvarðanir um verndun og sjálfbæra nýtingu þessa hafsvæðis verði með ábyrgum hætti, en jafnframt tryggir samningurinn framtíðarhagsmuni Íslands með því að skipa Íslandi sæti við borðið þegar ákvarðanir um ráðstafanir um vernd og nýtingu þessa svæðis verða teknar í framtíðinni.

Ég vil að lokum, virðulegi forseti, geta þess að einn angi þessa máls er réttarstaða hafsvæðanna í kringum Svalbarða. Noregur hefur lýst yfir 200 mílna fiskverndarlögsögu umhverfis Svalbarða. Sú gjörð á sér ekki stoð í Svalbarðasáttmálanum frá 1920 og hefur henni verið mótmælt, m.a. af Íslandi. Þessi samningur breytir í sjálfu sér engu um réttarstöðu þessa hafsvæðis, en þar sem hér er um að ræða hafsvæði sem liggja að Norður-Íshafi telur utanríkisráðuneytið rétt að fullgildingu Íslands verði fylgt með yfirlýsingu þar sem áréttuð verður afstaða Íslands um réttarstöðu hafsvæðanna umhverfis Svalbarða.

Virðulegi forseti. Ég hef nú gert grein fyrir helstu efnisatriðum þingsályktunartillögunnar og legg til að henni verði að lokinni þessari umræðu vísað til hæstv. utanríkismálanefndar og síðari umræðu.